Listrænir gjörningar geta verið og mega vera af fjölþættum toga.

Listir hljóta alltaf að verða metnar eftir þeim hughrifum sem þær hafa á fólk.

Ef listin er sönn, áhrifarík, hefur boðskap eða skilaboð og snertir við áheyrendum og áhorfendum, skiptir ekki máli hvort um er að ræða margslunginn gjörning, ofinn í mörgum sjónrænum og hljóðrænum þáttum og hann kosti gríðarlega vinnu og peninga, eins og tónleikar Páls Óskars Hjálmtýssonar virðast ætla að verða, eða hvort um er að ræða einföldustu list allra tíma: Manneskja fyrir framan manneskjur með eingöngu eigin rödd og líkamstjáningu að vopni sem skapar augnsamband og gagnkvæm viðbrögð.

Páll Óskar getur hvort tveggja út í hörgul og allt þar á milli þegar honum tekst best upp.

Áhrifamesti flutningur í kirkju, sem ég man eftir, er þegar hann söng lagið "My funny Valentine" við einfaldan undirleik í Hallgrímskirkju við jarðarför Guðlaugs Bergmann. 

Allir þekkja líka andstæðuna, hinn stórbrotna gjörning í fararbroddi Gleðigöngunnar, sem er mikið sjónar- og heyrnarspil. 

Enginn maður er óskeikull og flókinn og yfirgengilegur gjörningur getur misheppnast rétt eins og það að syngja eða tala einn á sviði. 

Ég óska Palla velfarnaðar í sínu stóra verkefni á morgun. Þegar hann er í ham er hann eins konar náttúruafl, sem á vel við að njóti sín á Degi íslenskrar náttúru. 

 

 


mbl.is Flengir íslenska tónlistarbransann
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Voru mistök dómsmálaráðherra þúfan, sem velti hlassinu...?

Þegar Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra greindi Bjarna Benediktssyni frá því í trúnaði, að faðir hans hefði skrifað umsögn um ósk manns, sem vildi fá uppreisn æru eftir að hafa afplánað stærstu refsingu, sem veitt hafði verið í málum af hans toga, kom hún Bjarna í raun í ómögulega stöðu.

Af því að hún sagði Bjarna þetta í trúnaði, hefði Bjarni sjálfur rofið trúnað við hana, ef hann hefði greint öðrum frá þessu.

Hann átti þá aðeins einn annan kost, að halda trúnaðinn og leyna þar með þessu fyrir öðrum ráðherrum.

Sem sagt: Annað hvort trúnaðarbrot við dómsmálaráðherra eða trúnaðarbrestur gagnvart samstarfsráðherrum. 

Með því að velja seinni kostinn var tekin sú augljósa áhætta að einhverjir ráðherranna eða annar hvor samstarfsflokkurinn teldi slíka leyndarhyggju valda trúnaðarbresti.  

Málið væri dropinn sem fyllti mælinn eftir þúfan velti hlassinu.

Draga má því þá ályktun að dómsmálaráðherra hefði átt að ihuga það betur, hvaða stöðu hún var að koma þessu máli í snemma í júlí með því að "leka" trúnaðaratriði í einn mann.  

 


mbl.is Áfall að heyra af undirskriftinni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kosningar ala 1979 og 2009. Framsókn með lúmsk sterka stöðu?

Hin flókna staða, sem komin er upp í íslenskum stjórnmálum, líkist mjög því sem gerðist í september 1979 og janúar 2009. 

Í bæði skiptin var gripið til þess að halda kosningar hið fyrsta til þess að stjórnmálamennirnir fengju nýtt og ferskt umboð, en í millitíðinni sat minnihlutastjórn sem varin var vantrausti. 

Kosið var í desember 1979 og apríl 2009. 

2009 urðu úrslit kosninganna afgerandi og ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur sat út kjörtímabilið, að vísu með lemstrað og tæpt fylgi þegar á leið. 

1979 varð hins vegar einhver erfiðasta stjórnarkreppa lýðveldissögunnar, sem endaði þó með óvæntri myndun stjórnar Gunnars Thoroddsens. 

1988 féll ríkisstjórn þriggja flokka í frægri beinni útsendingu á Stöð 2 eftir að hafa setið í aðeins rúmt ár, en engu að síður tókst að mynda nýja ríkisstjórn án þess að ganga til kosninga. 

Svo var að heyra á Sigurði Inga Jóhannssyni í dag að til greina gæti komið að verja minnihlutastjórn Sjálfstæðisflokks og Viðreisnar vantrausti, og aldrei er að vita nema að Sigurður Ingi og flokkur hans lumi á lúmsk sterkri stöðu, einkum vegna frammistöðu hans sem forsætisráðherra í fyrra, sem kom á óvart og aflaði honum ákveðins trausts.  

 

 


mbl.is „Ekki lengra gengið að sinni“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jafn snöggt og "óvænt" og stjórnarslitin haustið 1979.

Einhver óvæntustu stjórnarslit íslenskrar stjórnmálasögu urðu á svipuðum árstíma og nú haustið 1979, þegar fundur Alþýðuflokkskvenna í Reykjavík ályktaði um kvöldmatarleytið síðla septemberdags að slíta ætti stjórnarsamstarfi þess flokks við Framsóknarflokk og Alþýðubandalag. 

Þessi ályktun kom eins og þruma úr heiðskíru lofti, rétt eins og "leyndarhyggjumálið" kom í gær. 

Vinstri stjórnin, sem mynduð var 1978,  hafði að vísu átt í miklum vandræðum vegna ágreinings stjórnarflokkanna allt frá myndun hennar rúmu ári fyrr, en um sumarið 1979 töldu þó flestir að eftir samþykkt svonefndra Ólafslaga um vorið, væri búið að leysa erfiðustu málin og fyrir lægi að leggja fram fjárlagafrumvarp og hefja eðlileg þingstörf. 

En allt í einu, á einni kvöldstund, kom í ljós, að tíðindaleysið í stjórnmálunum sumarið 1979 hafði aðeins verið lognið á undan storminum. 

Ályktunin, sem sprengdi ríkisstjórnina, var samþykkt þegar formaður Alþýðuflokksins var erlendis, og af stað fór atburðarás, sem var nokkurn vegin jafn ófyrirsjáanleg og sú atburðarás sem fór af stað eftir að Panamaskjölin komust í hámæli í fyrra: Óróatími á stjórnmálasviðinu með nýjum kosningum. 

Hvað gerist nú í haust er álíka óvíst og það sem gerðist 2016 og 1979.


mbl.is Slíta samstarfi við ríkisstjórnina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 15. september 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband