Hluti af einu af sjö mestu náttúruundrum Evrópu.

Fyrir nokkrum árum var gefin út erlendis vönduð bók undir heitinu "100 great wonders of the world" eða "100 stórkostleg undur veraldar." 100 wonders

Í henni er rúmlega helmingur undranna manngerður, svo sem Kínamúrinn, Stonehenge, Taj Mahal, Versalir og Kreml en um 40 undranna eru náttúruundur, 7 þeirra í Evrópu, og aðeins tvö á Norðurlöndum, hinn eldvirki hluti Íslands og norsku firðirnir.  

Hinn eldvirki hluti Íslands fær umsögn, sem er sér á parti í bókinni:  "Iceland is a land like no other," þ. e. "Ísland á engan sinn líka." 100 wonders, Europe

Nú hefur verið ákveðið að Vatnajökulsþjóðgarður og hluti gosbeltisins verði tilnefnd á Heimsminjaskrá UNESCO og var löngu kominn tími til þess. 

Hér á árum áður voru slíkar hugmyndir að engu hafðar. Jack D´Ives var viðurkenndur sérfræðingur varðandi vinnu við slíkt fyrir UNESCO, sem þekkti vel til Íslands frá fornri tíð, en þegar hann taldi þetta fyllilega tímabært, var það að engu haft. 

Sömuleiðis ætlaði allt vitlaust að verða hér heima þegar Louise Crossley, sem hafði bjargað Franklin ánni á Tasmaníu frá virkjun og komið henni í staðinn á Heimsminjaskrána, lagði til að vatnasvið Jökulsár á Dal og Jökulsár í Fljótsdal yrðu sett á Heimsminjaskrá. 100 wonders Volcanic Iceland

Ég minnist þess þegar ég átti viðtal við sveitarstjóra Mývatnssveitar nokkrum fyrr og benti honum á að tilvist Kísiliðjunnar og kísilnámið í Mývatni hefði komið í veg fyrir að Mývatn kæmist á skrána þegar það var nefnt hjá UNESCO, að þá yppti sveitarstjórinn öxlum og sagði: 

"Heimsminjaskrá er einskis virði. Við höfum ekkert að gera við svoleiðis. " 

Ég benti honum á að erlendis þætti mikill akkur í því fyrir ferðaþjónustuna að geta bent á staði eða fyrirbæri, því að þetta þætti gæðastimpill en hann fussaði og sveiaði.  


mbl.is Hafi gildi fyrir allt mannkyn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Báðar fylkingar sundurleitar, en Framsókn var í oddaaðstöðu.

Það var ljóst, að núverandi ríkisstjórn kom upp úr kjörkössunum eftir að Vinstri græn höfðu ekki viljað útiloka stjórnarsamstarf við neinn flokk fyrirfram og dregið lappirnar í stjórnarskrármálinu strax í kosningabaráttunni. 

Þótt fyrrveranndi stjórnarandstaða fengi eins þingmanns meirihluta var sú stjórnarandstaða búin að vinna saman í afar stuttan tíma, fjórfalt styttri tíma en Framsókn og Sjallar voru búin að vinna saman í stjórninni þar áður. 

Það þurfti ekki nema ein ógætileg ummæli til að minna á hinn tæpa meirihluta, og einn þingmanna Vinstri grænna skaffaði þau. 

Þar með var teningunum kastað fyrir Framsókn og núverandi stjórn var mynduð, enda útséð um að vinstri meirihluti gæti myndað stjórn með Miðflokknum og líka var fimm flokka stjórn ekki kræsilegur kostur. 


mbl.is Sundurleit stjórnarandstaða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Virkt borgarsvæði" og löngu úreltar borgar- og byggðahugmyndir.

Áður hefur verið minnst hér á síðunni á FUA, skammstöfun fyrir hugtakið Functional Urban Area, eða VBS, Virkt borgarsvæði á íslensku. 

Forsendur þess að þetta hugtak sé í gildi eru aðallega þær, að minnst 15 þúsund manns búi á svæðinu, og að svæðið nái frá miðju út að línu, sem afmarkar 45 mínútna ferðatíma milli útjaðars og miðju.  

Samkvæmt þessu er svæðið frá Þjórsá vestur um Suðurnes og norður fyrir Akranes virkt borgarsvæði og eitt atvinnu- og búsetusvæði. 

En mestöll umræða og viðhorf um borgar- og byggðamál hafa byggst á löngu úreltum hugmyndum, sem stangast á við hugsunina um virkt borgarsvæði. 

Sú hugsun kemur meðal annars fram í þeirri staðreynd, að VBS suðvesturhorns landsins er í raun eitt atvinnusvæði. 

Það á ekki að koma á óvart þótt ungt fólk og raunar fólk á öllum aldri flykkist nú til Árborgar, Reykjanesbæjar og annarra þéttbýliskjarna á hinu virka höfuðborgarsvæði. 

Ástæðan er miklu lægri húsnæðiskostnaður, sem gerir meira en að vega upp aukinn samgöngukostnað bílasamfélagsins. 

Smekkur og þarfir fólks eru af margskonar toga og fólksfjöldatölur sýna, að miðflóttaafl byggðar og fyrirtækja vegur þyngra en eftirsókn eftir því að vera í sem mestri þéttingu byggðar. 

Maður finnur þetta á eigin skinni hvað snertir nánustu ástvini. Af sjö börnum býr eitt vestan við Elliðaár, eitt í Kópavogi, tvö í Reykjavík, tvö í Mosfellsbæ og eitt í Brussel.

Og þar með fylgja tengda- og barnabörn, en barnabörnin eru raunar að byrja að leita enn lengra út á við, - fyrstu tvö barnabarnabörnin verða alin upp í Reykjanesbæ.  

Akureyri og svæðið milli Öxnadalsheiðar og Reykjadals í Þingeyjarsýslu er virkt borgarsvæði. 

Og af því að það er innan við 45 mínútna ferðatími með flugi milli Akureyrar og Reykjavíkur, má segja að Reykjavík og Akureyri saman séu eitt virkt borgarsvæði, - það er, meðan innanlandsflugið verður ekki flutt frá Reykjavík. 


mbl.is Undrast þögn Reykjavíkurborgar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 28. janúar 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband