Neyðarleg brunaæfing hérna um árið.

Ein neyðarlegasta frétt í sambandi við slökkvilið gerðist fyrir um 40 árum. Það var nefnilega svo gaman að skrifa hana og láta lesa hana í sjónvarpinu.  

Þannig var að slökkvilið Reykjavíkurflugvallar stóð fyrir brunaæfingu á auðu svæði fyrir sunnan austurenda brautar, sem þá var stafina 14/32, og er venjulega kölluð austur-vestur brautin. 

Það var fagur sumardagur og búið var að hafa mikið fyrir því að ná í flugvélarflak og fleiri tegundir af eldsmat til að búa til myndarlegan bálköst.  

Auk þess var búið að bera mikið af bensíni að kestinum og væta hann allan í bensíni. Þrír bílar slökkviliðsins voru notaðir.  

Þegar síðasti bensínbrúsinn var fluttur á slökkvibíl að kestinum kom í ljós, að brúsinn lak og að mestallt bensínið hafið lekið af honum á leiðinni. Var honum því hent nær tómum í köstinn.

Tvennum sögum fer af því hvað gerðist næst.

Önnur útgáfan var sú að þegar klukkan var um 15:00 og allt var klárt, leit einhver á klukku sína og kallaði: "Kaffi!"

Fóru þá allir inn í hús skammt frá til að njóta kaffitímans. 

Þegar þeir höfðu verið þar nokkra stund hringdi síminn.  Flugturninn tilkynnti að mikið bál logaði við brautarenda 14-32 í samræmi við veitt leyfi til brunaæfingar, en einkennilegt væri að þar sæist enn enginn slökkviliðsmaður en hins vegar væri kominn eldur í afturenda bíls slökkviliðsins skammt frá. 

Slökkviliðsmönnunum brá í brún þegar þeir fóru á vettvang og komu að flakinu brunnu til mest, en sáu einnig að eldur logaði í aftanverðum slökkvibílnum, sem hafði verið notaður til flutninganna vegna brunaæfingarinnar. 

Í ljós kom, að þegar slökkviliðsmenn höfðu borið leka bensínbrúsann að flakinu, skildu þeir eftir bensínslóð milli bílsins góða og flaksins. 

Einhverjir pörupiltar höfðu fylgst með brambolti slökkviliðsmanna, og þegar þeir þeir síðarnefndu fóru í kaffi, höfðu þessir piltar hlaupið inn á æfingasvæðið, kveikt í pappírsgöndli og kastað honum að flakinu, sem fuðraði upp á augabragði.  

En jafnframt læsti eldurinn sig eftir bensínslóðinni og komst í afturenda slökkvibílsins. 

Fór nú öll orka slökkviliðsmanna í að slökkva í slökkviliðsbílnum og ekkert færi gafst til að æfa að slökkva í flakinu.  

Hin útgáfan var sú, að leka bensínbrúsanum var ekið að flakinu og honum hent á það, en þegar kveikt var í flakinu í beinu framhaldi af þessu, barst eldurinn strax eftir bensínslóðinni að slökkviliðsbílnum, svo að öll orka viðstaddra fór í að slökkva í honum. 

Er sú útgáfa öllu líklegri, en þó minnir mig jafnvel að báðar útgáfurnar séu réttar og að um tvö neyðarleg atvik hafi verið að ræða. 

Það skiptir ekki öllu máli, því að það er staðreynd að ég skrifaði frétt um neyðarlega uppákomu hjá slökkviliðinu á Reykjavíkurflugvelli undir yndislegri fyrirsögn:  

"Brunaæfing eyðileggst í eldi." 


mbl.is Tóku forskot á þrettándagleðina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eitt af eftirminnilegum atriðum í þáttunum "Á líðandi stundu."

Eitt það ánægjulegasta sem minnist frá dundi mínu í Sjónvarpinu forðum daga var þátturinn  "A líðandi stundu." 

Tveir nýir yfirmenn, dagskrárstjórarnir, Hrafn Gunnlaugsson Ingvi Hrafni Jónssyni,urðu ásáttir um að Ingvi Hrafn "lánaði" mig yfir til Hrafns til þess að gera þætti, sem mig hafði dreymt um að yrðu að veruleika í íslensku sjónvarpi og fælust í því að í klukkustund væri bein útsending ´"á líðandi stundu" sitt á hvað, úr Sjónvarpshúsinu og annars staðar frá, jafnvel utan af landi og að viðfangsefnin yrðu eins fjölbreytt og líðandi stund hverju sinni byði uppá. 

Sigmundur Ernir Rúnarsson og Agnes Bragadóttir stigu sín fyrstu spor i sjónvarpi sem hluti af þríeyki með mér sem lifir skært í minningunni. 

Ekkert á líðandi stundu var þáttunum óviðkomandi, stjórnmál, viðburðir dagsins, listir, litríkt fólk út um alla borg og allt land. 

Í fyrsta þættinum brilleraði Davíð Oddsson, þáverandi borgarstjóri svo rækilega sem aðalviðmælandi, að Guðmundur Jaki, sem var aðalviðmælandinn í næsta þætti, sagði þá, að haldinn hefði verið nokkur konar neyðarfundur hjá Alþýðubandalagsmönnum til að íhuga viðbrögðin við aðsteðjandi stórsigri Davíðs í borgarstjórnarkosningum þá um vorið. 

Sem reyndar varð. 

Í þættinum sungu Egll Ólafsson og Björgvin Halldórsson sungu dúettinn "Við Reykjavíkurtjörn" eftir Gunnar Þórðarson við texta Davíðs og svipaður frumflutningur í sjónvarpi varð að föstum lið í þættinum "Á liðandi stundu" til vors. 

Einn slíkur viðburður var flutningur tónlistarmyndbandsins "Gaggó Vests", lags Gunnars Þórðarsonar, sem Eiríkur Hauksson söng af snilld og naut leiks Egils Ólafssonar í einum kafla þess, sem gerist í skólastofunni. 

Vegna þess að sumir þættirnir voru sendir út beint utan af landi, svo sem frá Vestmannaeyjum, Akranesi, Akureyri og Egilsstöðum, urðu þeir dýrir og erfitt að halda sama dampi áfram. 

En það, að þetta skyldi vera hægt, nægði mér, því að fram til 1985 höfðu menn hrist höfuðið yfir hugmyndinni. 

Þeir voru því aðeins á dagskrá fyrri part ársins 1986.  


mbl.is Taka Gaggó Vest loksins saman
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vanda þarf til verka. Hægt að byrja stórri styttingu ef fjárveiting fæst.

Á síðustu 56 árum hef ég reglulega farið akandi, jafnvel oft á ári, um Vestfjarðaveg nr. 60 frá Bjarkalundi til Vesturbyggðar.Léttir á Hrafnseyrar heiði

Ekki verður tölu komið á þann fjölda bloggpistla sem ég hef skrifað um ömurlegar samgöngur eina landsfjórðungsins sem á engan nýtilegan flugvöll til næturflugs eða alþjóðaflugsamgagna, og enn eru vegir við Arnarfjörð í svipuðu horfi og fyrir hálfri öld, jafnvel verra horfi. 

Löngu tímabær gangagerð milli Arnarfjarðar og Dýrafjarðar er þó loks hafin. 

Varla verður heldur komið tölu á þær sjónvarpsfréttir smáar og stórar sem ég hef gert um þessi brýnu samgöngumál síðustu hálfa öld. Léttir við Barðaströnd

Síðast fór ég Vestfjarðaleið nr. 60 að sumarlagi á Honda PCX 125 cc vespuhjóli þegar ég fór allan Vestfjarðahringinn í ágúst í fyrra, en slík hjól henta ekki vel fyrir malarvegi, og fékk ég því góða mynd af þessum hringvegi, miklu betri en ef ég hefði farið þetta til dæmis á mjúkum og stórum jeppa. 

Myndirnar eru af hjólinu uppi á Hrafnseyrarheiðí og síðan á leiðinni í austur frá Flókalundi, eyjar á Vatnsfirði í baksýn. 

Í þessari ferð skar Dynjandisheiði og raunar mestöll leiðin frá Þingeyri til Flókalundar sig alveg úr, var nánast ófær yfirferðar á hjólinu mínu.Djúpifjörður, Krossgilin, vítt

Ég tafðist lítið á leiðinni um Gufudalssveit, sem ég hafði þó kviðið fyrir í ljósi mikillar umræðu um hana.

Hafði þó ekið hana í fyrravor á bíl. Fór megnið af henni á vespuhjólinu á svipuðum hraða og bílarnir, sem voru á ferð, en sums staðar hafði aðeins verið hægt að fara fetið á Dynjandisheiði. 

Varla verður tölu komið á þau skipti, sem ég hef flogið um norðanverðan Breiðafjörð. Flaug sérstakt kvikmyndatökuflug yfir veglínu Þ-H sem liggur um Teigsskóg fyrir rúmum áratug og fór akandi sérstaka ferð vestur til að verja degi í að ganga þessa veglínu. 

Myndin hér við hliðina er af því svæði í Djúpafirði, þar sem yrði gangamunni, hinum megin fjarðarins, fyrir hugsanleg göng undir Hjallaháls. Þorskafj. þverun.

Vegna takmarkaðra upplýsinga frá Vegagerðinni um leið D2 hvað varðar jarðgöng undir Hjallaháls, taldi ég þörf á að fara sérstaka ferð í gær til að rifja sérstaklega upp fyrri kynni mín af veginum, svo að ég gæti sent inn umsögn og athugasemdir til hreppsnefndar Reykhólahrepps.

Nú hefur fjárveitingavaldið frestað fjárveitingu í þennan veg um minnsta kosti eitt ár. 

Það er synd, og í raun fyrirsláttur að kenna pattstöðunni um Teigsskóg um það, því að til dæmis væri vel hægt að hrinda í framkvæmd mikilvægum hluta bóta á veginum ríflega tíu kílómetra styttingu á þessari leið strax með því að þvera Þorskafjörð, en báðar leiðirnar, D2 og Þ-H gera ráð fyrir slíkri þverun og akkúrat núna er aðeins verið að velja á milli þeirra tveggja.

Á neðstu myndinni er horft til vesturs yfir Þorskafjörð á þeim stað, þar sem fyrirhuguð þverun fjarðarins með nýjum vegi myndi koma. 

Hvað snertir þetta mál í heild er að ræða stærstu ákvörðun varðandi náttúru og lífríki Breiðafjarðar á okkar tímum, sem varðar komandi kynslóðir. Þetta svæði hefur svipað gildi fyrir Ísland og Evrópu og sænski skerjagarðurinn hefur fyrir Svía og Evrópu.  

Því ætti að nýta vel þann frest sem fjárveitingavaldið hefur stofnað til með því að afla betri upplýsinga og skoða fleiri hliðar þessa máls en gert hefur verið. 

Þess má geta, að myndir sem ævinlega eru sýndar í fjölmiðlum af Teigsskógi eru alls ekki teknar á því svæði þar sem skógurinn, ströndin og lífríkið eru mögnuðust. 

Þangað liggur enginn akvegur, og þegar mynd hefur verið sýnd af ráðherra að skoða skóginn, hefur hann ekki heldur verið á þessu svæði. 

  


mbl.is Halda fram mismunandi leiðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ótímabær dauðsföll eða tímabær?

Undanfarin misseri hef ég rekist á eins konar exel-skjal sem er gegnumgangandi í kerfinu varðandi gamalt fólk. 

Fyrst var það varðandi slysabætur. Þar kom í ljós að þegar fólk er komið yfir 75 ára aldurinn er það komið í svokallaðan "hrakvirðisflokk" varðandi hríðlækkaðar bætur aldurs vegna. 

"Meinarðu ekki ruslflokk"? spurði ég slysabótasérfræðinginn. 

"Jú,kannski", svaraði hann, en hitt heitið lítur betur út. 

Um svipað leyti var sögðu sú frétt í fjölmiðlum að Íslendingar væru í fremstu röð í heiminum varðandi fjölda "ótímabærra dauðsfalla." 

Þegar gluggað var í "smáa letrið" kom í ljós að þetta miðast við 75 ára aldur. 

Ef maður, sem á 75 ára afmæli á sunnudaginn, dettur steindauður niður í dag og ljós kemur, að hægt hefði verið að forða honum frá þessum örlögum, skilgreinist það sem "ótímabært dauðsfall." 

Ef hann dettur hins vegar niður á sunnudaginn, telst það ekki vera ótímabært dauðsfall. 

Réttara sagt, þótt það sé kaldhæðnislegra, það telst vera tímabært dauðsfall og jafnvel vel tímabært dauðsfall. 

Mér segja menn sem hafa búið erlendis, að þrifnaður á götum og gangstéttum hér á landi standi langt að baki því sem er í öðrum löndum. 

Og ef 80 ótímabær dauðsföll eru staðreynd, má ekki gleyma því að kannski eru önnur 80 hjá fólki, sem er orðið 75 ára og deyr því á tímabæran hátt úr svifryksmengun. 


mbl.is Vilja fækka ótímabærum dauðsföllum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 6. janúar 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband