Almennur misbrestur og sleifarlag í umferðinni.

Í umferð á fjölförnum gatnamótum í borginni ríkir lausung, sem eykur stórlega slysahættu. 

Þar leiðir oft eitt af öðru. 

Ekki þarf að dvelja lengi við gatnamót með beygjuljósum til að sjá margar tegundir af slakri hegðun bílstjóra, sem draga oft dilk á eftir sér. 

1. Drulluhalaháttur við að fara af stað á grænu ljósi. Stundum er hann svo alger, að aðeins einn eða tveir bílar komast yfir á grænu ljósi, en það leiðir oft að sér að öftustu bílarnir, sem fara yfir, gera það á eldrauðu ljósi.  

2. Þegar menn drattast svona hálfsofandi yfir, verður oft til röð bíla í aftari hluta beygjuraðarinnar, sem loka fyrir umferðina á götunni sem liggur þvert á, svo sem á Kringlumýrarbraut við gatnamót Háaleitisbrautar, sem annars kæmist yfir á grænu ljósi.

3. Stundum nær algerlega vanrækt að gefa stefnuljós og eru gatnamót Fellsmúla og Grensásvegar gott dæmi um það, þar sem bílar þurfa að bíða í stað þess að komast yfir gatnamótin, vegna þess að enginn, sem ætlar að beygja í umferðinni á móti, nennir að láta vita af því hvað hann ætlast fyrir. 

Þegar umferðin um flókin gatnamót er meira og minna í ólestri vegna slælegrar frammistöðu ökumanna veldur það óþarfa hættu og slysum. 


mbl.is Fór yfir á rauðu ljósi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Í meira en 90% árekstra rekast tveir bílar hvor á annan.

Létt fyrirsögn í tengdri frétt vekur bros: "Tveggja bíla árekstur á gatnamótum."

Óvenjuleg fyrirsögn því að þegar bílar rekast hverjir á aðra, rekst langoftast einn bíll á annan bíl.

Það eru sem sagt tveir bílar, sem lenda í árekstrinum og þessi fjöldi, tveir bílar, er því varla frétt, því að fyrirbærið frétt heitir á nærtækum erlendum málum "nýtt", svo sem "nyhed", "news", og táknar yfirleitt eitthvað sem er nýstárlegt, óvenjulegt eða það mikilsvert, að það snerti marga. 

Það hefur verið sagt til að lýsa eðli frétta, að það sé ekki frétt ef hundur bítur mann, en hins vegar frekar frétt ef maður bítur hund. 

Það liggur við að það, að tala um tveggja bíla árekstur, sé svipað og að segja tvær manneskjur hafi orðið hjón. 

En svo má líka segja, að fyrirsögnin "tveggja bíla árekstur" sé svo óvenjuleg, að hún sé fréttnæm út af fyrir sig og liti hversdaginn.  

P.S.  Nú sést í fréttum síðdegis, að það voru þrír bílar sem lentu þarna í hörðum árekstri, þannig að tveggja bíla fyrirsögnin virðist hafa byggst á röngum upplýsingum eða misskilningi. 

 

 


mbl.is Þriggja bíla árekstur á gatnamótum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vestfirðir áfram lengra og lengra á eftir í fluginu?

Vestfirðir hafa lengi skorið sig úr öðrum landshlutum varðandi flugsamgöngur. Um þetta hefur ítrekað verið fjallað á þessari bloggsíðu. 

Segja má að fjórðungurinn dragist alltaf lengra og lengra aftur úr, því að í grundvallaratriðum hefur ástandið ekkert skánað í meira en 50 ár, eða síðan Ísafjarðarflugvöllur var tekinn í notkun. 

Allir aðrir landshlutar voru þá búnir að fá flugvelli, sem hægt var að lenda á allan sólarhringinn og þar með orðið fullgildir flugvellir allan ársins hrings og fyrir flug bæði innanlands sem utan. 

Á kosningafundi á Vestfjörðum 2007 vakti það hlátur fundarmanna sem alger fjarstæða þegar bent var á, að með heilsárs landsamgöngum milli norðanverðra og sunnanverðra Vestfjarða gætu opnast möguleikar fyrir stórum flugvelli á Barðaströnd, sem væri fær allan sólarhringinn allt árið um kring og að þaðan yrði aðeins rúmlega klukkustundar akstur til Ísafjarðar. 

Þó er vitað, að í slæmum hríðarverðum í norðanátt er Bíldudalsflugvöllur oft eini flugvöllurinn á norðanverðu landinu sem er opinn. 

Sömuleiðis benti Egill heitinn Ólafsson á það, að Patreksfjarðarflugvöllur væri ekki einasta eini flugvöllurinn á Vestfjörðum, sem gæti haft almennilegt blindaðflugskerfi, heldur gæti þverbraut í Sauðlauksdal haft sömu eiginleika og Bíldudalsflugvöllur í norðlægum vindáttum. 

Bæði við Brjánslæk og Haga á Barðaströnd er rými fyrir almennilega flugvelli, sem hefðu þennan kost, en auk þess væri mun styttra þaðan til Ísafjarðar en frá Patreksfirði. 

Ofangreind hugmynd 2007 var byggð á 40 ára reynslu af flugi allan ársins hring fyrir vestan, en var hlegin út af borðinu í beinni útsendingu í sjónvarpi. 

Að minnsta kosti hefur málið haldið áfram að vera steindautt. 

Í gegnum tíðina hafa komið fram hugmyndir um heilsdagsflugvelli við Sveinseyri í Dýrafirði og við Hnífsdal. 

Slíkar flugbrautir hefðu þann kost að vera svo stutt frá Ísafirði, að þær væru í raun hluti af brautarkerfi Ísafjarðarflugvallar. 

Nú, þegar Guðjón S. Brjánsson vill velta þessum málum upp, hefur íbúum Vestfjarða fækkað úr því að vera 7 prósent landsmanna fyrir hálfri öld niður í 2 prósent og þar með aukast erfiðleikar við að benda á þá skammarlegu staðreynd, að flugsamgöngur við Vestfirði eru því miður nokkurs konar fornaldarfyrirbrigði í aðstöðu til nútíma flugs hér á landi. 

P. S. Það getur ekki kostað mikla peninga að lengja norðausturenda brautarinnar á Ísafirði um 150 metra. Hér á síðunni hefur áður verið rakið hvernig þessi litla lenging gæti skipt sköpum við aðflug og fráflug á vellinum við ákveðnar aðstæður, við flugtak inn fjörðinn og í lendingarbruni og flugtaki út fjörðinn. 

 

 


mbl.is Sparaði sér 226.000 kílómetra akstur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 2. október 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband