Ali var alltaf á heimavelli.

Það er gríðalega mikilvægur eiginleiki íþróttamanna að nýta sér eins og kostur er allar aðstæður á keppnisstað til þess að efla baráttuþrekið, jafnvel erfiðar aðstæður, sem við fyrstu sýn kunna að sýnast þrúgandi. 

Ken Norton, sem var einn erfiðasti andstæðingur Muhammads Ali, sagði að eitt af því sem hefði reynst sér erfitt hefði verið sá eiginleiki Ali snúa aðstæðunum á hverjum bardagastað ævinlega sér í hag. 

"Ali hafði eitthvert lag á því að snúa útivöllum í heimavelli fyrir sig. 

Á sama tíma og veldi George Foremans var sem mest, þurfti hann ekki annað en að sigra með yfirburðum í störukeppni við upphaf bardaganna og gera andstæðingana skjálfandi af ótta. 

Norton og margir fleiri voru saltaðir í stuttum og einhliða bardögum. 

Ali tók sér góðan tíma fyrir "The rumble in the jungle" til þess að gera hinn stóra leikvang og alla umgjörð aðdragandans að bardaganum að sínum allsherjar heimavelli. 

Foreman var dekkri á hörund en Ali og hefði því átt frekar að vera eftilæti heimamanna en Ali. 

En Foreman var með gæludýr með sér, sem sneri dæminu alveg við. Þetta var stór hundur af sama kyni og hinir hötuðu nýlendukúgarar Belgar höfðu notað á sínum tíma. 

Þegar komið var inn í hringinn stóð Ali í horninu og stjórnaði 80 þúsund áhorfendum með handasveiflum eins og hljómsveitarstjóri og lét alla öskra einum rómi: "Ali, bomayea!", sem útleggst "Ali dreptu hann!" 

Eftir hraða fyrstu lotu, þar sem Ali niðurlægði Foreman með því að raða inn á hann eldsnörpum beinum hægri handar höggum, eyddi Ali hluta af dýrmætum hvíldartíma með því að standa við kaðlana, horfa yfir salinn og láta alla hrópa: "Ali, bomaye!" 

Hann espaði Foreman í hörðu návígi með því að tala við hann: "Sýndu mér hvað þú getur. Er þetta allt og sumt? Þú veldur mér miklum vonbrigðum.  Þú slærð eins og stelpa. " 

Hann elskaði að láta Foreman hata sig. 

Við það að verða pirraður, æstur, svekktur og espaður, sóaði Foreman kröftum og brást rangt við áætlun Ali, sem kom öllum á óvart og fólst í því sem hann nefndi síðar "Ropa-dope" eða "Kaðladóp", að liggja afturhallandi í köðlunum svo að höfuð og axlir voru fyrir utan besta höggsviðs Foremans, verja bol og andlit með örmum og hönskum og lofa öðrum af tveimur högghörðustu hnefaleikurum heims að sóa kröftum sínum í gagnslítil högg. 

Á meðan hvíldi Ali sig með því að liggja svona í köðlunum, en tók síðan stuttar, snarpar rispur og raðaði beinum höggum inn á Foreman, sem trufluðu hann enn meira og tóku frá honum mátt og sálarstyrk. 


mbl.is „Ég elska að láta hata mig“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mótsögn í kenningu, sem heldur ekki vatni. Hjarta Vestfjarða.

Ekki þarf annað en að líta á kort til að sjá, að það er á leiðinni frá Reykhólasveit til Ísafjarðar sem Vesturlína slær út vegna illviðra og að Hvalárvirkjun mun nær engu skila til að auka afhendingaröryggi á Vestfjörðum þótt hún verði tengd inn á þá línu. 

Í stað þess að drífa í því að gera þessa línu örugga með því að leggja hana í jörð þar sem þess er þörf segja virkjanamenn, að eina leiðin til að auka öryggið sé að fara út í stórkostlega eyðileggingu á ósnortnum víðernum sunnan Drangajökuls með Hvalárvirkjun hinum megin á Vestfjarðakjálkanum og lagningu algerlega nýrrar háspennulínu í jörð þaðan alla leið yfir í Ísafjarðardjúp og síðan þaðan alveg nýja línu yfir alla firðina við sunnanvert Djúp til Ísafjarðar. Vesturverk, Vestfirðir

Virkjanamenn segja að slík framkvæmd með margra tuga kílómetra langar línur í jörð séu ekkert  mál fjárhagslega, en hins vegar verði óviðráðanlegt vegna mikils kostnaðar, að setja núverandi línu frá Reykhólasveit vestur til Ísafjarðar í jörð. 

Þetta er augljós mótsögn sem heldur ekki vatni. hjarta-vestfjarda

Ef endilega á að virkja á Vestfjörðum, sem ekki á að gefa sér fyrirfram að sé besta ráðið fyrir afhendingaröryggið, þarf að forgangsraða virkjanakostum og náttúruverðmætum sérstaklega fyrir fjórðunginn. 

Á síðustu áratugum hafa stór og ósnortin víðerni fengið æ meira vægi sem mikilvægustu náttúruverðmætin.

Vespuhjólsferðin "Hjarta landsins" síðastliðið sumar báða hringina í einum rykk, þjóðveg nr. 1 og Vestfjarðahringinn, 2000 km á rúmum þremur sólarhringum, var farin til þess að benda á það að það er ekki aðeins eitt hálendi, miðhálendið, sem í húfi er, heldur einnig Vestfjarðahálendið.Á hjóli. Leiðarkort

Ef allt er haft uppi á borðinu koma inn á blað virkjanir, að vísu minni en Hvalárvirkjun, í botnum fjarðanna, sem eru næstir Ísafirði fyrir innan Skutulsfjörð. 

Þaðan er langstyst frá virkjunarstöðum yfir í langfjölmennasta byggðarlagið í fjórðungnum.

 

  


mbl.is Segja fullyrðingu Landverndar ranga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 13. janúar 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband