Vestfirðir áratugum á eftir í samgöngum.

Meðal flugvalla úti á landi, þar sem er búnaður til að stunda áætlunarflug með blindaðflugi og nætursjónflugi allan sólarhringinn árið um kring, ef veður leyfir má nefna: Sauðárkrók, Akureyri, Húsavík, Egilsstaði, Hornafjörð og Vestmannaeyjar. 

Þannig hefur það verið í áratugi, en á hinn bóginn er enginn slíkur flugvöllur á Vestfjörðum. 

Eini flugvöllurinn, sem hefði verið hægt að bjóða upp á slíka aðstöðu á með því að veita til þess fé, var flugvöllurinn við Patreksfjörð sem var lagður niður fyrir áratug og meira að segja gert í því að stytta hugsanlega nothæfa flugbraut. 

Vestfirðir skera sig alveg úr að þessu leyti. Aðal flugvöllur landsfjórðungsins á Ísafirði er lokaður vegna myrkurs meira en 20 klukkustundir á hverjum degi á þessum árstíma, sama hvað veðrið er gott. 

Hingað til hefur leiðin Vestfjarðavegur nr. 60 verið lokuð vegna snjóa á Hrafnseyrarheiði yfir veturinn. 

Ekkert svipað fornaldarfyrirbæri hefur verið að finna í öðrum landshlutum. 

Í meginatriðum ríkir svipað ástand á landi og í lofti á Vestfjörðum og var fyrir hálfri öld. 

Með gerð nætursjónflugsflugvallar á Barðaströnd eða með því að gera upp Patreksfjarðarflugvöll, væri hægt að opna fyrir flug allan sólarhringinn til Vestfjarða, sem gæti fengið landtengingu í gegnum komandi Dýrafjarðargöng allt árið. 

Landleiðin milli  Patreksfjarðar og Ísafjarðar verður um 160 kílómetrar með tilkomu Dýrafjarðarganga, og á milli flugbrautar við Haga eða Brjánslæk aðeins um 100 til 120 kílómetrar.   


mbl.is Vestfirðir áratugum á eftir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þess vegna voru þyrlur Varnarliðsins fimm, - ekki fjórar.

Íslendingar færðu landhelgina út í 4 mílur 1952, 12 mílur 1958, 50 mílur 1972 og 200 mílur 1975. 

Fyrsta bandaríska þyrlan kom á Keflavíkurflugvöll fyrir 65 árum, og þyrluöld gekk í garð í framhaldinu þar, en allan þann tíma höfum við látið eins og að þyrlueign í einhverri alvöru sé lúxus sem þjóð með risastóra landhelgi hafi ekki efni á. 

Síðustu áratugi sína á vellinum voru fimm þyrlur í björgunarflugsveit Varnarliðins, - ekki fjórar og eitt af aðalatriðum þess, að af hálfu íslenskra yfirvalda var reynt að fá Kanann til að vera hér áfram, var að þeir viðhéldu þessari þyrlusveit. 

Á þessum árum eftir lok Kalda stríðsins voru Bandaríkjamenn að reyna að spara eins og hægt var á Vellinum, en þeim datt aldrei sú fásinna í hug að fækka þyrlunum. Annað hvort voru þeir með fimm eða enga. 

Svo fóru þeir 2006 en í raun höldum við áfram að láta eins og ekkert sé og hafa hér allsendis óviðunandi viðbúnað. 

Þegar bandarískar þyrlur unnu hér björgunarafrek í Vöðlavík fóru tvær þyrlur í þann björgunarleiðangur, ekki ein. 

Þegar jöklajeppamennn fara á fjöll eru yfirleitt minnst tveir jeppar saman í för, ekki einn. 

Fráleitt er að við látum eins og allt sé í lagi með því að segja að við getum alltaf fengið danska sjóherinn til þess að senda þyrlur og mannskap til okkar þegar við erum með allt í steik. 

Það er alger happa- og glappa aðferð gagnvart þeirra landhelgisgæslu á enn stærra svæði en okkar er. 

Nú stefnir nákvæmlega í það, sem minnst var á í bloggpistli hér í fyrradag, að tvær þyrlur Landhelgisgæslunnar verði frá í 6-8 vikur hvor á þessu ári og að hluti "sviðsmyndinnar" sem dregin var upp í pistlinum, verði að veruleika. 

Það er ekki auðvelt fyrir rekstraraðila að stilla því þannig til, að þessar þyrlur verði ekki báðar frá í einu, enda eru skoðanir fleiri en þessar stóru skoðanir. 

Það kostar peninga að fara með þyrlu í skoðun fyrr en tími er komin á hana ef hnika á slíku til.

Þetta er einföld sviðsmynd: Tvær í skoðun, ein biluð, tvær í erfiða leiðangra = fimm þyrlur.  

Og tvennt af því allra fyrsta sem flugmenn læra er að þeir geti ekki stjórnað því hvenær flugvélar bila og að þeir verði samt að sjá um, til að vélinni sé flogið, hvernig sem ástatt er, til dæmis ef hreyfill bilar. 

Það er lágmarkskrafa að íslenskir ráðamenn geri sér grein fyrir eðli þess ástands, sem risastór auðlindalögsaga, tvær milljónir ferðamanna á ári og hundruð stórra skemmtiferðaskipa hefur fært okkur. 


mbl.is Tvær þyrlur frá í 6-8 vikur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 10. janúar 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband