Einn Íslendingur var þó ekki "sendur heim."

Handbolti er flokkaíþrótt. Í slíkri íþróttagrein á örþjóð eins og við litla möguleika gegn þúsund sinnum fjölmennari þjóðum nema að viðkomandi íþrótt sé stunduð í tiltölulega fáum löndum og af fáum einstaklingum. 

Þetta er líklega helsta ástæða þess að handbolti hefur orðið að eins konar þjóðaríþrótt hér á landi og náði ljóminn hámarki á Ólympíuleikunum í Seoul.  

Þá vorum við svo heppnir að eiga einn leikmann, Ólaf Stefánsson,, sem gat á góðum dögum unnið úrslitaleiki á stórmótum fyrir lið sitt. 

Ógleymanlegt var til dæmis að horfa á hann í úrslitaleik í Evrópukeppni, þar sem hann var allt í öllu hjá Þýskalandsmeisturunum Madgeburg, og gilti einu þótt andstæðingarnir gerðu allt sem í þeirra valdi stóð til að stöðva hann.

Þegar illa gengur, eins og á tveimur síðustu Evrópumeistaramótum, er það huggun harmi gegn, að sú íþrótt að vera handboltaþjálfari, er einstaklingsíþrótt. Aðalþjálfarinn er aðeins einn. 

Þetta sannaðist í kvöld þegar hætta var á því að íslenska handboltaliðið yrði sent heim, en líka hætta á því að íslenskir handboltaþjálfarar erlendra landsliða yrðu sendir heim. 

Hinir ógnarsterku Króatar sáu ekki til sólar gegn Svíum, ekki frekar en Íslendingar gegn Serbum síðustu 20 mínútur þess leiks. 

En hvernig sem allt veltist, var ekki hægt að senda alla Íslendingna heim. 

Fyrir leik kvöldsins var ljóst, að annað hvort yrði allt íslenska landsliðið sent heim eða íslenskur þjálfari Svía, sem sá til þess að hann og hans lið sendu okkur heim. 

Og fyrir bragðið var þessi ágæti íslenski þjálfari ekki sendur heim, eins og ætlun íslenska liðsins var að gera. 

Og íslenskir landsliðsþjálfarar eru það margir á svona mótum, að það er nærri ómögulegt að senda þá alla heim eftir milliriðlana. 

Ef ég man rétt hætti Aron Kristjánsson eftir að íslenska liðið datt naumlega út hér um árið. 

Hvað verður um Geir nú?


mbl.is Svíar sendu Ísland heim af EM
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Er nokkur með...?"

Sérkennilegar bilanir á borð við þá, sem greint er frá í tengdri frétt á mbl.is eru ekkert nýtt í fluginu.

Í eldgamla daga þurfti ég eitt sinn að fara síðdegis í skammdeginu til Vestmannaeyja með tveggja hreyfla flugvél í eigu eins af litlum flugfélögum þess tíma. 

Farþegar settust um borð í myrkrinu og biðu þess að hreyflar yrðu ræstir. Það dróst þó, og hírðist fólk skjálfandi í myrkri og kulda. 

Eftir drjúglanga stund kom annar flugmaðurinn í dyragætt stjórnklefans og kallaði yfir hópinn: 

"Er nokkur hérna með vasaljós?"

Ég kvað já við, því að ég hafði ævinlega meðferðis litla skjóðu sem nokkrum nytsamlegum smáhlutum. 

Farþegarnir hristu höfuðið. Þetta lyktaði af því að vasaljós yrði að duga sem eina ljós vélarinnar. 

Flugmaðurinn fékk vasaljósið hjá mér og fór með það fram í stjórnklefann. 

Eftir aðra langa og erfiða bið, birtist hann aftur í dyrunum og spurði nú: "Er nokkur hérna með skrúfjárn?" 

Aftur kvað ég já við og lét hann nú hafa skjóðuna alla með þeim orðum, að í henni væri fleira nytsamlegt, þar á meðal forláta límband. 

Skömmu síðar var byrjað að ræsa hreyflana og ljós flugvélarinnar að innan sem utan voru kveikt. 

Flugmaðurinn kom nú í þriðja sinn í dyrnar með skjóðuna í hendi og ætlaði að afhenda mér hana. 

"Það er óþarfi", svaraði ég. "Hún gerir greinilega miklu meira gagn frammi í en hjá mér. Við viljum helst komast til Eyja og líður betur við að vita af henni frammi í hjá ykkkur. Ég fæ hana bara þegar við erum lent." 

Óræður svipur kom á flugmanninn, sem virtist óákveðinn, fannst það kannski ekki traustvekjandi að þiggja boð mitt svona fyrir framan alla. 

Leit svo ofan í skjóðuna og snerist hugur, kinkaði kolli og snerist á hæli með hana.

Kannski sá hann eitthvað fleira ofan í henni, sem gæti komið sér vel á leiðinni til Eyja, svo sem skiptilykill, lítil töng, skæri og plástur. 

Í Eyjum fékk ég skjóðuna til baka í þann mund sem maður með ögn stærri skjóðu kom um borð til að leysa viðfangsefnin, sem biðu fyrir ferðina til baka.    


mbl.is Hrundi úr lofti Primera-vélar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta skref: Að vaða með nýja stórlínu yfir öll vatnsverndarsvæðin.

Nú er sótt að flestum undirstöðum ímyndar Reykjavíkur og nágrennis sem auglýst hafa verið sem "hreinust í heimi" á öllum sviðum.

Innan við ár er síðan 40 ára ófremdarástand sjávar í Skerjafirði birtist á ný, sem var kannski ekki aðalatriðið, heldur það að þrjóskast var í lengstu lög við að leyna ástandinu.

Nýslegið er met í svifryksmengun, þrítugfalt yfir heilsuverndarmörkum með arsen, kvikasilfur, blý og brennisteini, og nú eru það gerlar í kalda vatninu í Reykjavík. 

Þessi nýjasta kemu frá vatnsverndarsvæði borgarinnar, en Landsnet lýsir yfir einbeittum vilja til að vaða sem stærstu gerð af nýrri háspennulínu í gegnum öll vatnsverndarsvæði höfuðborgarsvæðisins með tölu með öllu því raski og mengunarhættu sem því fylgir. 

"Virkjanaæðið" sem forstjóri Orku náttúrunnar kallaði það, birtist meðal annars í því að á sama tíma sem virkjanamenn telja alltof dýrt að fara með línur í jörðu á skárri leið en yfir vatnsverndarsvæðin öll austan höfuðborgarsvæðisins og líka alltof dýrt að leggja línur í jörð á leið Vesturlínu til Ísafjarðar og Bolungarvíkur, telja þeir að leikur einn sé að leggja línur í jörð yfir þvert Vestfjarðahálendið og um alla firði Ísafjarðardjúps á leiðinni frá nýrri virkjun í Ófeigsfirði á Ströndum alla leið vestur á Ísafjörð. 

 

 


mbl.is Jarðvegsgerlar í neysluvatni í Reykjavík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 16. janúar 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband