Netheimar og raunheimar.

Hvers vegna hittast þjóðarleiðtogar á fundum í staðinn fyrir að tala saman í gegnum Skype og spara stórar upphæðir í skattpeningum þjóða sinna?

Hvers vegna getur einn góður ræðumaður eða leikari náð meiri hughrifum áhorfenda í litlum sal heldur en í kvikmynd á stóru tjaldi með ítrustu myndatöku- sýningar- og hljómflutningstækni?

Hvers vegna getur ilmur af persónu verið svo grípandi, að engin kvikmynd með henni getur náð fram sömu hughrifum og er af nánd þessarar persónu?

Ástæðan er einföld: Þetta er munurinn á netheimum og raunheimum í tækniþjóðfélagi okkar tíma. 

Netheimarnir eru að sönnu stórkostleg uppfinning, opna fyrir okkur alla kima veraldar að ósk okkar á þann hátt sem var ómögulegt að viðhafa fyrir aðeins aldarfjórðungi. 

Og netheimarnir, snjallsímarnir, spjaldtölvurnar, gervigreindartæknin og hvað það nú heitir allt, hafa fært okkur í fangið stóra og mikla áskorun um að standast það nýja áreiti og hættur, sem þessir "heimar" búa yfir. 

Hættan er sú, að í uppvexti sínum fari unga fólkið á okkar dögum á mis við að upplifa raunheimana, það að lifa lífinu í sátt við náttúruna og annað fólk á öllum aldri, að umgangast hvert annað og samfélagið í eðlilegu raunverulegu umhverfi og láta ekki netheimana valta yfir raunheimana.  


mbl.is Vill ekki frændann á samfélagsmiðla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Glöggt er íslenska gestsaugað.

Ég hitti nýlega Íslending, sem hefur búið í Noregi í fjölmörg ár, en er nýfluttur heim og sagðist vera að venja sig við ýmsar sérkennilegar venjur í umferðinni hér á landi. 

Hann kvaðst undrast, að engu væri líkara en að aðeins hér á landi væri skylt að skoða eldri bíla árlega.  Þótt í Noregi væri víða svipað veðurlag og hér, til dæmis á Vesturströndinni, þar sem rigndi meira en hér, væri þessi tími tvö ár þar og það talið nægja. 

Það hlyti að vera mikill aukakostnaður fólginn í því að skoða á að giska hátt í hundrað þúsund bíla tvöfalt oftar en þörf væri á. 

Síðan væri furðulegt hve okkur væri fjarlæg meginreglan um forgang bíla hvað varðaði stöðu þeirra í umferðinni; sá sem framar væri; hefði forgang. 

Þetta lýsti sér til dæmis þannig hér á landi, að oft væri það svo, að ef einhver bílstjóri ætlaði að skipta um akrein, til dæmis að flytja sig af ytri akrein yfir á innri vegna þrengingar vegar, væri honum meinað um það, jafnvel með því að auka hraðann og koma í veg fyrir akreinaskiptingu.

Og kostulegt fannst honum að sjá, hve svokallað "tannhjól" eða "rennilás" væri okkur oft gersamlega framandi, þetta einfalda atriði að umferð, sem sameinast af tveimur akreinum í eina, rynni saman einn bíll á móti hverjum einum bíl líkt og tennur í tannhjólum. 

Hann sagði að í Noregi gilti sú regla, að sá bíll sem væri framar í hringtorgum hefði forgang, og að hann hefði orðið undrandi á þeirri ringulreið sem oft væri hjá okkur í akstri á hringtorgum. 

Tregða okkar til að gefa stefnuljós fannst honum líka sérstaklega undarleg, og merkilegt, hve slíkt tillitsleysi, sem bitnaði á svo mörgum, væri algengt, jafnvel frekar regla en undantekning í sumum tilfellum.  

 


mbl.is Viðamiklar breytingar á umferðarlögum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Merkilegt starf og miklar framfarir í glímunni við krabbameinið.

Eitt stærsta atriðið varðandi lengri meðalævi fólks felst í miklum framförum í lyfjameðferð vegna krabbamein, sem er, ef ég man rétt, næst algengasta dánarorsökin hér á landi, næst á eftir blóðrásarsjúkdómum. 

En tilkoma nýrra lyfja er ekki nóg heldur kalla þessi fjölbreyttu lyf á mikið og markvisst starf í heilbrigðiskerfinu og leitun er að manni, sem ekki hefur orðið vitni að slíku hjá einhverjum nákomnum. 

Þegar Davíð Oddsson fagnaði 70 ára afmæli sínu í fyrradag var það til dæmis ekki síst því að þakka hve farsællega tókst til að vinna bug á flóknu og erfiðu krabbameini sem hann fékk hér um árið og sigraðist frækilega á. 

Nú á dögum felst meðferðin oft í að leysa afar flókin og vandasöm verkefni varðandi lyfjameðferðina sjálfa. 

Það lýsir vandanum og þessu viðfangsefni að hluta, að á hverju ári koma út í heiminum um 800 sérfræðiritgerðir lækna um þetta. 

Auðvitað getur enginn lesið og kynnt sér allar þessar ritgerðir, en það hefur verið lagt fyrir fullkomnustu gervigreindartölvu heims að nýta sér þær við krabbameinsmeðferðir og það hefur gefist vel. 

Hér á landi vinna Krabbameinsfélag Íslands og heilbrigðiskerfið ötullega að vörnum gegn þessum vágesti og er það mikið þjóðþrifastarf.  


mbl.is Stökkbreytt gen eykur hættu á sortuæxli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það einfaldasta virkar oft best.

Fyrir 20 árum hefði sá verið álitinn eitthvað skrýtinn, sem hefði sagt fyrir 20 árum að Bæjarins bestu í pylsuskúrnum frumstæða við Tryggvagötu yrði einn frægasti staður landsins.  

En það sem er einfaldast, er oft það óvenjulegasta og þar með jafnvel það eftirminnilegasta fyrir ferðafólk, sem sækist eftir óvenjulegri upplifun í ferðum sínum. 

Strákarnir, sem seldu kleinur við Gróttu í dag, og sagt er frá í tengdri frétt á mbl.is, eru gott dæmi um þetta.

Litla kaffistofan heillaði Jeremy Clarkson í Íslandsferð hans 1992 og hún stendur enn. 

Bensínstöðvar landsins eru orðnar hverri annarri líkar, og nýi flotti Staðarskálinn hefur ekki alveg sama sjarma og sá gamli hafði, 

En eitt, einfalt og lítið, gerir það þó að verkum, að margir stansa þar bara út af þessu "smáræði". 

Það eru ástarpungarnir góðu, sem þar eru á boðstólum. Alveg bráðóhollir fyrir þá sem eru að reyna að forðast aukakílóin, en eftir því óviðjafnanlega góðir og auðvitað meinlausir, nema að fólk gleymi sér og hámi þá í sig einn af öðrum.  


mbl.is Bjóða ferðamönnum nýsteiktar kleinur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 19. janúar 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband