Kanadísk jöklarúta í RÚV 1999. Sleipnir með mikið flotmagn.

Á ferð um Banff-þjóðgarðinn í Klettafjöllunum 1999 gat að líta stóra jöklarútu sem ekið var upp skriðjökulstungu á troðinni slóð. 

Það sást vel þá, að dekkin voru ekki nægilega stór til þess að þessi rúta gæti flotið ofan á snjó líkt og gert er á jöklajeppum hér á landi. 

Engu að síður var fjallað lítillega um rútuna og hún sýnd í heimildarmynd, sem ég gerði. 

Það er til formúla um flot dekkja á snjó, sem hefur reynst vera raunhæf. 

Þegar Arngrímur Hermannsson lét smíða sína jöklarútu fyrir nokkrum misserum sýndi útreikningur að hún hefði nægt flot, álíka mikið og Landcruiser á 38 tommu dekkjum. Jöklarútan Sleipnir

Nú vantar mig bara tölurnar yfir dekkin á Sleipni og þyngd þess bíls til að giska á hvað hann flýtur vel.

P. S. Ég er búinn að fá tölurnar og flotið er gríðarlegt:  Flotstuðullinn 36 tonn, en rútan vegur 27 tonn. Miðað við þær tölur er flotið 134%, álíka mikið og ef 2,3 tonna jeppi væri á 44 tommu dekkjum, en flestir 44 tommu jeppar vega upp undir 3 tonn.

Algengustu nýrri ágerðir jöklajeppa á 38 tommu dekkjum sem hafa flotstuðulinn 1900 kíló, vega 2,4-2,6 tonn og eru því með um 80% flot. 

Ýmis atriði vega hvert á móti öðru í svona samanburði. Það er plús að dekkin á Sleipni eru radialdekk en 44 tommu dekk eru diagonaldekk. Það getur verið mínus í brekkum að Sleipnir er talsvert þyngri að aftan en að framan því enda þótt framdekkinn þjappi fyrir afturdekkin á ferð, geta afturdekkin sokkið nokkuð niður þegar farið er upp brekkur í erfiðu færi.

Á átta hjóla bíl er hreyfimöguleiki hjólanna upp og niður gagnvart öðrum hjólum takmarkaðri en á fjögurra hjóla bílum. En á sléttu yfirborði kemur þetta ekki að sök.  


mbl.is Risinn sem býr á jöklinum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ósamræmi í yfirlýsingum og nafngiftum.

Í viðtali í Kastljósi lýsti borgarstjóri því yfir að búið væra að gera svo miklar mælingar af ýmsu tagi vegna hugmyndarinnar um flugvöll í svonefndu Hvassahrauni, (sem er rangnefni, hraunið heitir Afstapahraun),  að það þyrfti lítið meira að gera. 

Aðrir benda á að slíkt sé á algeru frumstigi að öllu leyti. Táknrænt að geta ekki kallað flugvallarstæðið sínu rétta nafni. 

Helsti ókostur flugvallarstæðisins hefur blasað við frá upphafi, nálægð þess við Reykjanesfjallgarðinn í alengustu rok vindáttinni, austan-suðaustan, 

Í þeirri vindátt verður afar mikil ókyrrð í aðflugi og fráflugi, sem Agnar Koefoed-Hansen þáverandi flugmálastjóri sýndi Flugráði fram á með því að fá flugstjóra til að gera aðflug eftir fyrirhuguðum aðflugsferli. 

Reykjanesfjallgarðurinn frá Vífilsfelli um Bláfjöll og að og með Sveifluhálsi er helmingi nær þessu vallarstæði en Reykjavíkurflugvelli, þar sem menn finna líka fyrir ókyrrð af fjöllunum í þessari vindátt, en samt augljóslega miklu minna en þegar komið er í návígi við fjöllinn eins og verður í Afstapahrauni.

Engar nothæfar mælingar eða tilraunaflug liggja fyrir um hreyfingar lofts í aðflugs- og fráflugsferlunum. 

Flugstjóri á flugvél sem missir vélarafl í flugtaki í átt að Lönguhlíðinni sem er 621 metra hár fjallsvegur, verður í margfalt meiri vandræðum en ef flugtækið væri í Keflavík eða Reykjavík.  


mbl.is „Þetta á mjög langt í land“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Var Sigurbjörn rændur Íslandsmeti sínu? Það kallar á skýringar.

Sigurbjörn Bárðarson er eini hestaíþróttamaðurinn sem hefur verið valinn íþróttamaður ársins. 

Það gerðist árið 1993. Eitt af því sem hann afrekaði á hestbaki á blómaárum sínum var að setja Íslandsmet í 250 metra skeiði, sem enn í dag er langbesti árangurinn í þeirri grein. 

En tíminn var tekin handhelt en ekki rafrænt eins og síðar varð og meti Sigubjarnar því ekki lengur viðurkennt. 

Í fyrra var Íslandsmet Hilmars Þorbjörnssonar í 100 metra hlaupi næstum þvi jafnað, en munurinn var sáralítill.

Í fyrstu var tilkynnt að þetta væri nýtt Íslandsmet, en ég gekkst þá fyrir því að málið yrði athugað betur.  

Frjálsíþróttaforystan sýndi þá skynsemi og drenglyndi að notast við alþjóðlega formúlu, sem gerir ráð fyrir þeim tímamun sem er á handheldri tímatöku og rafrænni, og hélt Hilmar meti sínu mjög naumlega, en missti það síðan endanlega nú í sumar. 

Munurinn á handheldri töku á meti Sigurbjörns og því meti sem nú er viðurkennt er svo mikill að fágætt er. 

Af einhverjum ástæðum, sem ég þekki ekki, kom í ljós í fyrra, þegar ég fór að kanna málið, að hvorki forysta hestamannafélaganna né íþróttafréttamenn höfðu áhuga á að afgreiða þetta mál á sama hátt og metið i 100 metra hlaupi karla var afgreitt.

Er það miður, því að sjálfsögðu er þetta spurning um vilja. Að vísu er munurinn væntanlega meiri á milli handheldrar tímatöku og rafrænnar í 250 metra skeiði en 100 metra hlaupi, því að hluti af mismuninum á þessum tveimur tímum felst í að reikna út þann tíma sem það tekur hvellinn úr startbyssunni að fara úr henni til eyrna þeirra sem standa með skeiðúrin við markið.  

Úr því að frjálsíþróttamenn gátu fundið þennan mun út hjá sér er einkennilegt ef ekki er hægt að finna hann út hjá hestamönnum. 

Ég skora á menn, þegar Sigurbjörn Bárðarson hefur enn einu sinni, á gamals aldri, sýnt hvílíkur afreksmaður hann er, að gefa honum til baka hið glæsilega Íslandsmet hans. 

Ef ekki, verður að útskýra af hveju það sé ekki hægt. 

 


mbl.is Sigurbjörn sigursæll
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 13. september 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband