Allt tilbúið til að laga þriðju slysahæstu gatnamót landsins, en ekkert gerist.

Í bloggpistlum undanfarinna daga hér á síðunni hafa fjárveitingar til umferðarmála verið til umfjöllunar. Ef kostnaðaráætlun um endurgerð braggans fræga hefði staðist væri engin ástæða til að bera þá framkvæmd saman við framkvæmdir við umferðarmál. Vandlega yfirveguð og undirbúin verndun mikilsverðra sögulegra minja er hið besta mál og skylda núlifandi borgarbúa. 

En það má ekki liggja í þagnargildi hve sjálfsagt það ætti að vera að bæta úr sívaxandi ófremdarástandi á gatnamótum Bústaðavegar og Reykjanesbrautar, sem hefði átt að vera búið að bæta úr fyrir mörgum árum. 

Þessi gatnamót eru þriðju slysahæstu gatnamót landsins og ástandið fer síversnandi eins og stytting þess tíma, sem leyfilegt er að taka vinstri beygju af Bústaðavegi inn á Reykjanesbraut í norðurátt. 

Hjá Vegagerðinni liggur fyrir fullbúin áætlun um það hvernig hægt verði að breyta þessum gatnamótum fyrir miklu minna fé en áður var talað um og leiða umferðina þessa beygjuleið hindranalaust sem og aðrar leiðir án þess að snerta Elliðaárnar eða trufla umferðina um Reykjanesbraut.  

Þetta hefur í meginatrinum legið fyrir í nokkur ár en ekkert gerist.

Rétt eins og að endurbætur á göngu- og hjólastígum gagnast líka bílaumferð í formi minnkaðs álags á hana, gagnast endurbætur á gatnakerfinu öllum, líka þeim vegfarandum sem með því að fjölga geta minnkað álagið á bílaumferðina, en það er hinn algerlega vanrækti ferðamáti að nota sparneytin og ódýr vélhjól. 

Reykjanesbrautin er stofnbraut og maður hefði haldið að þetta kæmi ekki bara borgarfulltrúum við heldur líka þingmönnum Reykjavíkur. 

En hvar eru þeir? 


mbl.is „Okkur blöskrar gríðarlega“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Stórislagur" nálgast. Stóru eitruðu peðin tvö.

Það má segja að það styttist í eins konar stóraslag, sem framundan er í kjaramálum launþega landsins. 

Samtök launamanna eru í óða önn að undirbúa kröfugerð sína og fjölmennustu samtök þeirra, sem lægst hafa launin, hafa boðað samstöðu. 

Þegar önnur samtök fara nú að bætast í hóp hinna tilbúnu, mun flækjustig þessara mála verða meira og líða fyrir það umrót, sem kjaradómur hafði á sínum tíma og er undirliggjandi rót þess vanda, sem "elítan" í launamálum að ríkisstjórn og Alþingi meðtöldum hefur sjálf skapað og ekki haft kjark eða raunverulegan vilja til að bæta fyrir, - að vísu að undanteknum forseta Íslands. 

Sérstaða hans í þessu máli sýnir glöggt, hve nauðsynlegt það er að fleiri ráðamenn sæki umboð sitt sem beinast til kjósenda sjálfra. 

Í frumvarpi stjórnlagaráðs voru framfaraákvæði um það efni, sem ýtt geta við elítunni, og eru hugsanlega ein undirrót þess, að í raun stendur hún í vegi fyrir því að draumur Jóns Sigurðssonar forseta frá 1851 geti ræst, þess efnis að Íslendingar fái að semja sjálfir sína eigin stjórnarksrá. 

Þetta tvennt, stjórnarskráin og staða elítunnar í kjaramálum, hvort tveggja mál elítunnar sjálfrar, eru risastór eitruð peð í refskák íslenskra stjórnmála. 


mbl.is Býst við samstöðu á þinginu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kristinn H. Gunnarsson: Laxinn fram úr þorskinum sem fyrst!

Það er aukaatriði, hve mörg atriði voru tínd til hjá lögboðinni úrskurðarnefnd um að ógilda starfsleyfi sjókvíaeldisins í Patreksfirði og Tálknafirði. Ef það er rétt sem forsætisráðherra sagði á facebook um málið, að "annmarkar voru á leyfinu sem kalli á fagleg vinnubrögð", þá nægði það. 

Í spjalli á Hringbraut í gærkvöldi sagði Kristinn H. Gunnarsson að stefnt væri ótrauðlega að því að lax úr eldi í sjókvíum fari fram úr þorskinum sem mest veidda og verðmætasta fisktegund við landið. 2016 var þorskaflinn 264.358 tonn. 

Það rímar við fyrri ummæli þeirra, sem ráða þessari risavöxnu leiftursókn, að tífalda verði sjókvíaeldið á sem fæstum árum. Og ef eitthvað skortir á að farið sé að lögum, sýna atburðir síðustu daga, að sett verða þau lög sem duga til þess að hægt sé að fara fram hjá þeim úrskurðum sem geti tafið fyrir stórsókninni hröðu. 

Kristinn sagði líka að náttúruverndarfólk hamaðist í baráttu sinni eingöngu gegn landsbyggðarfólki en aðhefðist ekkert í náttúruverndarmálum á höfuðborgarsvæðinu og nefndi sérstaklega hraunin hér syðra sem dæmi um skeytingarleysið í þeim efnum og velþóknun náttúruverndarfólks á umhverfisspjöllum á höfðuborgarsvæðinu. 

Það þýðir að hann afneitar þeirri staðreynd að í eina skiptið, sem fjöldahandtökur hafa farið fram á íslensku náttúruverndarfólki, alls 25 manns á einu bretti, og það fyrir aðeins réttum fimm árum, var það vegna framkvæmda í Gálgahrauni, sem flestir ættu að vita hvar er. 

Voru mótmælin þar vegna þess, sem lýst var með þeim orðum um mig í grein í Bæjarins besta í vetur: "Hann hefur um langan aldur barist með öllum tiltækum ráðum gegn mannlífi og framförum á Vestfjörðum"?

Í spjallþættinum á Hringbraut bætti Kristinn um betur og sagði mannlífsofsóknir náttúruverndarfólks vera gegn allri landsbyggðinni á sama tíma og þetta niðurrifsfólk liti framkvæmdir í hraunum við höfuðborgina velþóknunaraugum. 

 


mbl.is Björt fer með rangt mál
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 11. október 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband