Súrnun sjávar er enn nærtækari og orkuskiptin óhjákvæmileg.

Hlálegt er að sjá því haldið fram að loftslag sé ekkert að kólna á jörðinni, af því til dæmis að allur ísinn í Íshafinu sé enn ekki bráðnaður. 

Meðaltöl í veðurathugunum um alla jörðina tals sínu máli. 

Og hér á landi horfum við upp á hraða bráðnun jöklanna. 

Þeir, sem andæfa breytingum í orkumálum, minnast aldrei á súrnun sjávar, sem er staðreynd og stendur Íslendingum nærri, hvað þá að talað sé um óhjákvæmilega þurrð á jarðefnaeldsneyti jarðar. 

Súrnun sjávar nú er hin hraðasta í 59 milljón ár, en þá urðu fjölmargar tegundir útdauðar. 

Það eru margar hliðar á því viðfangsefni að minnka útblástur og sóun á jarðefnaeldsneyti. 

4 milljarðar af 7 milljörðum jarðarbúa búa nú í borgarumhverfi og það er af þeim sökum sem athyglin hefur beinst að þeirri sóun, sem mest er, borgarumferðinni, sem að mestu er fólgin í akstri einkabíla. 

Í öðrum bloggpistli í dag er minnst á nokkur atriði, meðal annars þessi: 

Hver maður, sem ferðast á reiðhjóli, léttu vélhjóli eða með almenningssamgöngum, skapar rými fyrir einn viðbótar bíl í umferðinni. 

Ef bílarnir væru styttri en nú er, til dæmis þótt ekki væri nema hálfum metra styttri, myndi á Miklubrautinni einni verða 50 kílómetrar auðir samtals á hverjum degi, sem annars væru þaktir af bílum. 

Myndin, sem er hér á síðunni, er tekin af minnsta rafbíl landsins, sem hefur engin aftursæti, af því að meðaltali er aðeins 1,1 í hverjum bíl í borgarumferð. Tazzari. stæði

Fyrir bragðið er þessi bíll heilum metra styttri en meðalstór bíll af gerðinni Skoda Octavia, en samt finnst þeim, sem sitja í honum, munurinn nær enginn hvað rými snertir fyrir einn til tvo, því að hann er alveg nógu breiður.  

Hámarkshraði svona bíls er 100 km/klst ef í það fer, og ef eitthvað er, er hann fljótari í ferðum vegna þess hve snaggaralegur hann er og lipur. 

Í einu borgarferð minni í gær var þessi bíll með núll útblástur, og rafmagnið til ferðarinnar fram og til baka austast úr Grafarvogshverfi, alls 24 kílómetrar, kostaði 70 krónur í stað um 500 króna eldsneytiskostnaðar á meðalstórum bíl. 

Ef hann hefði verið á ferð með þremur eins bílum, hefðu þeir skapað autt viðbótarrými á leiðinni fyrir einn venjulegan bíl. 

En ekki bara það. Þegar komið var á ákvörðunarstað var hvergi að sjá autt bílastæði í grennd við ákvörðunarstaðinn, en þá vildi svo vel til, að vegna þess hve bíllinn er hlægilega stuttur, varð engin töf vegna leitar að bílastæði, nógu stórt rými fyrir þennan stubb blasti við frá ákvörðunarstaðnum, aftan við bíl, sem annars hefði verið einn í stæðinu og enginn annar getað deilt því með honum. 

Vel sést, að Tazzari rafbíllinn er utan við innkeyrsluna í bílskúrinn aftan við hann. 

Ef ég hefði verið á venjulegum bíl, er ómögulegt að vita hve langur tími hefði farið leit að stæði og hve langt þetta stæði hefði verið frá ákvörðunarstað.

Hér var á ferðinni sparnaður í tíma og sparnaður í akstri. 


mbl.is Hafa áhyggjur af loftslagsbreytingum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Minnst þrjár lausnir í boði framhjá Klambratúni?

Meðan engin stjórn er á lengd þeirra bíla, sem fer sífellt fjölgandi í umferðinni í Reykjavík, og enginn skilningur ríkir á þeim aðferðum, sem beita má til þess að vinna rými í umferðinni með ívilnunum á því sviði, eru til fleiri leiðir en sú aðferð, eða löng göng, til að liðka fyrir í flöskuhálsinum, sem er á Miklubraut á milli Kringlumýrarbrautar og Snorrabrautar.  

Góð dæmi um slík göng má sjá í erlendum borgum eins og Osló og Brussel. 

En það er líka möguleiki á að breikka Miklubraut upp í þrjár akreinar í hvora átt á þessum kafla eða að fara blandaða leið með einum stuttum göngum á milli Stakkahlíðar og Lönguhlíðar og breikkun milli Lönguhlíðar og Snorrabrautar/Bústaðavegar. 

Eitt hús, stóra blokkin á gatnamótum Lönguhlíðar og Miklubrautar, er aðal farartálminn á þessari leið. Húsið er merkilegt út af fyrir sig sem ein af fyrstu stóru og háu blokkunum í Reykjavík og arkitektúr þess er einnig merkilegur. 

Þess vegna er það ekki fýsileg lausn að rífa blokkina, en hins vegar skárra, ef hún yrði keypt upp og stytt um einn stigagang. 

Það væri hægt að breikka Miklubrautina framhjá enda blokkarinnar með uppkaupum á húsunum á móti henni við hornið að sunnanverðu og göngustíg undir eða í gegnum blokkina, og leysa málið vestar með uppkaupum á nokkrum húsum við flöskuhálsinn vestan Klambratúns mætti breikka Miklubraut þar í gegn. Tazzari. stæði

Bílastæðum myndi að vísu fækka, en þó ekki mikið. 

Þetta hef ég sannreynt með því að mæla breiddirnar sem þarf fyrir fjölgun akreina. 

En stytting bíla með ívilnunaraðgerðum og fjölgun þeirra, sem nota annan samgöngumáta en einkabíl, svo sem létt vélhjól, reiðhjól eða strætisvagn, skilar líka ávinningi til hagsbóta fyrir þá, sem eru á bílum á þann hátt, að hver maður á hjóli, vélhjóli eða í strætisvagni gefur eftir rými fyrir einn aukabíl. 

Erfiðara er að meta gildi borgarlínu, vegna þess að hún tekur sjálf rými frá annarri umferð, og því verður að liggja nokkuð örugglega fyrir hvað margir ferðast með henni. 

En stöðug mannfjölgun og fjölgun einkabíla, sem sífellt verða lengri, veldur óhjákvæmilegum vandræðum sem verður að bregðast við. 

P.S.  Set hér inn mynd sem tekin var í gær og tengist einni athugasemdinni við þennan pistil hvað varðar gildi vistmildari og styttri bíla en nú tíðkast. Nánar er fjallað um þá hlið mála í næsta pistli hér á eftir. 


mbl.is Miklabraut í stokk
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Fáir njóta eldanna sem fyrstir kveikja þá."

Þessi orð úr ljóðinu "Konan, sem kyndir ofninn minn", eftir Davíð Stefánsson, koma upp í hugann þegar ferill Steve Bannons er skoðaður. 

Raunar er eldur konunnar mun þekkilegri en hægri öfgaeldur Bannons, sem hann kveikti í aðdraganda að risi Donalds Trumps til æðstu valda. 

Þótt Trump segist vera snillingur og einhver gáfaðasti maður í heimi, var það þó Bannon sem með Breitbart hægri-öfga fréttaveitu sinni og því að "prógrammera" Trump í hægri fræðum sínum, sem átti þann vafasama heiður að koma Trump á forsetastól. 

Fyrstu dagana var Bannon áberandi nálægt forsetanum á öllum myndum og titlaður ráðgjafi hans, sem þýddi fyrir flesta helsta og mesta ráðgjafa hans. 

En nú var hann farinn að skyggja á hinn "gáfaða snilling" og var látinn fjúka. 

Eftir að hann lærði ekki af refsingu Trumps og lét orð fjúka, sem æstu Trump mjög og ergðu. 

Nú hefur Bannon verið hrakinn úr framkvæmdastjórastöðu í hægri-fréttaveitunni og settur eins mikið til hliðar og Trump getur. 

Áfram loga eldarnir sem Bannon kveikti og Trump vill njóta og baða sig í ljóma þeirra, - fáir njóta eldanna sem fyrstir kveikja þá." 


mbl.is Bannon hættir hjá Breitbart
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 11. janúar 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband