Túrbínutrix af öllum stærðum og gerðum út um allt.

Túrbínutrixið frá Laxárdeilunni 1970 hefur æ síðan birst í ótal myndum í smáu og stóru og er lítið lát á því. 

Höfuðatriðið við að láta túrbínutrixin virka er að halda svo hratt áfram með að framkvæma, að verið er á undan eftirlitsaðilum, leyfisveitendum og kærumálum, ef þau koma fram, og þar með að verða á undan úrskurðunum sjálfum.  

Þeim, sem benda á hvað sé á seyði, er síðan kennt um það tjón, sem muni verða við að hætta við framkvæmdina.

Túrbínutrixin geta verið tiltölulega smá, eins og ein viðbótarhæð eða stækkun á hóteli, en líka orðið risastór og oft miklu stærri en gefið var upp í byrjun.

Sem dæmi má nefna álverið í Helguvík, en framkvæmdir við það hófust um svipað leyti og Hrunið dundi yfir. Nýliðið er tíu ára afmæli þess að einir sex ef ekki átta helstu ráðamenn á síðustu metrum ríkisstjórnar Geirs Haarde stungu skóflustungur í Helguvík og byrjað var að reisa kerskálann. 

Látið var í veðri vaka að stærðin yrði 120 þúsund tonn, þótt ári síðar kæmi í ljós, að í raun yrði ómögulegt að hafa álverið minna en 360 þúsund tonn. 

Það þýddi tugi virkjana í minnst 15 sveitarfélögum allt frá Reykjanesi austur á miðhálendið og að Skeiðarársandi, - sem að öllu leyti átti eftir að skipuleggja og semja um. 

Þar var um að ræða net virkjana með tilheyrandi risaháspennulínum, virkjanavegum, borholum, gufuleiðslum, skiljuhúsum og stöðvarhúsum, stíflum, miðlunarlónum o. s. frv. 

 

 


mbl.is Aldrei verið sótt um leyfi fyrir stækkun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svikalogn eða upphaf "sögulegrar samvinnu"?

Í gegnum tíðina hefur oft verið erfitt að sjá í upphafi stjórnarsamstarfs, hve langlíf og farsæl hver ríkisstjórn gæti orðið. 

Í sumum, eins og Nýsköpunarstjórninni 1944, og stjórninni núna hafa flokkar yst frá hægri og vinstri hafið stjórnarsamstarf og í bæði skiptin virst ganga merkilega vel að fá alla til að ganga í takt af heilindum við að leysa mikilsverð mál þannig að það, sem helst náist samstaða um, sé látið hafa forgang, en deilumál sett í "samtal" eða siglt framhjá þeim. 

Í samanburði við fyrri hamagang í átökum flokkanna virtist allt detta í dúnalogn síðla árs 1944 og 2017. 

Hjá núverandi stjórn virðast loftslagsmálin ætla að verða í fyrri flokknum, en í öðrum málum, eins og varðandi NATO, er ekki blásið til neinna breytinga, en þó liðið málfrelsi og athafnafrelsi hópa óánægðra yst til hægri og vinstri. 

Síðan eru stór mál, sem liggja að mestu í láginni, en gætu verið eins og falinn neisti undir eldfimu efni. 

Samvinna flokkanna í Nýsköpunarstjórninni gekk vel fram eftir árinu 1946 og það hjálpaði til að Sovétmenn og Bandaríkjamenn höfðu verið bandamenn í heimsstyrjöld. 

En þegar leið á árið dró tvær blikur á loft, og kom önnur þeirra mörgum á óvart, af því að hún virtist ekki fyrirsjáanleg á þeim tíma. 

Fyrirsjáanlegt var að vísu, að gjaldeyrisforði Íslands myndi ganga til þurrðar vegna mikillar eýðslu í uppbyggingu "innviða" og framleiðslutækja, svo sem skipaflotans og frystihúsanna og í ofanálag skall yfir mikill samdráttur og lækkun útflutningsafurða, sem hafði mikil áhrif hér á landi. 

En það kom aldrei til þess að ríkisstjórnin lenti í vanda út af þessu. 

Nei, að miklu leyti á óvart, kom fram annað, sem felldi ríkisstjórnina; - Kalda stríðið, og ólíkar skoðanir á því að verða við óskum Bandaríkjamanna um aðstöðu fyrir herflutninga um Keflavíkurflugvöll. 

Þetta tvennt er nefnt nú, vegna þess, að enda þótt litlar líkur séu á því að ágreiningur um utanríkismál verði að sprengiefni í stjórnarsamstarfinu, getur ágreiningur í umhverfismálum og og ekki síður tímasprengjan, sem liggur undir í komandi kjaradeilum, vanræksla stjórnmálaelítunnar og launahæsta fólksins við að hagga neitt við afleiðingunum af launahækkunum hinna hæst launuðu. 

 


mbl.is Unnur fulltrúi stjórnvalda í loftslagsmálum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dýr verður bragginn allur ef svo skyldi hvert strá.

Stóra braggamálið er orðið jafn stórt og raun ber vitni, af því að um það gildir að vissu leyti svonefnt smámunalögmál Parkinsons.

Það lögmál felur í stuttu máli í sér, að þau mál geti orðið stærst sem eru nógu einföld að allir geti skilið þa og haft á þeim skoðun. 

Parkinson tók sem dæmi stjórn kjarnorkuvers, sem þarf að hundraða milljarða króna innkaup á flóknum búnaði, sem enginn stjórnarmanna hefur vit á, en á stjórnarfundinum um málið fara allar umræðurnar í að rífast um liti og innréttingu í nýrri en titölulega smárri byggingu. 

Allir hafa vit eða skoðun á því.  

Það er oft mjög erfitt að henda reiður á stórum og flóknum málum. Á sínum tíma voru bygging Perlunnar og ráðhússins í Reykjavík það stórar, dýrar og margslungnar framkvæmdir, að enda þótt framúrkeyrslan þá næmi margföldum upphæðum braggans fræga nú, var erfitt fyrir meðaljóninn að festa hendur á henni. 

Meirihluti kjósenda var auk þess fylgjandi þessum glæsilegu framkvæmdum og erfitt væri að hugsa sér Reykjavík án þeirra. 

Davíð Oddsson stóð á hátindi getu sinnar sem stjórnmálamanns og andstaðan var sundruð.

Allir hafa vit eða skoðun á því nú, að eytt var meira en milljón króna í að setja upp nokkur strá við braggann og farið alla leið til Danmerkur til að kaupa þau í stað þess að sækja þau bara suður að Hvaleyrarvatni við Hafnarfjörð. 

Þar að auki vindur braggamálið óbeint upp á sig með annarri stórfelldri framúrkeyrslu sem belgir upphæð framúrkeyrslunnar samtals upp í 800 milljónir króna. 

Braggamálið og allt framúrkeyrslumálið er merkilegt fyrir þá sök, að samkvæmt skoðanakönnun heldur meirihlutinn í Reykjavík velli.

Það er áhyggjuefni fyrir bæði Dag B. Eggertsson og Eyþór Arnalds.  

Áhyggjuefnið snertir auðvitað Dag B. Eggertsson og þar með Samfylkinguna, - að það skuli vera fylgisaukning hinna flokkanna í meirihlutanum sem viðheldur meirihlutafylginu þrátt fyrir mikla minnkun fylgis Samfylkingarinnar. 

En það er ekki síður áhyggjuefni fyrir Eyþór Arnalds ef núverandi meirihluta verður ekki haggað. 

 


mbl.is Samfylkingin missir fylgi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 16. október 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband