Hvenær koma hljóðlátar sláttuvélar?

Það er afar misjafnt að hve miklu leyti hávaði utan frá angrar íbúa í fjölbýlishúsum. Í sumum íbúðablokkum býr fleira gamalt fólk en í öðrum og sumt af þessu fólki þarf næði einhvern tíma yfir daginn. 

Gömul garðsláttuvél á fullu inni á milli blokka getur verið afar hávær fyrir íbúana, stundum aflokuð á milli þriggja blokkarálma, og ef vélin er tvígengisvél mengar hún miklu meira og er háværari en fjórgengisvél, að ekki sé nú talað um ef sláttuvélin væri rafknúin. 

Þess vegna er gaman að velta því fyrir sér, hvenær rafknúnar sláttuvélar leysa þær háværu og stundum mengandi sláttuvélar af hólmi sem hafa hingað til verið notaðar. 


mbl.is Hreinsar göturnar hljóðlaust
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað um "ástands" stúlkurnar íslensku?

Allar þjóðir, líka Norðurlandaþjóðirnar, búa við það, að óþægileg mál úr sögu þeirra eru blettir á heiðri þeirra. 

Á ljóma Víkingaaldarinnar falla margir ljótir blettir af hreinni villimennsku, allt frá grimmdar- og glæpaverkum víkinganna í Lindesfarne. 

Á ferð minni til rússneska bæjarins Demyansk 2006 sagði sjötug kona mér frá villimennsku finnskra hermanna í alþjóðlegu innrásarliði í herförinni Barbarossa, og varð það mér mikið umhugsunarefni. 

Þekkt er sú grimmd sem þýskir hermenn í innrásarliðinu voru hvattir til að beita frá æðstu stöðum, og því dapurlegt að heyra, að Finnarnir hefðu verið margir hverjir miklu verri, og skelfilegt, hvernig hefndarhugurinn vegna grimmdar Rússa í innrás þeirra í Finnland tveimur árum fyrr gat fyllt hermenn einnar af Norðurlandaþjóðunum svo hræðilegri heift.  

Meðferð Dana á "þýsku börnunum", börnum sem danskar konur áttu með þýskum hermönnum, var hræðileg og ótrúlegt þegar upplýst var um slíkt atferli hjá frændþjóð okkar. 

Nú hafa norsk stjórnvöld beðist afsökunar á skammarlegri meðferð sem norskar konur urðu fyrir í hefndarskyni fyrir sambönd þeirra við þýska hermenn á meðan á hernámi Þjóðverja stóð í Seinni heimsstyrjöldinni. 

Hernám Íslands, sem hófst aðeins mánuði á eftir hernámi Noregs, stóð álíka lengi, og hér á landi urðu íslenskar konur fyrir svipaðri skammarlegri meðferð og nú hefur verið beðist afsökunar á í Noregi og ekki seinna vænna áður en allar þessar konur eru komnar undir græna torfu. 

Það vekur spurningu um það, hvernig hinum íslensku "ástands"málum sé háttað. 

Okkar forsætisráðherra, Katrín Jakobsdóttir, baðst nýlega afsökunar á þeirri meðferð, sem sakborningar í Guðmundar- og Geirfinnsmálum hafa mátt þola. 

Er kannski kominn tími á "stúlkurnar á Kleppjárnsreykjum" og aðrar íslenskar konur, sem komið var skammarlega fram við vegna sambanda þeirra við erlenda hermenn, verði beðnar afsökunar á sama hátt, áður en það er orðið of seint?

Afsökunarbeiðni hefur raunar líka gildi fyrir afkomendur og ættmenni þeirra, sem hafa mátt búa við það, að hlutur þeirra, sem brotið var gegn, hafi ekki verið réttur. 


mbl.is „Þýsku stúlkurnar“ beðnar afsökunar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvílík eldflaug upp á íþróttahimininn!

Hver konan á fætur annarri skýst þessi misserin svo snögglega og hátt upp á íþróttahimininn hjá okkur, að þær verða á allra vörum aðeins örfáum dögum eftir að fólk vissi almennt ekki að þær væru til. 

Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir er einstaklega mikið hlauparaefni aðeins sextán ára gömul en vegna æsku sinnar getur hún auðvitað þurft langan tíma og þurft að hafa mikla þolinmæði til að ná á tindinn. 

Á Ólympíuleikunum 1948 vann Robert Mathias gullið í tugþraut aðeins 17 ára gamall, og var það að vonum ótrúlegt og einstakt afrek. 

Hann varði titilinn síðan 1952 en hætti eftir það, svipað og Örn Clausen gerði líka á aldri, þar sem tugþrautarmenn eiga yfirleitt fimm ár eða fleiri eftir til þess að ná á hátind getu sinnar. 

En auðvitað eru aðrir tímar nú en þá með margfalt meiri breidd og samkeppni, og því engin leið að spá um það með vissu hvernig Guðbjörgu Jónu muni farnast. 

Afrek hennar snertir mig talsvert, því að á sínum tíma auðnaðist mér að þefa örlítið af velgengni á þessu sviði á Drengjameistaramóti Íslands 1958 í 100, 200 og 4x100 metra hlaupum, en slasaðist illa á ökkla skömmu síðar, fór á fullt í skemmtikrafta-, tónlistar- og leikhúsbransann og í það fór allur tíminn næstu ár. 

Ekki skemmir fyrir ánægju minni að þetta unga stórstirni skuli keppa fyrir ÍR, mitt gamla frjálsíþróttafélag og sú skemmtilega tilviljunm, að tíminn skuli vera sá sami hjá henni og ég fékk skástan í 200 metrunum. 

Það sýnir vel hve gríðarlegar framfarir hafa orðið á öllum sviðum í íþróttum, - tækni, skóm, brautum, mataræði, þjálfun o.s.frv. 

En þetta var svo gaman, þann stutta tíma sem það stóð, - lokametrarnir í boðhlaupinu urðu eitt eftirminnilegasta augnablik ævinnar, - og mikið innilega óska ég Guðbjörgu Jónu til hamingju og bið þess að hún njóti þeirra stunda sem best þegar vel gengur. 


mbl.is Hún getur farið eins langt og hún vill
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 18. október 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband