Vitlaust gefið á Íslandi.

Árið 2002 gaf Kjell Magne Bondevik, þáverandi forsætisráðherra Noregs, út þá yfirlýsingu að tími stórra vatnsaflsvirkjana væri liðinn í Noregi. Þá höfðu Norðmenn, tveimur áratugum á undan Íslendingum, notað rammaáætlun um virkjanakosti, en Íslendingar voru nýbyrjaðir á vinnu við sína 2002. 

Síðan 2002 hafa því spilin verið gefin þannig í Noregi, að það þurfi ekki hvað snertir stærri virkjanir, að vera með neinn orkunýtingarflokk. 

Hér á landi sitjum við hins vegar uppi með það að það er beinlínis lagt fyrir í rammaáætlun að ákveðinni hluti hennar skili af sér drjúgum fjölda stórvirkjana. 

Um það gildir ljóðlína Steins Steinarrs: "Það er nefnilega vitlaust gefið." 

Nú háir þessi vitlausa gjöf okkur víða um land þar sem sums staðar hefur verið farið um völl svipað og gert hefur verið á Reykjanesskaga, sem hefur farið í ruslflokk Rammaáætlunar. 

Vitlausa gjöfin felst einnig í ófullkomnum upplýsingum, svo sem varðandi Teigsskóg. 

Gefið er í skyn að hálsarnir í Gufudalssveit séu einstakar hindranir, jafnvel á landsvísu og þar af leiðandi sé ómögulegt að fara þá leið með nýjan og betri veg. 

Þó liggur fyrir að annar hálsanna, Ódrjúgsháls, liggur aðeins upp í 160 metra hæð eða álíka hátt og nýjasta hverfið við Vatnsendahæð í Kópavogi og að hægt er að gera nýjan og ágætan veg yfir hálsinn í stað hinnar bröttu krókabeygju, sem alltaf er sýnd í fréttum.

Einnig er það staðreynd að á leiðinni frá Bjarkarlundi til Patreksfjarðar yfir fjóra hálsa er sá vestasti, Kleifaháls, hæstur yfir sjó, 402 metrar, eða um 60 metrum hærri en Hjallaháls.

Þar að auki er Hjallaháls álíka hár og Klettsháls, rúmlega 330 metrar yfir sjó, en þetta samhengi og samanburður sést aldrei nefnt og enginn talar um að Kleifaheiði og Klettsháls séu óviðunandi hindranir. 

Geta má þess að áður en vegurinn um Klettsháls var lagaður, var hann oftar ófær eða erfiður yfirferðar en vegurinn um Hjallaháls. 

Nú er í ráði að gera betri veg yfir Dynjandisheiði, sem liggur upp í 500 metra hæð yfir sjó. 

Málum er alltaf stillt þannig upp að annað hvort þurfum við að sitja uppi með 60 til 70 ára gamlar troðningaveglínur eða að fá hraðbraut í gegnum Teigsskóg. 

Það er lágmarkskrafa að réttar upplýsingar liggi fyrir þegar ákvarðanir eru teknar í svona málum. En það hentar ekki þeim sem hafa frá upphafi keyrt það mál áfram án þess að ljá máls á neinni bitastæðrii umræðu. 


mbl.is Vill eldisreglu í fiskeldið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skárra að opna dyrnar og hreinsa loftið?

Nú eru liðin tæp tvö ár síðan það varð gassprenging inni í miðjum Framsóknarflokknum, sem hafði þá forsætisráðuneytið til umráða. 

Forsætisráðherrann, sem rauk þá á dyr fyrir framan heimsbyggðina, sá frá upphafi aldrei neitt athugavert við það sem hann gerði og hafði gert, heldur hefur hamast við það innan Framsóknarflokksins að stunda algera afneitun. 

Það stefndi í hamagang og uppgjör þegar skyndilega brustu á kosningar, sem nú sést að hlaut að gerast úr því að það þurfti ekki nema einn þingmann í einhverjum þriggja flokka til þess að finna ástæðu til að sprengja stjórnina. 

Og rétt eins og að það var á síðustu metrum fjárlaga, sem stjórnarslit urðu í þriggja flokka stjórn 1979, sést nú á ummælum minnast kosti tveggja þingmanna Sjálfstæðisflokksins, að eldar loguðu í lokuðum rýmum allra stjórnarflokkanna. 

Kannski var þá skárra að opna dyrnar og hreinsa loftið en að reyna að byrgja eldsmatinn inni.

Hvað Framsóknarflokkinn áhrærir hefur hann verið lamaður vegna innanhússástands í eitt og hálft ár og þetta hafa aðrir flokkar skynjað og því ekki árætt að eiga náið samstarf við hann.

Og það lá í augum uppi að flokkurinn yrði í stórfelldum vandræðum við að bjóða fram í kosningum og taka þátt í stjórnarmyndunarviðræðum með öll þessi innanhússvandræði og hjaðningavíg við val á framboðslista í farteskinu. 

 

Kannski er það það skásta sem getur komið fyrir flokkinn að dyrnar séu opnaðar og loftið hreinsað þannig að nú viti fólk hver stendur hvar.  


mbl.is Sigmundur Davíð hættir í Framsókn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sjaldgæfur klofningur. Sameining og samvinna með því að sundra?

Framsóknarflokkurinn hefur aðeins einu sinni á aldar ferli sínum klofnað á þann hátt, að annar flokkur hafi orðið til við klofninginn. Það var þegar Tryggvi Þórhallsson stofnaði Bændaflokkinn 1933. 

Tryggvi var fyrrverandi forsætisráðherra, en á síðustu ellefu árum hafa fimm formenn leitt Framsóknarflokkinn, svo að úrvalið er öllu meira en 1933 hvað snertir fyrrverandi formenn. 

Lýðveldisflokkurinn 1953, Borgaraflokkurinn 1987 og Frjálslyndi flokkurinn 1999 máttu teljast klofningsframboð frá Sjálfstæðisflokknum.

Kommúnistaflokkurinn 1930, Sameiningarflokkur alþýðu - sósíalistaflokkurinn 1938, Alþýðubandalagið 1956, Samtök frjálslyndra og vinstri manna 1970, Bandalag jafnaðarmanna 1983, Þjóðvaki 1994 og Samfylkingin 1999 komu úr stærstum hluta úr sósíalista og jafnaðarmanna.

Hvað Samvinnuflokkinn áhrærir geta möguleikar hans varla talist miklir miðað við það að sá Framsóknarflokkur sem klofnaði 1933 var með meira en tvöfalt meira fylgi en Framsóknarflokkurinn hefur notið síðustu misseri.

Nýir flokkar telja sig oft vera stofnaða til að sameina vinstri menn en það hefur aldrei gengið eftir til lengdar.

Hin nýja stjórnmálahreyfing Samvinnuflokkurinn gefur sig út fyrir að auka samvinnu meðal miðjuflokka. En miðað við flokkadrættina sem nú eru í gangi og fjölda lítilla framboða, er erfitt að sjá að þetta nýja útspil muni ná meiri árangri en allt sameiningartalið allt frá árinu 1938.  


mbl.is Fólk úr öðrum flokkum meðal frambjóðenda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 24. september 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband