Skánandi ástand í Norður-Kóreu gæti flækt málin.

Á tímabili fyrir um 40 árum var ástandið í Norður-Kóreu ekki eins slæmt og síðar varð. Og á þessum árum ríkti ófremdarástand í stjórnmálum og fjármálum í Suður-Kóreu. 

En síðan fór að halla undan fæti fyrir norðanmönnum á sama tíma og efnahagur sunnanmanna vænkaðist mjög þannig að landið er með eitt öflugasta hagkerfið í þessum heimshluta. 

Fyrir nokkrum árum var efnahagsástandið í Noröur-Kóreu hræðilegt, fólk svalt og allt var á heljarþröm. 

Þá sáu ráðamenn sitt óvænna og innleiddu aðgerðir til þess að létta aðeins heljartakið sem kommúnisminn hafði á öllum sviðum. 

Gert var mögulegt að fólk gæti verið með einkarekstur í bland, í átt við það sem gert var í Kína, og síðan þetta var gert, hefur ástandið skánað eftir því sem ráða má af þeim afar takmörkuðu upplýsingum sem fást úr þessu lokaðasta landi heims.

Þetta hefur haft það tvennt í för með sér að Norður-Kóreumenn hafa getað haldið áfram að þróa kjarnorkuvígbúnað sinn og að erfiðara er en áður að beita þá efnahagsþvingunum.   


mbl.is Vilja frysta eignir Kims Jong-un
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ógleymanleg bið á skyndibitastað. Fágætt menningar- og uppeldisafrek.

Fyrir um fjórum áratugum átti ég erindi í skyndbitastaðinn Ask við Suðurlandsbraut. 

Þar var mikil örtröð þegar inn var komið, og að öllu jöfnu hefði blasað löng og leiðinleg bið eftir því að verða afgreiddur. 

En í staðinn varð þessi biðtími að ógleymanlegri stund sem leið svo undra fljótt.

Hluti af viðskiptavinunum var hópur ungs fólks, sem byrjaði að syngja eins og englakór. 

Þessi hressilegi hópur var sem sé hluti af Kór Menntaskólans í Hamrahlið. Biðtíminn varð að stund gleði, lífsnautnar og einstakrar listrænnar stemningar. 

Og manni varð hugsað til þess hve það hefði verið enn meira gaman í M.R. á sínum tíma ef svona stórkostlegt kórstarf hefði verið þar.  

Hálfrar aldar starf Þorgerðar Ingólfsdóttur sem kórstjóri Kórs Menntaskólans við Hamrahlíð felur ekki aðeins í sér fágætt afrek þegar litið er á langan lista viðurkenninga og sigra, heldur ekki síður varðandi þann stórkostlega uppeldisárangur og fordæmi, sem starf hennar hefur falið í sér. 

Þorgerður eða Obba eins og hún var snemma kölluð, fékk í vöggugjöf bestu eiginleika mikilhæfra foreldra sinna, Ingólfs Guðbrandssonar og Ingu Þorgeirsdóttur, tónlistarhæfileika, dugnað og marksækni í bland við ljúfmennsku og geislandi samkenndar og góðvildar. 

Sannaði gildi þess að leggja sig fram við að ná háleitu markmiði sem gæfi mikið af sér. 

Ég átti þess kost þegar ég var nemandi í Laugarnesskólanum að koma nokkrum sinnum í heimsókn og kynnast lítillega gefandi fjölskyldulífinu í litla húsinu við Hofteig, þar sem þau Ingólfur og Inga bjuggu með ungum dætrum sínum. 

Það skildi eftir eftirminnilegar og dýrmætar minningar. 

Síðar söng einn sona minna í Hamrahlíðarkórnum og naut alltumvefjandi hlýju og kærleika kórstjórans, tákn þess hve það er gott að eiga góða að. 

Það er meira en að segja það að halda uppi kór í hæsta gæðaflokki á alþjóðlegan mælikvarða í skóla hjá fámennri þjóð.

Hið hraða og sífellda gegnumstreymi nemenda þýðir, að á hálfri öld hafi þurft að laða fram nýjan afburðakór tólf sinnum.

Mikilvægast er þó það mikla starf varðandi uppeldi sem felst í því að glæða þroska og lífsfyllingu hjá öllum þeim fjölda ungmenna sem notið hafa leiðsagnar afburða menningar- og uppeldisfrömuðs.  

 


mbl.is Hættir störfum á 50 ára starfsafmæli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stuðpúðastefna Kínverja og Rússa.

Lega Norður-Kóreu er aðalástæðan fyrir því ástandi sem þar ríkir. Landið á löng landamæri að Kína og norðausturhorn þess er skammt frá Vladivostok, sem er aðalhöfn Rússa við Kyrrahaf. 

Vladivostok hefur svipaða þýðingu fyrir Rússa og Sevastopol hefur við Svartahaf. 

Hvorki Kínverjar né Rússar telja sig geta tekið þá áhættu að Norður-Kórea falli í hendur annarra en kommúnista, því að landið er skoðað sem "stuðpúði" við hin öflugu ríki bandamanna Bandaríkjanna, Suður-Kóreu og Japan. 

Allt frá 1949 hafa ráðamenn í Norður-Kóreu verið erfiðir bandamenn Kínverja og Rússa og farið sínu fram í hættulega miklum mæli. 

"Stuðpúðastefnan" er gamalkunn. Yfirráð kommúnista yfir Austur-Evrópu í Kalda stríðinu voru grundvölluð á henni í ljósi svika Hitlers og innrásar hans í Sovétríkin 1941. 

Í samningum Michaels Gorbatjofs og George Bush eldri, síðast á fundi þeirra á Möltu, var sæst minnlega á mildari stuðpúðastefnu, sem byggjast skyldi á því að Rússar fengju því framgengt að ráða því hve langt NATO og ESB gætu teygt sig.

Helstu nágrannaríki Rússa reyndu skiljanlega að tryggja öryggi sitt með því að ganga í bæði þessi samtök og tókst furðu mörgum þeirra það á þeim tíma sem Rússland var afar veikt efnahagslega og stjórnmálalega.  

Nýjasta sprengja Norður-Kóreumanna er talin hafa verið 120 kílótonn, sjö sinnum öflugri en sprengjan sem var varpað á Híróshima. 

Stefna Norður-Kóreumanna er svipuð og stefna Ísraelsmanna, sem komu sér upp kjarnorkuvopnabúri til að efla stöðu sína og búa yfir fælingarmætti gagnvart óvinveittum nágrönnum. 

Munurinn er sá, að Ísraelsmenn hafa látið sér nægja að nágrannarnir vissu þetta í raun, þótt það væri leyndarmál. 

Enn einn vandinn varðandi Norður-Kóreu er sá, að þjóðin er heilaþvegin og lítur á Kim Jong-un sem guð, rétt eins og Japanir litu á keisara sinn Hirohito 1945. 

Bandaríkjamenn áttuðu sig á þessari sérstöðu 1945 og hrófluðu ekki við Hirohito, heldur sannfærðu hann um að hann yrði að taka af skarið varðandi uppgjöf fyrir bandamönnum. 


mbl.is Segja N-Kóreu flytja langdræga eldflaug
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 6. september 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband