Líka ofmat að segja, að virkjun á Íslandi komi í veg fyrir kolaorkuver í Kína.

Þegar rætt er um virkjanir á Íslandi stilla stóriðju- og virkjanarfíklar því upp, að það verði að virkja alla virkjanlega orku hér á landi, því að annars muni kolaorkuver með sömu orkuframleiðslu rísa í Kína. 

Sem sagt: Til að koma í veg fyrir að kolaorkuver rísi í Kína verði að virkja á Íslandi. 

Í þessu felast tvær rangar grundvallarforsendur. 

Annars vegar þær að hvergi í heiminum sé hægt að virkja hreina orku nema á Íslandi. 

Og hins vegar að Kínverjar hafi menn á fullu í því að fylgjast með því hvað, hvenær og hvernig sé virkjað á Íslandi og hætti við að reisa kolaorkuver í með hliðsjón af því. 

Nær væri að álykta sem svo, að með því að bjóða "lægsta orkuverð" í heimi séu Íslendingar að koma í veg fyrir virkjun hreinna orkugjafa í öðrum löndum, þar á meðal löndum, þar sem ríkir mikil fátækt og orkuskortur. 

Rökin varðandi þessi tvö atriði minna mig svolítið á það þegar ég var sex ára og víða í heiminum var sultur í kjölfar stríðsins. 

Var ég þá brýndur til að borða matinn minn með þeim rökum að fátæku börnin á Indlandi fengju svo lítið að borða. 

Var mér ómögulegt að skilja hvernig matarát mitt gagnaðist sveltandi börnum í fjarlægum löndum. 


mbl.is „Myndum aldrei kaupa kol í þessu magni“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Á undan samtíð sinni. Merkar rannsóknir á endingu háhitavæða.

Nafn Braga Árnasonar er þekkt víða um lönd þótt ekki hafi verið oft minnst á hann hinn síðari ár hér heima. 

Nú er hann allur en skilur eftir sig merka sögu um mann, sem var á undan samtíð sinni. 

Bragi var í fararbroddi þeirra, sem sá möguleikana á að nota vetni sem orkubera eins og alþjóðlegar og innlendar viðurkenningar bera með sér. 

Í þeim sveiflum, sem leikið hafa um vísindaheiminn í þessum efnum, hefur trúin á vetnið reynst misjöfn. 

Á tímabili, fyrir nokkrum árum, virtust aðrir möguleikar, svo sem rafbílar og metanknúnir bílar eiga meira gengi að fagna, en Toyota verksmiðjurnar misstu þó aldrei sjónar af möguleikum vetnisins. 

Nú eru þeir að vænkast á ný, einum vegna mikillar drægni, og fleiri að koma inn í, en hátt verð á vetnisbílum er þó enn dragbítur. 

En Bragi hefur gert fleira. Hann fór á eigin spýtur upp á virkjanasvæðið Nesjavellir-Hellisheiði og stundaði þar afar mikilvægar mælingar á endingu háhitasvæða. 

Á þeim tíma hafði ég samband við hann og innti eftir því hvernig gengi, en hann var afar varkár og sagði, að mun meiri rannsóknir þyrfti. 

Loks féllst hann þó á að upplýsa þá fyrstu bráðabirgðaniðurstöðu að orka svæðisins myndi endast í 50 ár, en síðan myndi þurfa 100 ár til að jafna sig og ná upp fyrri orku. 

Ef þetta er nærri lagi, er það griðarlega mikilvægt fyrir nýtingu háhitasvæðanna, því að það sýnir í grófum dráttum, að ef menn ætla að standa við stór orð um endurnýjanlega orku og sjálfbæra þróun, þarf að taka upp alveg ný vinnubrögð í þessum efnum þar sem horft er yfir landið allt. 

Í útvarpsviðtali við Ara Trausta Guðmundsson spáði Bragi því að bein nýting sólarorkunnar yrði framtíðarlausnin í orkuvandamálum jarðarbúa. 

Verði sú raunin reynist Bragi enn og aftur á undan samtíð sinni. 


mbl.is Andlát: Bragi Árnason
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Disney spáði plastbyltingu, - en ekki þessu afbrigði.

Þegar Walt Disney var hvað afkastamestur í gerð kvikmynda og skemmtigarðsins Disneylands var hann ákafur aðdáandi plastsins, sem þá var að ryðja sér til rúms. 

Hann lét meira að segja gera hús þar sem allt var úr plasti, jafnt húsið sjálft sem allt inni í því. 

Með þessu vildi Disney vera í fararbroddi í allsherjar plastbyltingu. 

Það tókst að stærstum hluta. 

Plastið er bókstaflega alls staðar, og til dæmis er flest innan í bílum úr plasti á einn eða annan veg. 

Disney trúði eins og títt var um Bandaríkjamenn að gersamlega tæknivædd veröld mynd færa mannfólkinu mesta hamingju. 

Þeim mun meira af framleiddum iðnaðarvörum og vélknúnum þægingum, því betra. 

Hann sá hins vegar ekki fyrir, að með tímanum yrði þessi mikla og gagngera bylting að andhverfu sinni hvað varðaði áhrif þess á umhverfið, bæði líkamlega og andleg. 


mbl.is Örplast í sjávarsalti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 10. september 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband