Þegar Gæi gas rak mig á gat.

Íslensk örnefni eru dásamlegur hluti af íslenskri menningu. Það úir og grúir af þeim, einfaldlega vegna þess hve þau eru nytsöm við að staðsetja viðburði og fyrirbæri. 

Sem dæmi má nefna, að þar sem ég var í sveit að Hvammi í Langadal í Húnavatnssýslu man ég enn, 64 árum eftir síðustu sumardvölina 29 örnefni, bara í landareign Hvamms, sem nær frá Blöndu og yfir þann hluta fjallsins á milli Geitaskarðs/Skarðsskarðs og Hvammsskarðs, sem telst til jarðarinnar Hvamms. . 

Hvernig stendur á því að þessi örnefni eru svona lífseig?  Það er af því að minningarnar frá dvöl í fimm sumur tengjast við þessa staði og þessi fyrirbæri og nöfn þeirra styrkja þessar verðmætu æskuminningar. 

Til gamans eru þessi örnefni sett hér á lista, talið neðan frá Blöndu og frá norðri til suðurs: 

Blanda, Gráeyrar, Ysta-Flæði, Miðflæði, Fremsta flæði, Starasýki, Öfund, Holureitur, Grundin, Skriðan, Grundin, Partur, Hólhús, Hólhússlétta, Lambhús, Lambhússlétta, Kvíabrekka, Skriðan, Hvammsá, Hvammsgil, Hólarnir, Votihjalli, Nautahjalli  Steinahjalli, Steinahjallagata, Tröllið, Tröllaskarð, Höggið, Brunnárdalur. 

Örnefnin eru vafalaust enn fleiri.

Sum ornefnin vitna um horfna tíð, svo sem Ysta-, Mið- og Fremsta-Flæði, Gráeyrar, Holureitur, Starasíki, Hólhús, Lambhús og Kvíabrekka. 

Um miðja síðustu öld var Garðar Þormar, oft nefndur Gæi gas, eftirminnilegur rútubílstjóri hjá Norðurleið. 

Hann kunni að sjálfsögðu ógrynni af örnefnum og sögum frá löngum ferli. 

Eitt sinn þegar ég hitti hann spurði ég hann hvort hann þekkti örnefni, sem væru fáránleg eða óskiljanleg og hvort hann gæti nefnt mér dæmi um slíkt. 

"Hér er dæmi," sagði Garðar, og brosti stríðnislega. Veistu hvar Kattmúsará er". 

"Kattmúsará! Ertu að grínast?" svaraði ég. 

"Nei, nei," svaraði Gæi og nefndi staðinn. 

Og nú spyr ég. Hefur einhver heyrt þetta örnefni áður?


mbl.is Hvað er „Klofalækjarkjaftur“?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mikilvægt að læra af reynslu annarra þjóða.

Í vinnu við stofnun þjóðgarðs á miðhálendinu er afar mikilvægt að reynt sé að læra af reynslu og þekkingu annarra þjóða af þjóðgörðum. Einkum getur reynsla þjóða með svipaðar aðstæður og hér eru verið dýrmæt. 

Sem dæmi má nefna reynslu Norðmanna af stofnun Jóstedalsjökulsþjóðgarðs, en sá jökull er stærsti jökullinn á meginlandi Evrópu. 

Á sínum tíma gekkst Landvernd, þegar Tryggvi Felixson var þar framkvæmdastjóri, fyrir því að Erik Solheim kæmi til landsins til að miðla af þekkingu sinni varðandi stofnun þessa merkilega norska þjóðgarðs. 

Norðmönnum tókst að leysa vandamál varðandi þá sem stunduðu landbúnað í nágrenni við jökulinn og þeir voru ekkert að tvínóna við að koma sem mestu landi í efsta flokks verndunar. 

Hættu til dæmis við hagkvæmustu vatnsaflsvirkjun á Norðurlöndum sem fól þó í sér afar lítil umhverfisáhrif. Fólst í því að stækka lítið vatn, Langavatn, sem hvorki sést frá jöklinum, né sést jökullinn frá vatninu, og steypa vatninu niður í gegnum göng næstum 1000 metra fallhæð inn í lokað stöðvarhús niðri við sjó. 

Hætt var við þetta á þeim forsendum að þetta fæli í sér of mikla skemmd á ásýnd svæðisins! 

Á íslenska miðhálendinu eru alls sjö jöklar, og Vatnajökull er 20 sinnum stærri en Jóstedalsjökull. 

Gildi íslensks miðhálendisþjóðgarðs er kannski í svipuðu hlutfalli miðað við stærsta jökul meginlands Evrópu. 


mbl.is Nefnd um stofnun miðhálendisþjóðgarðs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Of misjafnar hindranir.

Það er vandaverk að hanna hraðahindranir og ekki síður að ákveða, hvar hver þeirra á að vera. 

Þetta blasir við hér í borginni. Þar að auki má stundum sjá fleiri en eina gerð hraðahindrana á sömu götu. 

Verst er þegar hindranir, sem tilsýndar sýnast alveg eins, reynast vera jafn misjafnar og þær eru margar, og engin leið fyrir bílstjóra að sjá muninn tilsýndar. 

Á nútíma bílum eru svonefnd lágprófíl dekk algeng, en þá er hæðin frá götu upp í felgu jafnvel ekki meira en 5-7 sentimetrar. 

Víða er hægt að finna götur þar sem sumar hindranirnar hafa verið flausturslega gerðar, þannig að gróp liggur þvert á akstursstefnu við hindrunina, sem hjólbarðarnir höggvast á. 

Þetta er alveg afleitt og getur skemmt bæði dekk, felgur og fjöðrunarbúnað. 

Að aka á sumum bílum yfir svona hindranir er illmögulegt á 30 kílómetra hraða, og þarf jafnvel að læðast yfir, og trufla með því umferð annarra bíla, sem á eftir aka. 

Á tímabili var það þannig í Síðumúlanum að ein hraðahindrun skar sig úr og var bæði talsvert hærri og brattari en allar hinar. Hugsanlega langhæsta hraðahindrun borgarinnar. 

Á tímabili var gamall smájeppi, sem ég ók, afar hastur, og þegar ég ók á honum í fyrsta skiptið eftir Síðumúlanum, bókstaflega henti þessi hraðahindrun hinum stutta bíl upp í loftið, en allt hafði verið í lagi á öllum hinum hindrununum. 

Hliðstæð dæmi má nefna um hraðahindranirnar út um alla borg. 

Púðarnir svonefndu, sem sagt er að sé íslensk uppfinning, eru brandari sem getur breyst í óhapp. 

Ég á einn gamlan afarbreiðan Range Rover fornbíl á 38 tommu dekkjum. 

Þessir púðar virka ekki fyrir hann, því að ef stýrt er nákvæmt, fara hjól hans sitt hvorum megin við púðana, og jafnvel þótt annað hjólið færi yfir púðann, er fjöðrunin svo mjúk og dekkin svo stór, að varla finnst fyrir því. 

Síðan hef ég líka átt svo mjóa fornbíla af minnstu gerð, að auðvelt væri að aka framhjá púðunum. Sjá má ökumenn á mjóum bílum gera það á Snorrabrautinni þegar lítil umferð er. 

En þar liggur í leyni sú hætta að þetta stórsvig trufli ökumenn sem koma á eftir eða skapi jafnvel árekstrahættu ef menn gæta ekki nógu vel að sér. 

Eitt sinn gerðist það þegar ég fór á vespuhjólinu mínu eftir Langarimanum, að ég var ekkert að láta hjólið fara yfir púðana, sem þar eru, heldur ók beint áfram en þó á jöfnum löglegum 30 km hraða. 

Á þessari götu hindranir fjölmargar og af tveimur gerðum, ýmist öldur eða púðar, auk þrenginga, og vegna þess að engin biðskylda er fyrir umferð frá fjölmörgum stuttum þvergötum, er nauðsynlegt að halda hraðanum fast niðri. Það er nú eitt af vandamálum íslenskrar umferðar, að það er eins og að margir viti ekki hvaða regla gildir þegar ekkert biðskylduskilti er við gatnamót. 

Af þeim sökum skapast oft hætta og varasamt óvissuástand við þessa götu og aðrar svipaðar.  

Á eftir mér ók ökumaður á lágum bíl með mjög lágum og breiðum dekkjum og sportlegri hastri fjöðrun. Þar að auki með lága "spoilera" að framan og aftan og lága krómlista með hliðunum. 

Þegar ég var búinn að fara mína beinu leið framhjá tveimur púðum byrjaði hann að flauta og blikka ljósum eftir að hafa klöngrast yfir púðana. 

Ég sá ekki að neitt væri athugavert hjá mér og hélt áfram en þegar við komum niður á Hallsveg, hafði hann gefið hressilega í eftir að komið var yfir síðustu hindrunina, ók upp að hliðinni á mér og gaf mér fingurinn.  

Enn sá ég ekkert athugavert og hélt áfram niður að umferðarljósunum. Þá stansaði hann við hliðina á mér, rúllaði niður rúðunni og hrópaði: "Þú átt ekkert með að aka svona! Ég kæri þig fyrir þetta!" 

"Ha?" svaraði ég. "Ég ók bara á löglegum 30 km hraða og tafði þig ekki neitt, heldur þvert á móti. Þú ókst langt fyrir neðan 30 og dróst aftur úr þess vegna." 

"Já, en þú fórst aldrei yfir hraðahindrunarpúðana". 

"Auðvitað ekki" svaraði ég. "En ég fór yfir öldurnar, gatan er ein akrein og ég hélt mig allan tímann inni á henni á löglegum hraða. Þessir púðar eru ekkert skemmtilegir að hossast yfir á svona litlu hjóli." 

"Til hvers heldurðu að púðarnir séu!" hrópaði hann, "þeir eru til þess að það sé ekið yfir þá! Það eiga allir að gera það!" 

Nú var komið grænt ljós og bílstjórinn fyrir aftan okkur flautaði, þannig að samtalið gat ekki orðið lengra. 

Skondin saga þetta, en gefur hugmynd um þann óróa sem hraðahindranir geta skapað.

Og kannski var reiði bílstjórans skiljanleg eftir að þurfa daglega að fást við það á viðkvæmum bíl sínum að glíma við hinar fjölbreyttu hraðahindranir í Reykjavík án þess að skemma hraðskreiða djásnið. Og síðan kom einhver auli á hræódýru litlu vespuhjóli og gat haldið 30 km hraðanum á meðan hann varð að hægja á sér niður í 15 km hraða á hverri hindrun.  

Vestasta ölduhindrunin á Langarimanum er raunar með djúpri hvassri skoru sem getur hoggið í sundur mjó dekkin á hinum litlu hjólum Hondunnar minnar ef maður gætir sín ekki og fer yfir hindrunina  hægra megin til að halda 30 km hraða í staðinn fyrir að fara niður í 10 þeim megin sem skoran er. Á hjóli er hægt að fara yfir ölduna til hliðar við skoruna, en ekki á bíl. Svona mismunun á ekki að líðast og þessi síðasta hraðahindrun hefur kannski verið kornið sem fyllti mælinn hjá blessuðum manninum. 


mbl.is Skapa hættu og hafa lítinn tilgang
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 24. janúar 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband