Önnur fíkn á bak við sölumenn dauðans vestra.

Í fróðlegum þætti í bandaríska sjónvarpsþættinum um ópíóðum faraldurinn þar í landi var því lýst hvernig græðgisfullum sölumönnum dauðans hefði tekist að spila á langvarandi spillingu meðal bandarískra þingmanna til að fá tvo þeirra, þingmenn í ríkjum, þar sem stór lyfjafyrirtæki hafa bækistöðvar, til að leggja fram frumvarp um lyfjaeftirlit, sem rústaði bandaríska lyfjaeftirlitinu.

Nú mala lyfjafyrirtækin gull sem aldrei fyrr og leika lausum hala ásamt sölumönnum sínum, sem eru blandaður hópur, allt frá glæpamenn í undirheimum upp í þá, sem útvega "læknadópið".  

Í þætti 60 mínútna voru birtar tölur sem sýndu ævintýralegan gróða og umfang, sem spillingarnet lyfjarisa, undirheima og lækna velti við það að standa undir þessu banvænasta faraldri í seinni tíma sögu landsins. 

Þetta var eins og að fá að lýsa með vasaljósi inn í "skítaholu", svo að notað sé orðalag um skuggahliðar hjá öðrum þjóðum. 

Á bak við skæða fíkn liggur oft önnur fíkn. Í þessu tilfelli peningagræðgi, ein af dauðasyndunum sjö.  


mbl.is Höfðu nánast öll verið á Vogi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sparnaður, sem eykur heildarútgjöld?

Dæmin um svonefnt skúffubókhald í rekstri stofnana og fyrirtækja eru mýmörg. Það felst í því að spara í rekstri á einu sviði (skúffu), en að afleiðingarnar verði stóraukin úgjöld á öðru sviði (annarri skúffu). 

Það er til dæmis hægt að spara peninga með því að minnka mokstur og hálkueyðingu gatna, hjólastíga og gangstéttna en fyrir bragðið verður samanlagður kostnaður annars staðar vegna hálkuslysa margfalt meiri, kostnaðurinn færist úr skúffu borgar- eða sveitarsjóðs yfir á heilbrigðiskerfið og almanna borgara.  

Fróðlegt væri að sjá útreikninga á tilfærslu kostnaðar með því að nota sjúkraflugvélar til þess að spara sjúkrarými á yfirfullum Landsspítala. 

Er hugsanlegt að sparnaðurinn vegna minni útgjalda í skúffu húsnæðis syðra auki heildarútgjöld annars staðar, við sjúkraflug og á heilbrigðisstofnunum úti á landi?

Annað dæmi hefur áður verið nefn hér á síðunni, þegar vegna sparnaðar og skorts á fjármagni í októberlok 2015 var ákveðið að fresta rannsóknum vegna gáttaflökts fram á næsta fjárhagsár. 

Afleiðingin varð hætta á ótímabærum dauðsföllum eða mikilli örorku vegna heilablóðfalls hjá þeim sem voru á þessum sérkennilega biðlista. 

Mer var kunnugt um slíkt tilfelli, þar sem kostnaðurinn vegna alvarlegs áfalls, langrar spítalavistar og endurhæfingar auk tekjumissis varð margfaldur á við meintan sparnað. 

Tilfellin voru vafalítið fleiri, annars hefði Kári Stefánsson varla farið að minnast á gáttaflökt í blaðaskrifum sínum. 


mbl.is LSH notar sjúkraflug til að losa pláss
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 18. janúar 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband