Gamalkunnug "skítalykt af málinu."

Við upphaf þess þegar Siggi Sigurjóns var að móta persónuna Ragnar Reykás varð orðtakið "skítalykt af málinu" í munni hinnar mjög svo íslensku persónu á allra vörum.

Síðan "áltrú" eða eins konar stóriðjutilbeiðsla var tekin upp hér á landi 1965 hefur ákveðin aðferð varðandi slík verkefni orðið að eins konar helgisið eða ritúali. 

Í þessari aðferð felst að selja orkuna á hrakviðri eða eins lágt og unnt sé til þess að það nægi fá erlenda stóriðju til landsins. 

Biblía átrúnaðarins var gefin út og send helstu stóriðjufyrirtækjum heims 1995 undir kjörorðinu "Lægsta orkuverð heims! - sveigjanlegt mat á umhverfisáhrifum." 

Í kjölfarið fylgdu eins margar stórvirkjanir og risa stóriðjufyrirtæki og hægt var að ryðja braut með ítrasta offorsi. 

Sem dæmi má nefna að í samningnum við Alcoa skuldbatt ríkið sig til þess að breyta ekki skattalöggjöf landsins næstu 40 ár í þá veru að hækka leyfilegt skuldaþak Fjarðaráls. 

Þetta var gert til þess að tryggja, að fyrirtækið þyrfi aldrei að borga krónu í tekjuskatt, sama hve mikið það græddi og nota í þessu skyni stórfelldar bókhaldsbrellur með því að láta dótturfélög Alcoa erlendis lána Fjarðaráli nógu mikið til þess að skuldsetningin æti upp gróðann á pappirunum. 

Á Bakka við Húsavík voru veittar stórfelldari ívilnanir hlutfallslega vegna kísílvers en nokkur ríkisstjórn hafði gert á undan. 

Í Helguvík komust menn upp með alls kyns frávik, allt frá búnaði verksmiðjunnar og hæð hennar til vanskila við nánast allt og alla auk stórfelldrar mengunar. 

Á Grundartanga átti stórfellt tilraunaverkefni Silicor Materials að fljúga í gegn án þess að það þyrfti einu sinni að fara í gegnum mat á umhverfisáhrifum, og annað var eftir því. 

Nú hefur náttúruverndarfólk unnið sigur í erfiðri baráttu gegn því sem þarna átti að keyra í gegn á sama hátt og tíðkast hefur æ ofan í æ.

Er ástæða til að fagna því og þakka þeim, sem stóðu vaktina í þessu máli.  


mbl.is Fagnar „fullnaðarsigri“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Höfum Heiðmörk, Þelamörk, Þrándheim, Björgvin og Finnmörk í heiðri.

Eftir 1100 ára hefð hér á landi varðandi örnefni í Noregi ber á tilhneigingu til þess að hverfa frá henni. 

Heitin Hedmark, Telemark, Finnmark o.s.frv. setja Heiðmörk, Þelamörk, Björgvin og Finnmörk út í kuldann. 

Íslensk tunga er í grunninn sama tungumálið og "gammel norsk", það mál sem talað var á Íslandi og í Noregi öldum saman og mér finnst heldur hjákátlegt í eyrum Íslendings ef þúsund ára hefð verður rofin í þessu efni. 


mbl.is Tveir látnir í flugslysi í Hedmark
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Áður voru Sjallar og Framsókn með meira en 60 prósent, nú með mest 40.

Eitt af höfuðatriðum íslenskra stjórnmála frá fullveldi til 2009, eða í tæplega 90 ár, var að tveir stærstu flokkarnir, Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn, voru samanlagt með stóran meirihluta kjósenda að baki sér, eða yfir 60 prósent. 

Þetta þýddi, að eftir hverjar kosningar, meira að segja kosningarnar 1978, var sá stjórnarmyndunarmöguleiki ævinlega inni í myndinni að þessir tvæir flokkar gætu einir myndað meirihlutastjórn. 

Enda gerðu þeir það 1932-34, 1950-56, 1974-78, 1983-87, 1995-2007 og 2013-16. 

Jafnvel þótt menn segðu að Viðreisn ætti frekar að teljast hægra megin en vinstra megin, hafa Sjallar, Framsókn og viðreisn ekki verið með samanlagðan meirihluta. 

Sumum virðist erfitt að skilja, að í upphafi núgildandi stjórnarskrár segir að Ísland sé lýðveldi með þingbundinni stjórn. 

Það þýðir að ævinlega, líka þegar búið er að ákveða þingrof, halda þingmenn umboði sínu frá þjóðinni alveg til kjördags, og nýir þingmenn fá áframhaldandi umbooð nýs þings eftir kjördag. 


mbl.is Með jafnt fylgi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Algerlega óviðundandi ógn. "GAGA".

Vegna hinnar miklu og mögnuðu atburðarásar í kringum Kúbudeiluna 1962 hefur hún ranglega verið talin mesta hættan á gereyðingarstyrjöld, sem steðjað hefur að mannkyninu. 

Hið rétta er, að aldrei hefur hefur mannkynið staðið nær slíku en í september 1983 þegar sovéskur liðsforingi, Stanislav Petrov, tók þá ákvörðun upp á eigin spýtur að hundsa aðvörun um kjarnorkuárás frá Bandaríkjunum og treysta frekar á eigin ágiskun um að um bilun í tölvu- og gervihnattastýrðu aðvörunarkerfi væri að ræða. 

Hann giskaði rétt og fyrir bragðið var ekki gripið til gagnárásar. 

En á móti kom að hann féll í ónáð í mörg ár og var refsað fyrir að fara ekki eftir reglum hersins um ákvarðanatökur. 

Það sem gerði þetta atvik svo hættulegt var að einmitt á þessum tíma ríkti einstaklega mikil tortryggni og úlfúð á milli leiðtoga risaveldanna. 

Ronald Reagan hafði kallað Sovétríkin "heimsveldi hins illa" og efnt til vígbúnaðarkapphlaups. 

Aðeins 25 dögum fyrr höfðu Sovétmann skotið niður Suður-Kóreska farþegaþotu sem hafði flogið inn yfir austurströnd Rússlands og allt var á suðupunkti yfir þessu. 

Enn meiri hætta fólst í því hve viðbragðstíminn til að taka ákvörðun um gagnárás gegn kjarnorkuárás er skelfilega stuttur, í þessu tilfelli aðeins rúmlega kortér.

Allt fram á þennan dag vofir yfir mannkyninu hættan á kjarnorkustríði vegna mistaka og vopnabúrin eru stærri en 1962 og 1983.

Hætta felst einnig í því að tiltölulega lítilfjörleg mistök geti leitt af sér stigmögnun, sem reynist ómögulegt að stöðva.

Kenningin um MAD (Mutual Assured Destruction) eða GAGA (Gagnkvæm Altryggð Gereyðing Allra) byggist á því að hvor aðili um sig verði að sýna gagnaðilanum fram á það á óyggjandi hátt að ekki verði hikað við að beita kjarnorkuvopnum ef þörf sé talin á því.

Þessi kenning er fullkomlega galin en forsenda fyrir tilveru kjarnorkuvopnabúranna.

Þess vegna er þetta langstærsta ógnin, sem raunverulega steðjar að mannkyni, þótt svikalogn ríki.  


Bloggfærslur 19. september 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband