Íhugunarefni fyrir Bjarna Ben.

Það er íhugunarefni fyrir Bjarna Benediktsson formann Sjálfstæðisflokksins að langflestir aðspurðra í skoðanakönnun vilji sjá Vinstri græna í stjórn, næstum því tvöfalt fleiri en vilja sjá Sjálfstæðisflokkinn í stjórn. 

Þetta er of mikill munur til þess að hann geti verið eðlilegur. 

Að minnsta kosti rýrir þetta fullyrðinguna um að Sjálfstæðisflokkurinn sé kjölfestan og næstum því móðurskipið í íslenskum stjórnmálum. 

Ein skýring á þessu fyrirbæri kann að vera sú, að margir sem ella myndu kjósa Sjálfstæðisflokkinn, vilji styrkja einhvern flokkanna hægra megin á miðjunni til þess að halda í hemilinn á Sjöllunum í ríkisstjórn. 

Á árum Viðreisnarstjórnar Sjalla og krata kusu sumir Sjálfstæðisflokkinn í því skyni að hann yndi sínum hlut frekar í stjórninni og væri jafnframt svolítill dempari á harða hægri stefnu. 

Ég minnist þess sjálfur, að þegar mér fannst einsýnt 1974 eftir fall vinstri stjórnarinnar að stjórn Sjalla og Framsóknar væri eini stjórnarmyndunarmöguleikinn, kaus ég Framsóknarflokkinn til þess að hafa hemil á stefnu Sjallanna varðandi varnarliðið á Keflavíkurflugvelli eftir hina afgerandi niðurstöðu í undirskriftarsöfnuninni Varið land. 

Þegar á hólminn kom virtist þetta hafa lítið að segja því að öfl í röðum Framsóknarmanna urðu síst ragari við að taka þátt í "hermanginu" en hinir hefðbundnu "hermangarar" hjá Sjöllunum. 


mbl.is Flestir vilja VG í næstu stjórn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Já, en elsku frú..."

"Þjónn, það er fluga í súpunni" er þekkt setning í ýmsum bröndurum hér fyrr á tíð. 

Allur matvælaiðnaður, allt frá fyrstu gerð hráefnis til neyslu matarins hefur löngum átt í erfiðleikum með að losna alveg við óheppileg atvik, og rétt er að taka það skýrt fram, að þessi bloggpistill snertir fréttina um nagdýr í salati á mbl.is að engu leyti beint. 

Engu að síður kemur eldgamalt atvik, algerlega ótengt, upp í hugann. 

Vegna þess að faðir minn var bakarameistari og afi einnig heyrði maður ýmsar sögur hér á árum áður úr bakaríku landins. 

Ein af þeim var sú, að frú ein braut næstum í sér tönn við það að bíta í ryðgaðan smánagla, sem leyndist í vínarbrauði frá bakaríi nokkru. 

Hún fór öskureið með brauðið til bakarans og lét hann heyra það óþvegið, að svona lagað væri forkastanlegt með öllu og að hún ætlaði að kæra bakaríið. 

Bakarinn ætlaði að reyna að sefa reiði konunnar og draga úr alvarleika málsins og álpaðist til að segja: "Já, en elsku frú, það er erfitt að koma alveg í veg fyrir svonalagað, þetta getur alltaf gerst." 

Ekki þarf að orðlengja það hvað þetta klaufalega orðalag bakarans gerði illt verra, og trompaðist frúin algerlega.

Það vildi til, að bakararnir í þessu bakaríi voru tveir, og hinum bakaranum, sem kom þarna aðvífandi, tókst að lempa málið.  


mbl.is Dautt nagdýr í salatinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 20. september 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband