Örlagavaldur Íslendinga.

Vatnajökull er að sönnu mikilfenglegt náttúrufyrirbæri, sannkölluð kóróna Íslands. En ef aðeins er um að ræða samanburð á ísmassanum einum væri hann skafl einn miðað við risann og nágrannann Grænlandsjökul. 

Grænlandsjökull er meira en 200 sinnum stærri og allt að tífalt þykkari en Vatnajökull og við það að fara einu sinni yfir hann þveran eftir að hafa farið margsinnis þvers og kruss um Vatnajökul kiknar maður í hnjánum af lotningu. 

En þegar þess er gætt að annar af tveimur stærstu möttulstrókum jarðar er undir Vatnajökli með tilheyrandi eldvirkni, stenst Grænlandsjökull ekki samanburð sem einstakt náttúrufyrirbæri, því að þetta samspil elds og íss á sér engan líka, en jökull Suðurskautslandsins er margfalt stærri en Grænlandsjökull.  

Því miður fyrir Íslendinga eru aðeins 285 kílómetrar í loftlínu frá Hornströndum yfir til Grænlands þar sem allt að 3700 metra háir útverðir innan við ströndina gefa 534 metra háu Hornbjargi langt nef. 

Nálægð Grænlandsjökuls hefur mikil áhrif hér á landi. Yfir þessu ógnar íshveli myndast annað mesta háþrýstisvæði jarðar á vetrum, aðeins Síberíuhæðin er hærri. 

Áhrif Grænlandsjökuls eru margþætt. 

Þegar sumar lægðir koma norður með austurströnd eiga þær til að halda áfram til norðurs meðfram vesturströnd Grænlands.

Þar enda þær oft för sína, því að þær komast ekki til austurs yfir jökulinn.

Kuldahjálmur Grænlandsjökuls hefur fleiri áhrif. Fyrir suðvestan Ísland er að meðaltali lægsti meðalþrýstingur jarðar í janúar og afleiðingarnar, umhleypingarnir í janúar og febrúar, eru Íslendingum kunnar.

Enn er að nefna það nýjasta, að ör bráðnun jökulsins flytur mikið magn af köldu, ósöltu og léttu leysingavatni út í hafið við Ísland og þar sem það mætir þungum, söltum Golfstraumnum, flýtur jökulvatnið ofan á Golfstraumnum, sem sekkur sunnar en ella.

Þetta gæti valdið staðbundinni kólnun við Ísland þótt nær alls staðar annars staðar á jörðinni hlýni.

Ekki þarf nema nokkurra metra hækkun sjávar vegna útflæðis hins mikla leysingavatns til að sökkva stórum strandsvæðum á Íslandi og eru stórir hlutar Álftaness og Kvosin, Tjörnin og Vatnsmýrin dæmi um slíkt, að ekki sé talað um strandsvæðí víða um heim þar sem hundruð milljóna manna búa.  

 


mbl.is Vara við hraðari bráðnun Grænlandsjökuls
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Pele vissi hvað hann söng.

Þegar frægðarsólir Messis og Ronaldos voru komnar hæst á loft fyrir allmörgum árum, sagði hinn frægi Pele að kornungur og efnilegur knattspyrnumaður, Neymar að nafni, ætti eftir að slá þeim við.

Þetta þótti hraustlega mælt, en nú er að koma í ljós að enda þótt ljóst væri að Pele tæki áhættu með svo afdráttarlausum ummælum um alveg óreyndan mann, vissi hann hvað hann söng.

Hinn svimandi hái verðmiði, sem settur er á Neymar er að vísu að hluta til vegna ungs aldurs hans en einnig vegna verðleika hans, sem þóttu koma vel fram í frægum 6-5 sigri Barcelona, þar sem Neymar átti langstærstan þátt í mörkunum, en Messi hins vegar hampað.

Hugsanlega var það augnablikið sem skipti sköpum um að í hönd fór sú atburðarás sem hefur skilað Neymari þangað sem hann er nú kominn.  


mbl.is Neymar vegur þungt í bjórdósum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þessu var spáð fyrir meira en 20 árum.

Í sumar hefur verið hitabylgja yfir Suður-Evrópu sem íslenskur veðurfræðingur lýsti þannig í viðtali í sjónvarpi, að stafaði af því að æ oftar hin síðari ári teygi hinn heiti þurri loftmassi, sem er yfir hinum söndum og eyðimerkum þakta nyrsta hluta Afríku, sig yfir suðurhluta Evrópu og veldur steikjandi og þurrum hita. 

Munurinn á meðaltals veðfarinu við suðurströnd og norðurströnd Miðjarðarhafs er sláandi þegar veðurtölur eru skoðaðar. 

Þannig er meðalúrkoma í Túnisborg 3 millimetrar í júlí, 16 millimetrar í Nice syðst í Frakklandi, en 61 millimetri í Lyon, sem er aöeins rúmum 200 kílómetrum norðar en Nice. 

Í níu daga ferð til brúðkaups skammt frá Avignon hefir fjölskylda mín kynnst hinu nýja Afríkuveðri syðst í Frakklandi, 35 til 41 stigs hita og steikjandi sól. 

Skógareldar og tilheyrandi.DSCN8959

En þessu var þegar spáð fyrir um aldarfjórðungi og einnig hættunni á því að fyrir sunnan Ísland myndi verða til einn af þremur til fjórum kuldapollum á jörðinni, - sá við Ísland vegna þess að kalt og tært bræðsluvatn frá heimsskautasvæðinu og Grænlandsjökli muni vegna léttleika síns fljóta yfir nyrsta hluta hins salta og þunga Golfstraums, sem sem sökkvi því fyrr en ella á norðurleið sinni með þeim afleiðingum að sjórinn á mótum straumanna kólni. 

Nú eru menn að finna út hve margar tugþúsundir manna, allt að 150 þúsund manns á ári hverju, muni láta lífið í hinu nýja loftslagi síðar á þessari öld. 

DSCN8960

Íslenskir aðdáendur hækkandi meðalhita á jörðinni hafa dásamað og fullyrt hér á blogginu að hitnunin hafi geysilega góð áhrif á allt líf og gróður um alla jörðina. 

Hvernig vaxandi eyðimerkurloftslag í suðurhluta Evrópu, hitar og þurrkar, muni bæta líf og gróðurfar, er sérkennileg kenning og sömuleiðis hugsanlegur kuldapollur við Ísland og sívaxandi súrnun sjávar.

Og ekki þarf nema líta snöggt á gróðurkort af jörðinni til að sjá eyðimerkurbeltið sem er norðan við miðbaug um þvera Afríku og Asíu. DSCN8968

Á facebook síðu minni er mynd af Helgu konunnni minni þar sem hún stendur ein á torginu fyrir framan Óperuna í Brussel. Ein af ástæðunum var sú, að vegna hins gríðarlega munar á hita Afríkuloftsins í sunnanverðu Frakklandi og svalans, sem kemur yfir Atlantshafið frá Suður-Grænlandi, stóð hvass strekkingsvindur yfir torgið.

Á akstursleiðinni sunnan frá Avignon var upp undir 20 stiga hitafall og því meiri öfgar í hita, því meiri vindur og óveður þar sem loftmassarnir mætast.

Ég hyggst setja hér inn mynd frá þekktustu ferskvatnsuppsprettu Evrópu nálægt Lacose, þar sem brúðkaupið var haldið.

Þar böðuðu léttklæddir strákar sig í kaldri ánni og stungu sér í hana til að kæla sig. 

Á efri myndinni frá þessum stað stendur einn þessara manna uppi á vegg og býst til að stinga sér og kæla sig í 4 stiga heitu vatninu. 

Stynjandi gamalt fólk á þessum slóðum átti ekki kost á slíku, enda þessar miklu lindir fágæti.   

 

 

 


mbl.is Öfgar í veðri kosta þúsundir lífa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 6. ágúst 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband