Spurt verður að leikslokum en ekki vopnaviðskiptum.

Undanúrslitin í 100 metra hlaupinu, sem nú eru að hefjast, eru fyrstu úrslitin á svona móti í hlaupasögu Usain Bolt á þessum áratug, þar sem möguleikar eru á því að hann tapi, að sögn Sigurbjarnar Arngrímssonar. Þó telur hann sigur Bolts líklegri en að hann tapi gullinu. 

En enda þótt Bolt yrði 0,02 sekúndum frá því að koma fyrstur í mark í undanúrslitunum var augljóst, að hann slakaði meira á á lokametrunum en nokkur annar í hlaupinu. 

Auðvitað getur Bolt tapað, en hann ætti að hafa nóg spil á hendi til að vinna, ef honum mistekst ekki óvænt.

P.S.

Leikslokin liggja fyrir, hlaupið er búið og tímamót urðu: Veldistíma Bolts er lokið. Vitað var að vísu að hann yrði örlítið seinni af blokkunum en skæðustu keppinautar hans, en hitt kom á óvart, hve hröðun hans fyrstu 30 metrana var lélegri en búast mátti við.

Á þessum metrum tapaði hann tveimur mönnum of langt fram úr sér til þess að geta unnið það upp, þótt skriður hans væri góður síðustu 30 metrana.

Niðurstaða: Aldurinn tekur yfirleitt snerpuna fyrr af íþróttamönnum heldur en úthaldið og aflið. Á sínum tíma tókst Linford Christie að viðhalda snerpu sinni til 35 ára aldurs, en það var þá og er enn, svo fágætt, að segja má að þetta afrek Christies hafi nálgast kraftaverk.

Meðalmaðurinn er á hátindi líkamlegrar og andlegrar getu í kringum 25 ára aldurinn en síðan er hnignunin persónubundin.

 

Sagt hefur verið að hinn vafasami aldur hnefaleikarsins sé 30 ára aldurinn. Höggfastir hnefaleikarar halda þeim eiginleika lengur en öðrum eiginleikum, en ef hraði er þeirra skæðasta vopn, fá þeir minnkun hans harkalega í andlitið, samanber Roy Jones jr.  


mbl.is Bolt af öryggi inn í úrslitin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vorum ekki hlutlausir í raun.

Þótt Íslendingar mótmæltu hernámi Breta í orði 10 maí 1940, gengum við í raun í lið með Bandamönnum með því að biðja Bandaríkjamenn formlega um hervernd sumarið 1941.

Þetta var rétt ákvörðun í ljósi stöðunnar og þeirra heppni að Bandaríkjamenn voru formlega hlutlaus þjóð.  

En frá endurkjöri Roosevelts veturinn áður höfðu Bandaríkjamennn gengið ansi langt í stuðningi sínum við Breta, svo sem með Láns- og leigkjarasamningum sem Churchill kallaði "Magna Carta okkar tíma." 

Í ágúst árið áður hafði verið tekið höfðinglega á móti Winston Churchill þegar hann staldraði við í Hvalfirði og í Reykjavík eftir fund með Roosevelt Bandaríkjaforseta við Nýfundnaland, þar sem þeir gerðu samkomulag um samstöðu þjóða sinna, án þess þó að Bandaríkjamenn hyrfu formlega frá hlutleysi. 

Því að BNA var að vísu hlutlaust ríki i orði á þeim tíma, en þegar Adolf Hitler flutti magnaða ræðu þegar Þjóðverjar sögðu Bandaríkjamönnum stríð á hendur 11. desember 1941 rakti hann ýmsar gjörðir Bandaríkjamanna fram að því sem að mati Hitlers jafngilti þátttöku Kananna í stríðinu og lýsti Hitler því sem dæmi um einstakan friðarvilja sinn að hann hefði stillt sig um að segja BNA stríð á hendur! 

Í bókinni "Emmy, stríðið og jökullinn" sem ég hef dundað við að rita með hléum hin síðari ár, er það eitt erfiðasta viðfangsefnið að meta, hvernig Íslendingar hefðu tekið á móti Adolf Hitler ef Þjóðverjar hefðu tekið landið af Bretum og Foringinn komið í stutta heimsókn. 

Roosevelt Bandaríkjaforseti hafði óformleg afskipti á bak við tjöldin af því þegar við lýstum yfir þeirri ætlun að stofna lýðveldi, og dróst lýðveldisstofnunin lítillega vegna þess hve það var mikils virði fyrir okkur að Bandamenn styddu fyrirætlanir okkar í einu og öllu. 

Eftir lok stríðsins dróst það í meira en ár að við gerðumst aðilar að Sameinuðu þjóðunum vegna þess að stofnaðilar Sþ voru þjóðir, sem höfðu sagt Öxulveldunum stríð á hendur, en það var grundvallarstefna okkar, líka við stofnun NATO, að við hefðu verið og yrðum áfram herlaus þjóð. 

 


mbl.is Jón hjálpaði Bretum burt frá Dunkirk
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 5. ágúst 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband