Lappirnar dregnar í lengstu lög.

Nú eru rúm fimm ár síðan 64% í þjóðaratkvæðagreiðslu vildu að stjórnarskrá stjórnlagaráðs yrði lögð til grundvallar nýrri stjórnarskrá. Síðan þá hafa þeir, sem vilja halda í stjórnarskrá, sem er í öllum grundvallaratriðum hin sama og dönsk stjórnarskrá frá 1849. 

Eina breytingin sem gerð var 1944 var að setja íslenskan forseta í staðinn fyrir danskan konung. 

70 ára reynsla er fyrir því að öllum þeim mörgum stjórnarskrárnefndum hefur mistekist, sem flokkarnir á Alþingi hafa sett á laggirnar til að efna loforðin sem gefin voru 1944 um nýja stjórnarskrá.

Þess vegna var það vísasti vegurinn fyrir andstæðinga nýrrar stjórnarskrár til að draga lappirnar og tefja stjórnarskrármálið áfram, að skipa gagnslausa stjórnarskrárnefnd, koma með tillögu um tólf ára langdreginn feril sams konar nefnda og nú síðast í kvöld, að koma í veg fyrir einfalda breytingu á einu ákvæði núverandi stjórnarskrár.

Þeir, sem telja það sjálfsagt að hundsa þann eindregna vilja sem kom fram í þjóðaratkvæðagreiðslunni 2012, stagast á því að sú atkvæðagreiðsla hafi ekki verið marktæk, af því að þátttakan var 48 prósent.

Tæplega 70 prósent þjóðarinnar hafi annað hvort verið á móti stjórnarskránni eða setið heima.

Samkvæmt þessum rökum hefur enginn Bandaríkjaforseti verið rétt kjörinn af því að um 70 prósent Bandaríkjamanna á kosningaaldri hefur annað hvort greitt atkvæði gegn honum eða setið heima.

Og með sömu rökum má segja að meira að segja Sambandslögin frá 1918 hafi ekki verið samþykkt með meirihluta, af því að næstum 60 prósent kjósenda hafi annað hvort setið heima eða verið á móti þeim.  


mbl.is Allir flokkar nema tveir náðu samkomulagi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Ekki er munkur þótt í kufl komi."

Ofangreint máltæki frá fyrri öldum, "cucullus non facit monachum", eins og það var orðað á latínu, á við um þá niðurstöðu skoðanakönnunar Félagsvísindastofnunar að flestir vilji sjá Katrínu Jakobsdóttur sem næsta forsætisráðherra Íslands. Stuðningur yngstu aldurshópanna ræður mestu um þetta.

En ef hún á að verða forsætisráðherra verður eitthvað að breytast frá því eftir síðustu kosningar, þegar henni mistókst að mynda vinstri stjórn.

Þar munaði mestu, að strax eftir kosningarnar límdi Björt framtíð sig við Viðreisn, sem er flokkur hægra megin á miðjunni.

Með öðrum orðum var of mikið bil á milli vinstri vængs Vg og Viðreisnar.

Ef ég man rétt var Katrín í svipaðri stöðu í skoðanakönnunum fyrir síðustu kosningar og nú en það dugði ekki til að mynda stjórn.

Í síðustu kosningum kom ungt fólk fram sem fulltrúar hans og rætt hefur verið um að sumt af því sé það róttækt að jafna megi þeim við "villikettina" svonefndu sem voru ekki alltaf þægir í táumi í Vg þegar flokkurinn var í stjórn með Samfylkingunni.  


mbl.is Katrín nýtur stuðnings flestra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Spurning hvort hægt verði að fara jafn hratt og Hulduherinn gerði.

Þegar Albert Guðmundsson stóð frammi fyrir því að hrökklast úr Sjálfstæðisflokknum 1987 var mjög skammt til kosninga og flestir töldu að krafaverk þyrfti að koma til að Albert gæti gert neitt í þessu. 

En hinn frægi "Hulduher" hans afrekaði það að stofna Borgaraflokkinn og bjóða fram í tæka tíð. Og frambjóðendurnir sem spruttu upp á vegum þessa öfluga hóps komu úr það ólíkum áttum, að það sýndi mjög staðfast persónufylgi Alberts.  

Á tímabili rauk fylgi þessa framboðs upp í 27% ef ég man rétt en dalaði mikið fram að kosningunum. Engu að síður fékk flokkurinn sjö þingmenn kjörna og hjó það stórt skarð í fylgi Sjálfstæðisflokksins að hann fékk aðeins 27% atkvæða í kosningunum. 

Flokkurinn kom nógu mörgum þingmönnum að til þess að geta styrkt afar tæpa stjórn Steingríms Hermannssonar tveimur árum síðar og koma því til leiðar að hún sat út kjörtímabilið. 

Þetta kostaði þó klofning Borgaraflokksins og eftir að Albert var gerður að sendiherra í París 1989 fjaraði undan honum, svo að hann féll út af þingi 1991. 


mbl.is „Þetta er aftur orðið gaman“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 25. september 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband