Óþekktir misyndismenn áttu leið framhjá. Kanntu annan?

Hvarf Jamal Khesoggis verður æ sérkennilegra eftir því sem málinu vindur fram, og er orðið einskonar arabískt Skripal-mál með hinum furðulegustu tilviljunum og útskýringu. 

Sádarnir hafa verið í sérstæku dálæti hjá ráðamönnum í Washington og Trump reyndi að draga úr óþægindunum, sem krónprins Sádanna varð fyrir, með því að taka undir þá kenningu, að óþekktir misyndismenn hefðu átt leið framhjá meintum morðstað og verið manna líklegastir til þess að drepa Khashoggi. 

Með ólíkindum er ef tveir harðdrægir valdamenn, Pútín og krónprins Sáda, hafa komið fram með jafn lélegar skýringar á svipuðu klúðri með stuttu millibili. 

Maður hélt að jafn voldugir menn "kynnu betur til verka" við svona aðstæður. 

Hér í gamla daga átti ég einn sérkennilegan vin, mikinn sérvitring, sem á tímabili hringdi daglega í nokkra menn, þeirra á meðal mig, til þess eins að tala við þá í síma. 

Þetta gat verið pirrandi þegar allt var á útopnu í fréttunumm, en ég hafði lúmskt gaman af þessu og skellti aldrei á hann. 

Það var eins og hann fyndi það á sér sjálfur að þessar daglegu símhringingar væru kannski ekki alveg í lagi, því að í hvert sinn sem hann hringdi, byrjaði hann á því að segja: 

"Fyrirgefðu, að ég hringdi, en ég átti leið fram hjá símanum." 

Nú velta voldugir þjóðarleiðtogar því upp, hvort misyndismenn hafi fyrir hreina tilviljun átt leið framhjá meintum morðstað. 

Og gamalkunnugt svar kemur í hugann, en fer þó ekki lengra: Kanntu annan?


mbl.is Böndin sögð berast að krónprinsinum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Einu sinni voru Eysteinn Jónsson og Birgir Kjaran duglegir.

Aldrei voru fleiri staðir settir á náttúruminjaskrá en þegar Eysteinn Jónsson, formaður Framsóknarflokksins, var formaður Náttúruverndarráðs. 

Og Birgir Kjaran alþingismaður, einn af helstu áhrifamönnum Sjálfstæðisflokksins, var einnig fremstur í flokki náttúruverndarmanna á sinni tíð. 

Síðan tóku við áratugirnir þegar þessir tveir flokkar urðu harðdrægustu stóriðjuflokkar landsins og friðlýsingarnar drógust aftur úr, af því að stóriðjan fékk þann forgang, að hún svelgir nú meira en 80 prósent af allri orku, sem framleidd er í landinu á sama tíma sem kveinað er hástöfum um skort á raforku fyrir íslenski heimili og fyrirtæki. 

Vonandi er nú loksins að verða breyting á varðandi það að hrinda friðlýsingum í framkvæmd, samanber orð, sem Sigurður Ingi Jóhannsson lét falla á Byggðaráðstefnunni 2018 í Stykkishólmi í gær. 

Önnur afmörkuð orð hans í ávarpi hans mátti að vísu túlka á annan veg, en það er vonandi farið að rofa til í friðlýsingarefnum. 


mbl.is Allt of hægt gengið að friðlýsa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 17. október 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband