Glataður þyrlurekstur. Brandari sem getur breyst í harmleik.

Til þess að reka þyrluþjónustu af einhverju öryggi þarf fimm þyrlur. Hvers vegna? Jú, vegna þess að rekstur þyrlna er svo miklu tímafrekari og flóknari en rekstur sömu stærðar af venjulegum flugvélum. 

Það er ekki fjarri lagi að reksturinn sé fjórum sinnum dýrari og að tíminn fyrir lágmarks viðhald sé líka margfalt meiri. 

Ef þyrlurnar eru fimm, eins og lágmarkið var í þyrlusveit Varnarliðsins, má reikna með að ein þeirra sé að lágmarki óflughæf á jörðu niðri hverju sinni, jafnvel tvær. 

Sé ein í útkalli og ein bilar er aðeins upp á eina þyrlu að hlaupa til þess að bregðast við tveimur útköllum samtímis, sem gerist auðvitað aftur og aftur. 

Síðan þarf að hafa nægan mannskap til þess að sinna útköllum.

Nú nýlega varð margra tíma seinkun á áríðandi útkalli vegna mannfæðar, að því er helst var giskað á í fjölmiðlum. 

Á hátíðarstundum mæra stjórnmálamennn sjávarútveginn, gildi hans fyrir þjóðarbúskapinn og gildi ómetanlegs framlags sjómanna. 

En samtímis er staðið þannig að rekstri öryggisþjónustu fyrir skipin á hafinu umhverfis landið, að helst kemur í hugann orðaval eins og hjá formanni Sjómannasambands Íslands. 

Í skásta falli að þetta sé brandari, sem er að vísu viðeigandi, því að með sama áframhaldi er aðeins spurning um tíma, hvenær hann verður að harmleik.  

 


mbl.is „Nýtt Alþingi skítur upp á bak“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vetnið er líka á leiðinni.

Rafbílabyltingin, sem nú er að banka á dyrnar með tilkomu nýrra tvöfalt öflugri rafhlaðna og bættri hraðhleðslutækni, var hindruð og stöðvuð að mestu í 20 ár af öflugustu jarðefnaeldsneytisfyrirtækjum heims sem hafa byggt stöðu sína á beitingu yfirburða aðstöðu í krafti fjármagns og stærðar og ítaka hjá helstu valdastofnunum Bandaríkjanna. 

Þessi öfl berjast á hæl og hnakka fyrir því að snúa hverri þeirri tækniþróun til baka, sem getur komið í veg fyrir að hægt sé "að endurvekja mátt og dýrð Ameríku". 

En þessi "máttur og dýrð" felst að stórum hluta í því að beisla óánægju þeirra stétta og svæða, þar sem ný tækni og máttur menntunar verða til þess að fornir atvinnuhættir leggjast af. 

Þessi gagnbylting hefur að vísu út utan Bandaríkjanna og í einstökum Bandaríkjum, en fær nú nýja útrás í því að helsta ráðgjafalið og aðstoðarmannalið nýs Bandaríkjaforseta ræður lögum og lofum í stefnu hans, sem meðal annars felst í því að stöðva tækniframfarir á ýmsum sviðum, svo sem við smíði smærri farþegaþotna, og gefa veiðileyfi á örvæntingarfulla olíuleit við strendur Norður-Ameríku allt norður í Íshafið. 

Nissan Leaf er gott dæmi um það þegar stórframleiðandi veðjar á nýjan tæknihest og nær svo góðum árangri að keppinautarnir neyðast til að fylgja í kjölfarið. 

Þegar Renault Zoe kom fram með 40 kwst rafhlöðu, ógnaði það Leaf með sína 24 kwst rafhlöðu. 

En nú svarar Leaf með 60 kwst rafhlöðu til að draga Tesla uppi og fara fram úr að nýju vegna þess hve Leaf og fleiri svipaðir á leiðinni eru miklu ódýrari en Tesla. 

Tesla er dæmi um tæknilegt banarískt frumkvæði, sem hefur verið á ystu nöf með að halda velli en bjargast fyrir kærkomna samvinnu við gróin fyrirtæki. 

Nú hafa Toyota og Hyundai veðjað á notkun vetnis sem orkubera, og við hornið er vetnisbíll hjá Mercedes-Benz. Þetta eru dýrir bílar eins og oft vill verða um nýjungar. 

Vegna þess að um byrjun er að ræða hvað snertir vetnisvæðingu og að allt innviðakerfi varðandi hleðslu vantar, verður róður þessara fyrirtækja sennilega þungur til að byrja með, en möguleikarnir felast í langtum meiri drægni en hjá rafbílum og miklu hraðari hraðhleðslu, allt niður í 2 mínútur. 

Sjálfkeyrandi bílar mun ógna störfum margra, sem lifa á ástandi, sem er mannaflafrekara. 

En ef illa er staðið að því að endurmennta það fólk og veita nýja atvinnu, sem verða atvinnulega fyrir barðinu á tækniframförum, mun það skapa tækifæri fyrir skrumara til þess að beisla reiði þeirra sem kjósenda og komast til valda í krafti svipaðs fyrirbæris og þess að "endurvekja mátt og dýrð Ameríku."

 


mbl.is Baráttan um sjálfkeyrandi bíla harðnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þegar Þórarinn á Melnum var og hét. "Bæjarins bestu mjólkursopar"?

Ótal smá hænsnabú og fjárbú gáfu Reykjavík séstæðan sjarma um miðja síðustu öld. Götunöfn eins og Bústaðavegur vitna um það hve borgarlandið var sundurlaust og þakið ótal smábýlum og bústöðum. 

Reykjavík var þá bær og stjórnað af bæjarstjórn og bæjarstjóra, en bæjarbúar voru að enn að meirihluta til fæddir eða uppaldir úti á landi og átthagafélögin voru svo sterk að einn helsti samkomu- og skemmtistaður bæjarins, sem var við Skólavörðustíg, hét Breiðfirðingabúð. 

Ég kom oft til ömmu minnar og afa á Ásvallagötu 51 þegar ég var að alast upp og fékk oft að kúra þar. Þau komu um tvítugsaldur austan úr Skaftafellssýslu til Reykjavíkur og voru alla tíð jafnvel meira dreifbýlisfólk en borgarbúar. 

Ég veiktist alvarlega í einni kvöldheimsókn til þeirra og mátti mig hvergi hræra í rúminu í nokkrar vikur. Amma annaðist mig af einstakri nærgætni og elsku, og mér fannst alltaf gott að vera þar. 

 

Beint á móti Ásvallagötu númer 51 þráaðist smábóndi nokkur, sem jafnframt var verkamaður, við að halda sauðfé og hænsni á reitnum milli Ásvallagötu, Bræðraborgarstígs, Sólvallagötu og Hofsvallagötu. 

Hann gat auðvitað ekki lifað af svona fáum skepnum, og snapaði sér vinnu við uppskipun í Reykjavíkurhöfn. Hugsanlega var hann með eina kú á tímabili. 

Við uppskipunina voru menn lausráðnir að stærstum hluta frá degi til dags, og það var eftirminnileg upplifun fyrir 14 ára strák að fara í á skólafrídögum niður að höfn eldsnemma dags og blanda sér í hóp hafnarverkamanna, sem biðu eftir því að fá vinnu þann daginn, eða verða látnir fara heim. 

Maður varð hálf skömmustulegur vegna þess hve Elsa Sigfúss gerði lýsingu Davíðs Stefánssonar á fjölskyldunni í "verkamannsins kofa" eftirminnilega í söng sínum á dapurlegu lagi um kjör smælingjanna.   

Bóndinn og verkamaður við Ásvallagötu hét Þórarinn, kotið hét Melur, og bæjarbúar þekktu margir Þórarinn á Melnum eins og hann var kallaður. 

Þegar loftmyndir af Reykjavík frá þessum tíma eru skoðaðar, er mikill fjöldi smábýla og áberandi og einnig alls kyns smáir "blettir", sá langstærsti þeirra, Kringlumýrin eins og hún lagði sig og var samfellt kartöflugarðaland. 

Þar höfðu amma og afi og ótal annað fólk, sem hafði flutt til borgarinnar utan af landi, sína einkagarða og ræktuðu aðallega kartöflur í þeim, en einnig ýmar aðrar garðyrkjujurtir. 

Það var eins og höfuðstaður landsins vissi ekki hvort hann ætti að vera þorp eða bær, hvað þá verðandi borg. 

Mikið hefði nú verið gaman, ef að bær Þórarins á Melnum hefði verið varðveittur þannig að þar væri nú allt með sömu kjörum og var 1950 og kunnáttumaður á borð við Ólaf Dýrmundsson stundaði þar búrekstur í svipuðum stíl og pylsusala er nú stundið á Bæjarins bestu, einhverjum þekktasta ferðamannstað Íslands. 

Á Melnum væru þá enn nokkrar ær, sauðburður á vorin, og ferðafólk gæti keypt sér spenvolga mjólk beint úr kúnni, "bæjarins bestu mjólkursopa".   


mbl.is Síðasti örbóndinn í höfuðborginni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 8. janúar 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband