Dulið böl að miklu leyti?

Margt bendir til þess að svonefnt læknadóp og afleiðingar þess sé að stórum hluta dulið böl. 

Þegar þeir, sem eldri eru, líta til baka, og hafa þekkt læknadópsjúklinga á sínum ævidögum, er munað eftir einstökum læknum á mismunandi tímum, sem ýmist héldu sjúklingum við efnið með ritun lyfseðla, eða voru jafnvel sjálfir fíkniefnaneytendur. 

Þetta böl er jafnvel mun verra en áfengisbölið hvað snertir þöggunina í kringum það, sem ýmsar ástæður liggja að baki.

Nefna má, að það þykir enn skömm og auðmýking fólgin í því að það vitnist um hver fórnarlömbin eru. 

Og enn meira þöggunarefni er hverjir þeir læknar kunni að vera, sem ávísa of miklu. 

Að ekki sé minnst á, hvaða læknar kunni að vera fíklar sjálfir. 

Mestallur fréttaflutningur og umræða snýst um neytendur ólöglegra fíkniefna, þótt tjónið af völdum læknadópsins eða löglegra lyfja sé meira. 

Það yrði stórt framfaraskref ef hægt yrði að ná meiri árangri í varnarbaráttunni gegn þessum vágesti en náðst hefur fram að þessu.  


mbl.is Lögleg lyf drepa fleiri en ólögleg
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Umbreytingar gefa oft ný tækifæri.

Það, sem hefur verið að gerast á tónlistarsviðinu síðasta ár felur í sér mestu umbreytingar, sem orðið hafa á starfsumhverfinu, sem tónlistarfólk hefur upplifað í meira en 70 ár, eða síðan vinyl-platan ruddi sér til rúms. 

Þessar umbreytingar hafa verið svo hraðar og miklar, að nú ríkir viss óvissutími, sem getur að vísu verið erfiður, af því hann kemur kjöfar ákveðins hruns og niðursveiflu, en engu að síður fela miklar breytingar oft í sér ný tækifæri, sem geta á endanum orðið til góðs. 

Á meðan á þessu stendur ríkir hins vegar óvissa og spenna. 

Vinyl-platan ríkti í 40 ár, með nokkrum umbreytingum. Það var mikil framför fólgin í því að fara úr 78 snúningum niður í 45 seint á sjötta áratugnum og gera mögulegt að gefa út fjögurra laga plötur, og tíu árum síðar varð enn stærri breyting með tilkomu 33ja snúninga platna, sem gáfu möguleika á 2ja laga, 4ra laga og á breiðskífum með möguleika á á annan tugs laga. 

Geisladiskurinn drap síðan plötuna á örfáum árum á áttunda áratugnum og gaf möguleika á meira en tuttugu lögum á diski og hátt í hundrað lög í fjögurra diska albúmum. 

Orðið plata eða diskur eru samt enn notuð um útgáfur á tónlist, þótt hljómdiskamarkaðurinn hafi hrunið á aðeins rúmum tveimur árum. 

Það sýnir hraða þróun síðustu 50 ár, að þegar platan "Í hátíðarskapi" var gefin út 1980, var það gert á síðustu stundu þegar það vitnaðist, að annars yrði engin stór jólaplata gefin út það árið. 

Það kom hins vegar fram um áramótin, að Rás tvö bærust um 300 plötur á ári, en aðeins væri hægt að taka 50 þeirra til umfjöllunar árlega, en sleppa 250 í þeim efnum. 

Þegar sölumöguleikar diskanna hafa hrunið að mestu, sést hve gríðarleg áhrif það hefur haft. 

Og einnig sést á þeim uppátækjum sem tónlistarfólk hefur gripið til, til þess að koma list sinni á framfæri og hafa eitthvert viðurværi af henni, að það er verið að hræra hressilega upp á listasviðinu. 

Bubbi gaf út ljóðabók, því að bókin heldur enn velli að miklu leyti, Páll Óskar fór með 300 eintök af diskum persónulega heim til hvers kaupanda og áritaði, Egill Ólafsson setti takmarkaðan fjölda á vinyl og áritaði, af því að falleg vinylplata er eigulegur gripur, nokkuð sem einn usb-lykill getur seint orðið. 

Og Stuðmenn settu sitt nýja efni inn í eigulegan og óvenjulegan grip, svokallaðan Astraltertukubb. 

Og með því voru grafískir hönnuðir komnir inn í skemmtilegt og gefandi verkefni, listasmíð. 

Sjálfur fór ég með hljómflutningstæki á litlu sparneytnu og hraðskreiðu vespuhjóli í snarpa 2000 kílómetra kynningar- og hljómleikaferð vit markhópsins, fólks á ferð um landið á bílum með diskaspilurum, sem var kannski til í að setja ferðavæna tónlist i spilarann.  

Og nú er tónlistarfólk að leita nýrra leiða svo sem að láta aðgöngumiða að útgáfutónleikum fylgja fylgja hljómdiskum, og til dæmis er ég að undirbúa að framkvæma nýja hugmynd í leit að nýjum lausnum. 

Og sagan sýnir að nýjar aðstæður örva oft þróun, sem á endanum leiðir til nýs og örvandi umhverfis fyrir listafólk. 


mbl.is Bolurinn farinn að kaupa vínyl
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dómsmálaráðherra ætti að bera ríkari skyldur en aðrir.

Dómsmálaráðherra er sá ráðherra, sem hefur pólitískt umboð frá kjósendum til að standa vörð um réttarfarið í landinu. 

Það er munur á því eða málaflokkum annarra ráðherra, sem ekki snúa að dómsvaldi og réttarfari. 

En virðingin fyrir þessari sérstöðu hefur slævst allt frá því er dómsmálaráðherra á þriðja áratug síðustu aldar, eða fyrir 90 árum, var vændur um að nota varðskipin í pólitískum tilgangi.

Síðan hafa skipanir síðari tíma dómsmálaráðherra í embætti í dómskerfinu stundum verið umdeilanlegar svo að ekki sé fastar til orða tekið. 

Þess vegna er allt eins líklegt að ádeilur á núverandi dómsmálaráðherra og ríkisstjórnina þar með muni fjara út án þess að vantrauststillaga komi fram. 

Almennt séð er líklegt að enn sé langt í land með að umbætur varðandi dómsvaldið komist til fulls í framkvæmd.  


mbl.is Kallar ekki eftir afsögn ráðherra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 23. janúar 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband