Ekki fylgst með þróun hjólbarða?

Þeir, sem ábyrgð bera á ástandi stíga, gatna og vega, virðast oft vera sofandi fyrir því hvernig hjólbarðar hafa þróast síðustu árin. 

Margir virðast halda, að sístækkandi felgur, til dæmis á jepplingum, geri þá bíla betri á torfærum slóðum og vegum, en gæta ekki að því, að felgustærðin segir ekkert um það hve hátt er frá yfirborðinu upp í felguna. 

Dekk af stærðinni 195/80 x 15, þar sem 195/80 er breidd dekksins í mm og /80 er hlutfall breiddar og hæðar dekksins, og 15 tákna ummál felgu, þetta dekk er til dæmis með hærra frá jörðu upp í felgu heldur en dekk af stærðinni 275/45 - 21. 

Ástæðan er sú að hæð dekksins er 156 mm á 15 tommu dekkinu, en aðeins 124 mm á 21 tommu dekkinu. 

Og til eru bílar með dekk af stærðinni 185/40 - 16, sem þýðir að hæðin á dekkinu frá vegi upp í felgu er aðeins 74 millimetrar, og þegar tekið er tillit til bælingar dekksins o.fl. verður raunveruleg hæð aðeins rétt rúmir 50 mm, sem er aðeins tvær tommur. 

Aðeins tveggja tommu há skörp brún heggur því svona dekk auðveldlega í sundur ef ekið er á fullri ferð á hana. 

Snemmsumars var verið að fræsa nokkrar götur á hjólaleið minni, og skildu verktakar eftir sig hvassar brúnir án þess að aðvara á nokkurn hátt eins og þó er stundum gert þegar um er að ræða bíla. 

Fjöldi hjólreiðafólks sprengdi dekkin á þessum ómerktu brúnum og var ég á meðal þessara hjólreiðamanna, sem þessi óvænta hindrun kom í opna skjöldu. 

Svo hvassar voru þessar brúnir, að það varð að stöðva hjólin helst alveg og læðast upp á þær, einkum á hjólum með mjög þunnum dekkjum. 


mbl.is Átta hjólbarðar sprungu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Einn af kostum krónunnar; tafarlaus kjaraskerðing?

Það gildir svipað um krónuna okkar og breytingar í veðrinu, að það sem einum finnst hagfellt, þykir öðrum verra. 

Þegar efnahagshrunið dundi yfir 2008 var auðveldara fyrir Íslendinga að skella á tafarlausri kjaraskerðingu almennings til að láta hann taka á sig óhjákvæmlegt tap í gegnum gengisfellingu, krónunnar, snarhækkað verð á innfluttum vörum og stórhækkaða vexti, heldur en hjá þjóðum, sem voru bundnar við evruna og gátu því ekki notað jafn svínvirkandi meðal og sveifla minnsta gjaldmiðil heims er. 

Nú virkar gengisfellingin þannig að sumir hagnast en aðrir ekki.

Ferðaþjónustan og útflutningsfyrirtæki hagnast á því  að verða samkeppnisfærari á erlendum markaði, en launafólk tapar á hækkuðu vöruverði og sér fram á hækkun afborgana af lánum og rýrnun kaupmáttar, sem aftur fyllir marga svartsýni vegna aukinnar hörku og óvissu í komandi kjarasamnningum.

Já, svona er Ísland í dag, myndi Jón Ársæll líklega orða það.   


mbl.is Icelandair taldi gengið ósjálfbært
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Einu sinni gengu mormónar 3000 kílómetra yfir Klettafjöllin.

Eftirminnilegasta stund sem ég hef átt á Íslendingaslóðum í Ameríku, var að standa við gröf íslenskrar konu í kirkjugarði í bænum Spanish fork suður af Salt Lake City, sem var með gylltan skjöld á leiði sínu, þar sem á stóð: "Trúfesti í hverju spori." 

Það þýddi að þessi íslenska kona hafði notað fætur sína eingöngu til þess að komast yfir slétturnar og Klettafjöllin, 3000 kílómetra gönguleið, til hins fyrirheitna lands, burt frá kulda, fátækt og skorti föðurlands síns, þar sem askan úr Öskjugosinu 1875 hafði eyðilagt hagana og köldustu ár Íslandssögunnar með hafís og ótíð hrakið þúsundir Íslendinga á flótta yfir Atlantshafið og þver Bandaríkin. 

Nú flýr fólk eymd og volæði heimkynna sinna í suðri í átt til sama fyrirheitna landsins og íslenska konan komst til við illan leik. 

Munurinn er hins vegar sá, að jafnvel þótt þessi 65 ára gamla kona frá Honduras komist að landamærum hins þráða lands bíður hennar hindrun, sem ekki var til á tímum landnámsins í Utah;  -  vopnaðar sveitir öflugasta hers veraldar og grimm refsing fyrir "trúfesti í hverju spori."

Já, tímarnir eru breyttir. 


mbl.is Halda ótrauð áfram í von um betra líf
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 19. október 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband