Einu sinni sogaðist flugstjórinn út.

Já, rúða í flugstjórnarklefa er ekki eins og rúða í stofuglugganum. Það er ekki að ástæðulausu sem flugstjórnarklefarúðurnar eru með mörgum lögum, því að ef þær brotna, getur það haft miklar afleiðingar ef þotan er í mikilli hæð vegna þrýstingsmunarins úti og inni. 

Þetta kom vel ljós í alvarlegu flugatviki í Bretlandi þegar framrúðan á ská fyrir framan flugstjórann losnaði og spýttist út og flugstjórinn sogaðist á eftir henni en festist í glugganum. 

Neyðarástand skapaðist að sjálfsögðu í flugvélinni þar sem gríðarlegt loftsog myndaðist við það að glugginn var án rúðunnar og á tímabili leit út fyrir að engin leið væri að stjórna vélinni. 

Aðstoðarflugstjóranum tókst loks að ná stjórn á vélinni og dýfa henni niður í aðflug, en allan tímann var flugstjórinn fastur í glugganum. 

Hann lifði atvikið af, en það og fleiri flugatvik af þessu tagi sýndi vel hve mikilvægt er að gluggarnir þoli þann mikla þrýsting á þá innan innan frá sem myndast í mikilli flughæð.  

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 


mbl.is Ekki eins og rúða í stofuglugganum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Andinn frá Höfða" víkur fyrir illindum og yfirtroðslu.

Hegðun leiðtoga Bandaríkjamanna og Rússa í alþjóðamálum er eins og blaut tuska framan í okkur Íslendinga, sem létum 1986 þáverandi leiðtogum þessara þjóða í té fundarstað með jákvæðum straumum í Höfða. 

Riftanir, upphlaup, hefndarhugur, refsiaðgerðir, hringlandaháttur og tuddaskapur Bandaríkjaforseta kallast nú á við undirferli, hernaðarbrölt, einræðistilburði, hótanir, hefndarhug og skemmdarverkastarfsemi í net- og tölvuheimum nútímans. 

Sjá nánar næsta bloggpistil á undan þessum. 


mbl.is „Hættulegt skref“ að rifta samkomulaginu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Enn meira GAGA / MAD en nokkru sinni fyrr?

Maður hélt að ástandið í vopnabúnaði risaveldanna í kjarnorkuvopnabúnaði gæti ekki orðið öllu verra en það sem felst í MAD (Mutual Assured Destruction) kenningunni, skammstafað GAGA á íslensku (Gagnkvæm Altryggð Gereyðing Allra). 

Sú kenning hefur líka verið nefnd ógnarjafnvægið og felst í því að Bandaríkin og Rússland verði að vera viðbúin því að geta gereytt hvort öðru (og lífinu á jörðinni) minnst fimm sinnum, en helst oftar. 

GAGA-kenningin er einnig með þá fáránlegu forsendu að hvor aðilinn um sig geti trúað hinum til þess að hefja allsherjar gereyðingarárás og sömu leiðis geta treyst því að hinn aðilinn muni svara með eigin gereyðingarárás!  

Ronald Reagan og þó einkum Mikael Gorbatsjof tókst að hægja aðeins á þessu brjálæði með afvopnunarsamningum, sem grundvallaðir voru í raun á Reykjavíkurfundinum í Höfða. 

Nú eru hins vegar við völd í þessum ríkjum tveir GAGA leiðtogar, sem báðir eru veikir fyrir hefnigirni og stórmennskubrjálæði, þeim tveimur eiginleikum sem hafa leitt mestu hörmungar stríðsátaka í mannkynssöngunni yfir jarðarbúa í formi tveggja heimsstyrjalda. 

Donald Trump hikar ekki við að setja fram þá stefnu að stofna sérstakan geimher Bandaríkjanna til þess að "make America great again" á þann hátt að Kaninn ráði yfir geimnum, hvorki meira né minna. 

Ýmsir hafa bent á það, að Vladimir Putin hafi augljóslega svarið þess dýran eið að ná fram hefndum, þegar Rússland varð fyrir niðurlægingu á níunda áratugnum við fall Sovétríkjanna, gríðarlegri spillingu heima fyrir, hruni þjóðarframleiðslu og sókn NATO og ESB í átt að Rússlandi, þvert ofan í loforð George Bush eldri og utanríkisráðherra hans. 

Þegar svo virtist, sem meira að segja Krímskagi, sem Rússar fórnuðu lífi 54 þúsund hermanna fyrir í Krímstríðinu og milljónum í Seinni heimsstyrjöldinni, kæmist undir ESB, greip Pútín til harkalegra aðgerða og sagði meira að segja, að ef það kostaði notkun kjarnorkuvopna að Krím væri undir rússneskri stjórn, myndi hann ekki útiloka þann möguleika. 

Rússland er ennþá veikt efnahagslega, en getur þó bætt sér það upp með því að nýta sér það að vera risaveldi á sviði kjarnorkuvopna og í sókn Pútíns eftir því að gera Rússland mikilfenglegt á ný sjáum við rússneskan Trump þar lifandi kominn. 

Með því að Trump segi upp afvopnunarsamningum Reagans og Gorbatsjofs er komið ástand, þar sem tveir leiðtogar, hálfsturlaðir af mikilmennskubrjálæði, ætla að leika sér að þeim vítiseldi sem kjarnorkuvopnakapphlaupið GAGA/MAD byggist á.  

 


mbl.is Ætlar að rifta afvopnunarsamningi við Rússa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 21. október 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband