Löngu tímabær ákvörðun um þjóðveg 1 og Öxi. Áfram bitbein.

Þegar þjóðvegur eitt er ekinn um Suðurland austur á firði búast bæði útlendir ferðamenn og flestir Íslendingar við því að leiðin sé auðrötuð og greið alla leið til Egilsstaða. 

En síðasti sjoppu- og þéttbýlisstaðurinn, sem þetta á við er Djúpavogur, því á leiðinni áfram þaðan koma upp undarlegar aðstæður. Léttir, Djúpavogi

Margir, sem fara eftir vegaskiltunum, eru allt í einu komnir á gamlan malarveg yfir heiði í stað þess að vera áfram á malbiki. 

Eru raunar á undan búnir að furða sig á malarkaflanum innst í Berufirði. 

Ég skrifaði tvisvar bloggpistla um þjóðveg eitt á Austurlandi og veginn yfir Öxi og viðbrögðin voru slík að ég man engin dæmi slíks fyrr eða síðar, hvað snertir lengd símtalanna. 

Þetta voru menn sem voru algerlega á öndverðum meiði og svo æstir, að það þurfti átak til að ljúka símtölunum. 

Hvorir um sig gátu varla komist af með minna en hálftíma, og þýddi ekkert að segja við þá að ég væri búinn að heyra hinn langa fyrirlestur svo oft áður, að ég þyrfti ekki að heyra hann einu sinni enn. 

Fyrir nokkrum árum sat ég ráðstefnu á Egilsstöðum þar sem einn ræðumanna, sveitarstjórnarmaður, lýsti þeim gróna og eindæma ríg sem búinn væri að valda miklum vandræðum og tjóni. 

Til dæmis því að þingmenn og ráðherrar hefðu forðast að taka ákvarðanir sem brýnt var að taka af ótta við að allt færi upp í loft. 

Ekki veit ég hvort þessu hefur linnt, en hvað sem um þetta má segja er það fagnaðarefni að loks nú skuli það hafa verið ákveðið, sem þurfti um þjóðveg eitt og heilsársveg yfir Öxi. 

Vegurinn yfir Breiðdalsheiði sem þjóðvegur eitt er auðvitað brandari, svo langur sem malarkafli hans er. 

Hann er ekki nema tíu kílómetrum styttri en fjarðaleiðin, sem er öll malbikuð. 

Þegar ég fór hringinn í fyrra og aftur í ár á Hondu PCX vespuhjólinu mínu, var tvísýnt um það hvort þoka væri á Öxi eldsnemma morgun, svo að fjarðaleiðin varð fyrir valinu. 

Hjólin á Hondunni eru lítil og malarvegir því varasamir, nema þeir séu því betri. 

Þess vegna kom Breiðdalsheiði ekki til greina fyrir mig, þótt hún beri hið flotta númer. 

Í ár var líklegra að Öxi væri í sæmilegu standi og því fór ég hana, enda er sú leið 61 kílómetrum styttri en þjóðvegur eitt og 71 kílómetrum styttri en fjarðaleiðin. 

Nú hefur samgönguráðherra sem betur fer afgreitt þetta mál og þess vegna er þýðingarlaust að hringja í mig til að taka hálftíma snerru um málið. 

P.S.  En það er eins og við manninn mælt, málið er strax orðið að kosningamáli fyrir austan, því að Einar Brynjólfsson alþínigismaður ætlar að berjast á móti þessari ákvörðun. 


mbl.is Hringvegurinn mun liggja um firðina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þjóðarpúlsinn er góð könnun en nýtur sín síður í hröðum púlsi.

Þjóðarpúls Gallup er að jafnaði viðamesta skoðanakönnun landsins, tekur yfir lengri tíma en aðrar kannanir og er með miklu fleiri þátttakendur. 

Venjulega gerir þetta Þjóðarpúlsinn tiltölulega marktækan. 

En þegar atburðarás er hröð eins og síðustu daga, nemur könnunin ekki snöggar sviptingar og getur misst talsvert af gildi sínu við það. 

Tvö prósentin, sem Miðflokkurinn fær, eru augljóslega ekki rétt tala, enda svöruðu langflestir spurningu Þjóðarpúlsins áður en flokkurinn varð til. 

Það er allur gangur á því nvernig nýjum framboðum helst á fylgi sínu i skoðanakönnunum. 

Stundum er fylgið miklu meira í fyrstu könnununum en þegar líður nær kosningum. 

Borgaraflokkur Alberts fékk fyrst 27 prósent en kom út með 10 í kosningunum. 

Þjóðvaki og Bandalag jafnaðarmanna lentu í svipuðu. 

Viðreisn og Björt framtíð juku hins vegar fylgi sitt fyrir síðustu kosningar. 

Ómögulegt er að segja hvort 7 prósenta skyndifylgi Miðflokksins endist til kosninga. 

En tvö prósent fylgi er ekki marktæk tala og hefur þar að auki áhrif á fylgi annarra flokka.  


mbl.is Flokkur fólksins með 10,1%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Læk" á nýja túlkun á taumleysinu.

Taumleysi, bruðl, sóun og græðgi eru fyrirbæri sem vert er að skoða og taka til meðferðar, svo mjög sem þessi fyrirbæri geta orðið mannkyninu dýrkeypt á 21. öldinni. 

Ástæða þess að mér líkar það vel þegar hressir ungir tónlistarmenn taka þetta fyrir og láta vaða er sú, að fyrir 54 árum lét ég vaða og prjónaði lýsingu á villtu partíi inn í harðsoðið og hratt rokklag sem ég samdi og nefndi "Ég hef aldrei nóg". 

"Ég vil meira, fæ aldrei nóg" hljómaði í bakröddum í síbylju lagsins, og í laginu er notað atvik úr einu partíi sem ég lenti í á þessum tíma, þar sem þjóðþekktur maður fór ofurölvi í ísskápinn á heimilinu, stal þar kjötlæri og ætlað með það út, en "dó" brennivínsdauða, liggjandi í stiganum við útidyrnar, faðmandi "kjötlæri hrátt" eins og segir í textanum. 

Hver tími hefur sinn túlkunarmáta, og þess vegna er sífelld endurnýjun í takt við tímann nauðsynleg.   


mbl.is „Þessi fokk it tilfinning“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 30. september 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband