Eitt af helstu boðorðum "vélhjólaöryggis" stundum erfitt í framkvæmd.

Eitt af fimm "boðorðum vélhjólamennsku" sem áður hefur verið fjallað um hér á síðunni, og á að geta gert tíðni alvarlegra slysa eða banaslysa svipaða á hjólum og á bílum,  er nokkurn veginn þetta:

"Gerðu ráð fyrir því að þú og hjólið séu ósýnleg öllum öðrum í umferðinni."

Í því felst næstum takmarkalaus tortryggni og aðgát, - að stanslaust verði maður á vélhjóli að vera viðbúinn því að einhver í umferðinni sjái hann ekki, og að hver vélhjólamaður verði þar með að vera viðbúinn því að vegfarendur geti tekið upp á nokkurn veginn hverju sem er, svo sem að taka skyndilega u-beygju yfir heila línu á 90 km vegi án þess að gefa stefnuljós.

Eða að taka skyndilega snögga beygju án stefnuljósagjafar þvert yfir tvær akreinar í veg fyrir vélhjól.

Þetta eru tvö dæmi af mörgum, sem nefna má, og í hinu fyrra var lögreglumaður á vélhjóli slasaður alvarlega.

Það getur verið snúið fyrir vélhjólamann að sjá fyrir óvæntar uppákomur, eins og að stöðvunarskylda sé ekki virt til fulls, þegar um er að ræða jafnan hraða farartækjanna sem eru í forgangi, en sá hraði er of mikill til að bregðast við fyrirvaralausum brotum annarra ökumanna. 

Það, að hægja á sér í stað þess að stansa alveg þar sem er stöðvunarskylda, býður ákveðinni hættu heim, því að alger stöðvun er ekki aðeins hugsuð sem forsenda þess að nægt næði gefist til að sjá sem best forgangsumferðina, heldur einnig til þess að fólkið í forgangsumferðinni geti treyst því að forgangur þess sé virtur. 

Í þriggja ára reynslu síðuhafa í umferðinni ýmist á rafreiðhjóli eða léttu "vespu"vélhjóli varpaði slæmt slys sem ég lenti í, ljósi á ofangreint vandamál, varðandi það þegar óvissa skapast þar sem stöðva þarf ökutæki til að virða forgang umferðar, sem er þvert á. 

Oft er eins og að ökumenn í víkjandi umferð tregðist við að hægja nógu mikið á sér og stöðva farartæki sitt, heldur skapi nægan þrýsting til að fæla gangandi eða hjólandi frá því að fara yfir akbrautina á gangbraut, oft á móti grænu ljósi. 

Í mínu tilfelli kom ég á rafreiðhjóli að gangbraut með grænu ljósi, sem liggur þvert yfir a beygjuakrein Grensásvegar inn á Miklubraut. Inn á aðreinina komu bílar og mátti ætla þegar fremsti bíll hægði ásér, að hann ætlaði að hleypa mér yfir, en við það að ökumaðurinn leit snöggt til vinstri og sá að hann ætti séns á að komast inn í umferðina á Miklubrautinni með því að gefa í og hraða sér, gerðist tvennt þegar hann gaf í, - hann sá mig ekki vegna þess að í upptakinu á bíl hans í beygjunni lenti lág kvöldsólin beint framan í andlitið á honum og hann ók því aftarlega af afli aftan á hjól mitt, svo aftarlega, að ég sá hann aldrei. 

Þetta gerðist auðvitað óvart, en eftir þetta atvik treysti ég ekki bílstjórum, sem pressa á gangbrautarumferð, eða koma að á mikilli eða rykkjóttri ferð að henni. 

Einn og einn virðist vera þeirrar skoðunar sem var sett fram í grein í blaði um daginn, að reiðhjólafólk sé skyldugt til að fara af baki og leiða hjólin á gangbrautum við gatnamót, og að bílstjórar eigi ekki að líða annað. 

Þetta er alrangt, þess er hvergi krafist í umferðarlögum að fara eigi af baki reiðhjólum, heldur aðeins að fara á gönguhraða. 

En meðan svona umræða er í gangi er vissara að fara að öllu með gát. 

Og alhæfingar eru varasamar. Því miður er misbrestur í umferðinni hér á landi það algengur, að þar þurfum við öll, sem erum á ferð, gangandi, hjólandi og akandi, að taka okkur á. 

 

 

 

 

 


mbl.is Banaslys vegna vanvirtrar stöðvunarskyldu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lögmálið Murphys er grimmilegt.

Þrátt fyrir sívaxandi og fullkomnari tækni sem ætlað er að stefna að algeru öryggi og fullkomnun á öllum sviðum, kemur sífellt í ljós að lögmál, sem kennt er við Murphy, er sígilt. 

Það hljómar nokkurn veginn þannig að eitthvað geti farið úrskeiðis á einhverju sviði, muni það gerast fyrr eða síðar.

Síðan hefur verið snúið út úr þessu og sagt að það sem aldrei hafi gerst geti alltaf gerst aftur. 

Eitt hið óhugnanlegasta við lögmál Murphys er það, að hættulegustu mistökin séu þau, sem eru svo einföld, að jafnvel fimm ára börn geri þaau varla, svo sem að ruglast á hægri eða vinstri. 

Slík mistök séu hættulegust, af því að þeir, sem þau geri, trúi því einfaldlega ekki að þeir séu að gera svona arfa slæm mistök. 

Atvikið í San Francisco sem greint er frá í tengdri frétt, sýnir, hve langt misskilningur getur gengið. 

Síðuhafi hefur tvívegis upplifað það að sitja hlið flugstjóra í blindflugi, þar sem annar þeirra ruglaðist um 100 gráður í flugstefnum, sem flugumferðarstjórinn gaf honum upp, en hinn beygði alltaf til vinstri þegar honum var sagt að beygja til hægri, í fyrstu 5 gráður í hvert sinn.  

Þetta síðara olli því að smám saman var sá flugstjóri sem þá átti í hlut, beðinn að beygja æ meira til hægri í hvert sinn þangað til hann stefndi inn í Esjuna í lokin! 

Í bæði skiptin var hægt að sjá niður af og til í gegnum skýin, þannig að ég gat fylgst með ferlinu þótt flugmennirnir væru uppteknir við að horfa á mælana, og fylgdist með því að báðar þessar flugvélar stefndu inn í fjall á hinum ranga ferli.

Var forvitinn um það hve lengi svona misskilningur gæti haldist. 

Í báðum tilfellum beið ég með að gera athugasemd við flugstjórana á meðan hægt var að leiðrétta mistökin í tíma, og í bæði skiptin brá þeim svo mikið að þeir voru næstum búnir að hvolfa vélunum í snöggri hægri beygju.  

Í síðara tilfellinu var flugið yfir Akrafjall á leið til Reykjavíkurflugvallar og þegar flugvélin hafði snúist meira en 90 gráður til vinstri, hrópaði flugumferðarstjórinn: "Hvað er að gerast hjá þér, þú stefnir inn í Esjuna. 

Í hitt skiptið var verið að taka 270 gráðu beygju til hægri yfir vita á Hjalteyri, en þar var flugmönnum tilkynnt um heppilega stefnu, sem þeir ættu að taka. 

Þegar flugumferðarstjórin kallaði að fljúga skyldi í stefnunni 190 gráður, stefndi flugstjórinn í 90 gráður, og við það hækkaði talan hjá flugumferðarstjóranum upp í 200, 210 og 220 gráður, en flugstjórinn hækkaði sínar tölur tölur upp í 100, 110 og 120 gráður.

Báðir flugstjórarnir voru undir álagi. Fyrir norðan var flugstjórinn í fyrsta flugi á nýrri og stærri flugvél en hann hafði áður flogið, og síðara skiptið hafði flugstjórinn ekki flogið blindflug í næstum hálft ár.

Ég minnist þess hvað mér þótti undarlegt að ekki skyldi vera viðhöfð sama aðferð við að nota þessa tvo stefnuvita á sömu flugleiðinni.  

Flugslys í fráflugi frá Reykjavíkurflugvelli má rekja til þess að sá flugstjóri var einhver sá nákvæmansti og kröfuharðasti við sjálfan sig af þeim sem ég hef þekkt.

En hugsanlega varð einstæð fullkomnunarárátta honum að falli. Þegar hann var að klifra í norður frá Reykjavíkurflugvelli og var kominn í um 1100 feta hæð, fór miðstöðin í vélinni að verða full heit, svo að hann þreifaði eftir tökkunum, sem stilltu hitann, og voru rétt við takkana sem opnuðu og lokuðu fyrir bensínið. 

Hann villtist á tökkunum og skrúfaði óvart fyrir bensínið á báðum hreyflum, svo að það drapst á þeim samtímis. 

Tíminn var naumur, og þurfti að gera margt rétt, tilkynna um ástandið, snúa við og huga að ástæðu aflleysisins.  Meðal þess, sem þurfti að gera strax, var að tékka, hvort báðir hreyflar fengju eldsneyti, að rafmagn væri á kveikjunum, blöndustillir á ríkri blöndu, og bensíngjöf á báðum hreyflum.

Meðan verið var að þessu er ólíklegt að flugstjórinn fullkomni hafi getað ímyndað sér að hann sjálfur hefði drepið samtímis á báðum hreyflunum. 

Sem reyndist hins vegar vera hinn bitri sannleikur, og reyndar yfirgnæfandi líkur á því, af því að á tveggja hreyfla vél eru líkurnar svo sáralitlar á því að samtímis stoppi á báðum hreyflum. 

Eðlilega vildi hann nauðlenda vélinni klakklaust og setti því hjólin niður, en við það missti vélin of mikla hæð til að ná inn á braut og lenti i sjónum.

Hann hefði hugsanlega átt meiri möguleika á að ná inn til magalendingar inni á ströndinni eða á vellinum ef hann hefði ekki sett hjólin niður.  

Í meginatriðum er að vera ætíð vakandi fyrir þeim ólíkindum sem mistök geta leitt af sér, en með æ flóknari viðfangsefnum er ljóst, að þeim tilfellum, þar sem eitthvað getur bilað, farið úrskeiðis eða þurfi endurbóta við, fer síst fækkandi. 


mbl.is Hefði orðið versta flugslys sögunnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 13. október 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband