"Aukning í magni fjölda ferðamanna."

Ofangreind orð féllu af vörum manns í útvarpsviðtali. Öðruvísi gat hann ekki lýst því að "ferðamönnumm hefði fjölgað."

Orðið "aukning" er komið langt með að útrýma sagnorðunum "að vaxa" eða "að fjölga." 

Þegar annar maður í útvarpsviðtali vildi lýsa gangi mála í ferðaþjónustunni, gat hann ekki lýst helstu staðreyndum öðruvísi en að bæta við fyrir framar þessar staðreyndir tískuorðunum "við eum að sjá."  Við erum að sjá þetta og við erum að sjá hitt. 

Einn okkar ágætu veðurmanna í sjónvarpsfréttum bætir æ ofan í æ við orðunum "kemur til með að" fyrir framan staðreyndirnar "sem við sjáum" á skjánum. 

Það kemur til með að myndast lægð sem kemur til með að vaxa og kemur til með að fara yfir landið, svo að það kemur til með að kólna og hvessa. 

"Kemur til með að..." er algerlega óþörf viðbót, sem lengir málið, en það var eitt af einkennum svonnefnds kannsellístíls, sem tröllreið íslensku ritmáli á 19. öldinni og var kennt við stjórnkerfið danska. 

Veðurmaðurinn hefur komist upp í það að segja "...kemur til með að..." sjö sinnum i einu stuttu veðurspjalli. 20 sekúndur samtals í vaskinn á dýrasta útsentingartímanum. 

Nú sækir á eins konar enskuskotinn ný-kannsellístíll, engu skárri en hinn danskættaði var og bæði þessi fyrirbæri virðast eiga að gefa til kynna háar stöður og mikla menntun og upphefð þeirra sem rita eða tala í þessum stíl. 

Nýlega söfnuðust til feðra sinna fjölmiðlamennirnir Eiður Guðnason og Jónas Kristjánsson, sem notuðu afburða skýrt, rökvíst og fagurt íslenskskt mál í umfjöllun sinni um menn og málefni. 

Er þar skarð fyrir skildi.  

Þess má geta, að "aukning í fjölda nýskráðra bíla" er orðið nær alrátt orðalag um vöxt eða fjölgun, en síðan sá ég síðar í morgun, að komin var önnur mun betur skrifuð frétt um svipað efni á mbl.is.  

Ber að þakka það sem vel er gert. 

 


mbl.is 34% aukning í nýskráningu rafbíla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Allra bragða neytt.

Nú eru að verða tvö ár síðan Stundin ætlaði að fjalla um mál, sem varðandi almenning og kjörna fulltrúa hans. 

Þetta voru greinilega mál, sem viðkomandi málsaðilar töldu mikilvægt að almenningur kæmist ekki á snoðir um. 

Og lagatæknar fundu ráð til þess að stöðva birtinguna fyrirfram með því að krefjast lögbanns á hana. 

Og lagatæknarnir fundu dómara, sem gerði það sem um var beðið þótt auðséð væri, að rökin fyrir lögbanninu héldu ekki vatni. 

Þessi atbeini réttarkerfisins tryggði það að málið myndi velkjast svo lengi í dómskerfinu, að gagnvart fréttaflutningum jafngilti það ritskoðun og broti gegn grundvallaratriðum lýðræðisríkja. 

Dæmi um viðleitni valdaafla til að fara sínu fram er það, að Ísland hefur verið viðundur meðal Evrópuþjóða varðandi það að lögfesta Árósasáttmálann, sem snýst um það að í umhverfis- og náttúruverndarmálum eigi samtök og félög almennings svonefnda lögaðild að framkvæmdum, en ekki einungis landeeigendu, stofnanir og fyrirtæki. 

Flest Evrópulönd höfðu lögfest samninginn fyrir tuttugu árum, en Íslendingar drógu lappirnar, og tókst meira að koma í veg fyrir það í Gálgahraunsdeilunni að mörg hundruð eða jafnvel þúsunda manna samtök náttúruverndarfólks ættu lögaðild að deilunni. 

Í því efni þjónuðu dómstólar valdalöflunum á svipaðan hátt og í máli Stundarinnar. 

 


mbl.is Vilja stöðva fréttir fyrir fram
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svo einfalt en samt... Núið, sem skapar framtíðina.

Ef maður labbar út úr búð með tíu kíló í höndunum fyrir helgina, getur verið ágætt að hugsa til þess, hve miklu auðveldara væri að hlaupa upp næstu tröppu án þess að rogast með þessa þyngd. 

En hugsa síðan næst til þess, að maður er kannski samt að rogast með óþarfa tíu kíló af fitu utan á sér allan daginn, og það getur hefnt sín að vera ekki meðvitaður um þetta, heldur búinn að samlagast því og orðinn samdauna því. 

Og það flýgur í gegnum hugann: Er óþarfa fitan, sem maður rogast með, virkilega svona þung?

Munurinn á búðarvöruburðinu og fituburðinum er sá, að búðarvöruburðinn er hægt að leggja frá sér eða hætta við að kaupa hann, og það er ákvörðun, sem tekur bara augnablik að taka svo að hún svínvirki. 

Það að taka af sér tíu kíló af fitu er hins vegar víðsfjarri því að svínvirka á sama augnablíki, heldur mun það taka langan tíma með samfelldri röð af samskonar ákvörðunum í núi hvers augnabliks að skapa þá framtíð, sem verði betri, - þetta er langt langt langhlaup.  

Lífið er röð af óendanlega mörgum augnablikum, sem hvert um sig kemur og fer, - á einu augnabliki, - en er samt hvert fyrir sig dýrmætur hluti af forsendu fyrir betri líðan um langan tíma.  


mbl.is Var orðin óvinnufær vegna ofþyngdar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 1. október 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband