Þegar píanóleikarinn fór út úr þjóðsöngnum.

Í mörgum ferðum mínum til Bandaríkjanna til þess að koma fram á samkomum Íslendingafélaga heyrði maður margar skemmtilegar sögur. 

Ein þeirra var af íslenskum píanóleikara, sem var beðinn um að spila af fingrum fram undirspil við íslenska þjóðsönginn. 

Vildi þá ekki betur til en svo að eftir fjórar ljóðlínur villtist píanóleikarinn yfir í tvær síðustu laglínur allt annars lags, Draums hjarðsveinsins, þannig að lengra komust píanóleikarinn og samkomugestir ekki í að syngja þjóðsönginn. 

Reynt var aftur, en allt fór á sömu leið, þannig lengra komust menn ekki í þessum einstæða flutningi.

Kannski skýrist þetta ögn ef textinn við þessar laglínur, sem voru sungnar vestra er settur hér inn: 

 

Ó, guð vors lands! 

Ó, lands vors guð! 

Vér lofum þitt heilaga, heilaga nafn. 

Þá flaug hjá mér þröstur, svo að þaut þar við runn, 

og þar með var draumurinn búinn!  


mbl.is Gleymdi Trump textanum?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Að drekkja sér í eigin drullu..."?

Þegar Óli kommi var heimsóttur fyrir meira en aldarfjórðungi um hátvetur á Hornbjargsvita, þar sem hann var þá vitavörður, talaði hann um að kapítalisminn myndi "drekkja sér í eigin drullu." 

Átti hann þá við afleiðingar tryllingslegrar framleiðslu og neyslu í markaðsþjóðfélaginu, sem stefna myndi tilveru mannkyns í voða á komandi öld. 

Raunar kom í ljós við fall kommúnismans í Sovétríkjunum og Austur-Evrópu að í þeim löndum hafði myndast eitthvert versa ástand í umhverfismálum á byggðu bóli. 

Nú er plastúrgangur að verða eitt skæðasta spilliefni í umhverfinu og gildir það jafnt um þróuð sem vanþróuð lönd og um lönd með kapítalisku og kommúnisku skipulagi. 

Með stórauknum heimsviðskiptum hefur mengun af völdum úrgangs orðið æ víðfeðmara og tengsl þjóðanna að sama skapi nánari, hvað varðar svo stórt sameiginlegt vandamál sem til dæmis plastframleiðslan, notkunin og úrgangurinn eru, að þetta er ekki lengur spurningin um að hluti þjóða drekki sér í eigin drullu, heldur verður ógnin æ víðtækari um alla jörð, bæði á sjó og landi.  


mbl.is Hættir að taka við „erlendu sorpi“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Janúar - mánuður vonarinnar.

"Ekki koma í janúar." Það voru ráð mín til frægs belgísks sjónvarpsmanns, sem fer oft erfiðar svaðilferðir við þáttagerð sína víða um heim, og vildi endilega vera hér við upphaf þorra og sjá hvernig Íslendingar taka á móti þorranum. 

Það þurfti nokkur samtöl til að fá Belgann til að færa ferðalagið aftur í seinni hluta þorra, því að hann þurfti að melta nokkrar staðreyndir: 

Að meðaltali er dýpsta lágþrýstisvæði heims suðvestur af Íslandi í janúar á sama tíma og næst hæsta háþrýstisvæði jarðar er fyrir norðvestan landið yfir Grænlandsjökli. 

Afleiðing: Mesta rokrassgat á byggðu bóli á þessum árstíma. 

Janúar er að vísu ekki alveg dimmasti mánuður ársins, en það munar ekki miklu. 

Þetta er að jafnaði mesti umhleypingamánuðurinn og mesti rok-og óveðramánuðurinn. 

Líka mikill slysamánuður á sjó, landi og í lofti. Í janúar 1959 fórust 30 íslenskir sjómenn á Halamiðum og í janúar 1995 fórust 14 í snjóflóðinu í Súðavík.  

En kannski er það þess vegna sem janúar er samt mikilvægur, með Sólarkaffi Ísfirðinga og vonina og vissuna um að enda þótt þorrinn sé illræmdastur gömlu mánaðanna, mun sól fara hækkandi, dagana lengja og óveðrum að fækka. 

Fyrsta óveðrið sem ég man eftir var í janúar 1950 þegar vélbáturinn Helgi fórst á Faxaskeri í Vestmannaeyjum með tíu mönnum. 

Tveimur tókst að skríða upp á skerið en dóu þar úr vosbúð og kulda. Það voru 16 vindstig eins og þá var sagt. 

Eftir þetta slys var sett upp björgunarskýli á skerinu, en enginn hefur þurft á því að halda til lífsbjargar í 67 ár. 

Ef Helgi hefði ekki farist á skerinu væri þar sennilega ekkert skýli enn, því að menn væru að bíða eftir slysinu eins og sífellt er verið að gera hér á landi, áður en brugðist er við. 

Minnst þúsund íslenskir sjómenn hafa farist í janúar, þeirra á meðal tengdafaðir minn heitinn í janúar 1950. 

Hann var á besta aldri, aðeins 49 ára, og þetta var mikill missir fyrir tengdamóður mína og átta börn hans. 

Alls fórust fimm í þessu sjóslysi og það var áfall fyrir Patreksfjörð. 

En janúar er samt mánuður vonarinnar, von sem þarf sjaldan á eins mikilli umönnun að halda og þá.  

Og þá má líka þakka fyrir það að á síðasta ári fórst enginn á sjó og enginn í lofti hér á landi. 


mbl.is „Kolbrjálað“ veður í Norðlingaholti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þögn um hagkvæmar breytingar einkabílaflotans. "Kútur" er krútt.

Einkahesturinn og síðar einkabíllinn hafa verið stórt atriði í ameríska draumnum og íslenska draumnum.

Draumurinn lifir góðu lífi enn og er mjög skiljanlegur hjá þjóð sem að stórum hluta tiltölulega nýrík en býr í landi með rysjótt veðurfar og fimm stigum kaldari meðalhita um hádaginn á sumrin en næstu nágrannaþjóðir í Evrópu. 

Á hinn bóginn blasir við, að það þurfi ekki endilega 1500 kíló af stáli til að flytja 100 kíló af mannakjöti í daglegu snatti um götur borgarinnar. 

Þaðan af síður að hver einkabíll þurfi að meðaltali að vera 4,6 metra langur og 1,80 á breidd. hvað þá að hann þurfi að vera talsvert lengri, breiðari og þyngri.  

Fjölmargir 4-5 sæta bílar eru metra styttri eða 3,6 metrar. Tazzari í litlu stæði

Síðustu vikur hef ég notast við rafbíl með engum útblæstri og engum eldsneytiskostnaði, sem er minnsti rafbíll landsins, aðeins 2,88 metra langur og samt er nóg rými fyrir tvær manneskjur í honum, sem sitja hlið við hlið og hafa ekki hugmynd hve þetta er lítill bíll nema að standa fyrir utan hann og sjá, að án aftursætis sparast hátt í tveir metrar af götu eða bílastæðisrými miðað við bíl á stærð Skoda Octavia. 

Um leið og tveir svona stuttir bílar eru komnir í umferð á götunum í stað tveggja langra, búa þeir til pláss fyrir einum bíl fleiri á sömu vegalengd af malbiki. Léttir 1. maí

Þetta vita Japanir og ívilna stórum bílum, sem eru styttri en 3,40 metrar að lengd en taka þó 4-5 í sæti. 

Ef þeir gerðu það ekki væru umferðarmálin þar í landi orðin algerlega óleysanleg. 

Auk litla rafbílsins hef ég notað áfram,eins og síðustu tvö ár,létt ofursparneytið hraðskreitt vespuhjól eða þá rafreiðhjól, sem ná ennþá lengra í sparnaði á rými á götunum, nánast algerum á þann hátt, að meðan ein manneskja ferðast á hjóli um um gatnakerfið, losar hann sem svarar rými fyrir einn bíl í staðinn. Bajaj Kútur(2)

Miklubrautarreikningsdæmi:  100 þúsund bílar á dag, helmingur þeirra 3,60 eða styttri = 50 kílómetrar af malbiki, sem verður autt í stað þess að vera þakið af bílum. 

Umferðarvandamálin næstu áratugi kalla á fjölbreyttar aðgerðir til þess að þjóna sem best hagsmunum sem flestra með sem mestri hagkvæmni.

Það kallar á útvíkkaða hugsun með tilliti til allra þeirra möguleika sem finnast til þess að sem flest fólk komist leiðar sinnar á sem stystum tíma. 

Var að skoða á netinu nýjan indverskan bíl, sem heitir Bajaj Qute, og á að kosta aðeins 2 þúsund dollara. 

Indverskir bílar koma æ sterkari inn. Síðasta gerðin af Suzuki Alto sem seldust ágætlega hér og hafa reynst vel, var framleidd á Indlandi. Bajaj Kútur.

Bajaj Qute er aðeins 400 kíló en tekur fjóra þægilega í sæti, þótt hann sé aðeins 2,75 m langur og og 1,31 á breidd. 

Galdurinn felst í nýrri hönnunarhugsun fyrir innanbæjarsnattið, lítil hjól, samt 12 tommu felgjur, og nógu hátt þak til þess að fólk í aftursætinum geti setið ofan á afturhjólaskálunum og litlu vélinni, og að í framsætunu sé svo hátt frá gólfi upp í sætin, að það sparist helt fet í fótaplássi á lengdina.  

Eins strokks vélar hafa mikla kosti þegar þyngd farartækjanna er lítil. Þær taka svo lítið pláss, að ókunnugir eiga erfitt með að finna þær á sumum vespuhjólunum og eru afar léttar og einstaklega sparneytnar. Bajaj Kútur (3)

Vélhjólaframleiðendur heimsins framleiða nú eins strokks vélar, sem eru allt upp í 500 sem afkasta allt upp í 55 hestöfl. Úrvalið er stórkostlegt. 

Qute eða "Kútur" er með eins strokks 217 cc vél, sem er aðeins 13 hestöfl en eyðir líka aðeins 2,9 lítrum á hundraðið!  

Hámarkshraðinn á Kúti er að vísu aðeins 70 km/klst en það þarf ekki meira í borgarsnattinu og takmarkaður hraði er ákveðið öryggisatriði, sem til dæmis er tekið tilliti til í evrópskri löggjöf um 45 km/klst hjól og 125 cc hjól, en þessi 125 cc löggjöf hefur hin vegar því miður ekki skilað sér hingað til lands. 

Bajaj Qute er skilgreindur sem "light quadracycle" eða létt yfirbyggt vélhjól á fjórum hjólum. 

Kolefnislosun er aðeins 60 g á kílómetrann nær tvöfalt lægri en á umhverfismildustu bílunum hér, sem eru knúnir jarðefnaeldsneyti. 

Ný viðfangsefni og nýjar aðstæður kalla í nýja hugsun. 

Ef fólk vill rafbíl sem er aðeins 2,69 m langur en samt með fullt hús af öryggisstjörnum frá NCAP og býður upp á 130 km hraða, 100 km drægni og víðáttubrjálæðisrými fyrir tvo í sætum, liggur Smart EV beint við. 

En þá þarf líka að borga sjö sinnum hærra verð en fyrir Baja Kút. 

 


mbl.is Ekki á leið í pólitík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 9. janúar 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband