Hrífan hennar Jóhönnu.

Nafna Jóhönnu Sigurðardóttur, sem flutti ávarp á kvennafrídeginum í dag, Jóhanna Lúðvíksdóttir á Guðmundarstöðum í Vopnafirði, hlaut örlög, sem eru lýsandi fyrir það hve lengi eimdi eftir af ömurlegri stöðu kvenna langt fram eftir síðustu öld.Jóhanna Lúðvíksdóttir.

Þetta varð ljóst í heimsókn sjónvarpsmanna á bæinn síðsumars 1975 og að áliðnum vetri 1976 og er varðveitt í þætti, sem tekinn var upp þá, auk stuttrar frásagnar í bókinni "Fólk og firnindi" af íbúunum á bænum, henni og bræðrunum Stefáni og Sighvati Ásbjörnssyni. 

Jóhanna var af fátækum komin og amma Stefáns tók hana í fóstur. 

Hún var falleg, góð og vel gefin stúlka og hefði á okkar tímum átt möguleika á að hljóta ekki þau örlög sem fátækt, skortur og basl skópu oft fólki fyrir einni öld.  Guðmundarstaðir,íbúar 75

Framhaldsmenntun var óhugsandi fyrir hana, allir af hennar stigum urðu að erfiða og sætta sig við strit og langan vinnudag.

Á banabeði fósturmóður hennar lofaði hún velgjörðarkonu sinni að verða við hennar hinstu ósk, að hún annaðist heimilishaldið fyrir bræðurna Stefán og Sighvat Ásbjörnssyni, sem voru einhleypir alla sína tíð.

Stefáni sagðist svo frá:

"Jóhanna tók síðar að sér ellefu börn og kom þeim á legg auk þess sem hún tók til sín börn úr héraðinu og kenndi þeim. Hjá okkur hefur hún verið til að launa ömmu minni fóstrið." 

Vopnafjarðarhreppur styrkti á þessum árum efnilega fátæka unglinga árlega til framhaldsnáms og hafði Stefán orðið fyrir valinu eitt árið. 

En hann bilaðist í M.A. meðal annars í ástarsorg, klúðraði náminu og skammaðist sín svo mikið, að hann lokaði sig, bróður sinn og Jóhönnu í raun inni á Guðmundarstöðum, stöðvaði klukkuna við árið 1910, tók meia að segja upp gamla íslenska ljáinn og hreyfði ekki við neinu á bænum, sem var að hluta til úr torfi. 

Þarna lifðu þau þrjú í rafmagnsleysi án þess að hreyft væri við þúfu í ósléttu og bröttu túninu og heyjuðu upp á gamla mátinn, með því að slá með ljá og orfi, raka með hrífum, binda í bagga og reiða heyið á 23ja ára gamalli og lúinni meri upp í hlöðuna. 

Eina rafmagnið á bænum voru rafhlöður í útvarpstæki og litlu sjónvarpstæki. Í eldhúsinu var ekki einu sinni svo mikið sem uppþvottagrind. 

Merin var svo afkastalítil að þeir settu stóran hluta af heyinu í stæður úti á túni og roguðust með það heim á bakinu smátt og smátt fram á næsta vor. 

Kýrin var við aldur og mjólkaði sáralítið. Það var lifað frá hendinni til munnsins og þeir skulduðu aldrei krónu alla ævi, hvernig sem áraði. 

Jóhanna þurfti að vinna öll húsverkin í hrörlegum bænum án minnstu nútímaþæginda, við sömu kjör og höfðu verið löngu fyrr. Kveikja eld á daufum lömpunum og kveikja upp í kolaeldavélinni og elda og síðan að "fela eldinn", leggja á borð og vaska upp, þrífa og skúra og nota bala til að þvo allan fatnað og rúmfatnað.  

Hún var orðin mjög lúin, bogin og þreytt, hreyfingarnar orðnar hægar og máttlitlar, en sagðist aðspurð enn geta klárað verkin "svona smátot og smátt." 

Sjónin var orðin döpur, svo að hún gat ekki lesið neitt að gagni og átti erfitt með að sauma. Þegar rignir er breitt plast yfir rúmið hennar því að húsið lekur mest þar sem hún sefur. 

Með því að bera saman tvær ljósmyndir af henni á mismunandi aldri sést vel hvernig lífið hafði leikið hana. 

Spurð að því hvort hún færi aldrei neitt af bænum sagðist hún aldrei fara neitt. 

Hún var spurð hvað henni hefði fundist leiðinlegast um ævina. 

"Mér hefur alltaf fundist eldhúsverk heldur leiðinleg" svaraði hún með hægð. 

Jahá, einmitt það sem hafði samt hlutskipti hennar sem ævistarf.

En hvað fannst henni skemmtilegast, úr því að hún fór aldrei neitt af bæ? 

"Mér finnst skemmtilegast að fara út á tún í heyskap í góðu veðri á góðri stundu" svaraði hún.

Þegar við komum á bæinn veturinn eftir og spurðum hana hvort hún hefði ekki tekið sér frí á kvennafrídaginn nokkrum mánuðum fyrr, svaraði hún neitandi. Það var óhugsandi. 

Hún gat ekki komist yfir skyldustörf sín nema "smátt og smátt", þrotin að kröftum. 

Í þessari heimsókn tók ég eftir þvi að upp við horn á torfvegg skammt frá útidyrunum stóð hrífa, sem hafði líka staðið þar sumarið áður. 

Ég spurði Stefán hver ætti þessa hrífu. 

"Jóhanna á þessa hrífu." 

"Af hverju stendur hún þarna, alveg eins og hún stóð í fyrrasumar." 

"Það er af því að Jóhanna á hana og við snertum aldrei neitt, sem Jóhanna á." 

"En af hverju fer Jóhanna þá ekki með hana inn?"

"Af því að hún fer aldrei út úr bænum og hefur ekki notað hrífuna í mörg ár." 

Hringnum lokað. Þannig var komið fyrir henni, að hún komst ekki yfir öll skylduverk sín nema vinna við þau "smátt og smátt" frá morgni til kvölds eftir því sem þrekið leyfði.

Hún hafði ekki í mörg ár haft tök á að gera það sem henni fannst skemmtilegast, "að fara"út á tún í góðu veðri í heyskap á góðri stundu." 

Svona var ævi Jóhönnu Lúðvíksdóttur þar til skammt lifði af liðinni öld.

Nafn hennar, persónan sjálf og örlög hennar, eru eitt af því ógleymanlegasta sem á fjörur mínar hefur rekið. 

Eitthvað, sem hitti svo sterkt í hjartastað og gerir það enn.  

Það er ekki lengra síðan.  


mbl.is Samstöðufundur á Arnarhóli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Til heimabrúks?

Stundum er sagt að yfirlýsingar stjórnmálamanna séu til heimabrúks fyrir þá, ýmist í kjördæmi þeirra eða flokki.  

Nú tíðkast nokkuð yfirlýsingar hjá ráðherrum þriggja stjórnarflokka sem eru á skjön við þá raunverulegu stefnu, sem ríkisstjórnin rekur. 

Forsætisráðherra telur sjálfsagt að flokkssystkin hennar séu með mótmælaaðgerðir gegn NATO, fjármálaráðherra telur skattahækkanir á háar tekjur ekki koma til greina á meðan félagsmálaráðherra segir hið gagnstæða.

Í augum almennings eru hins vegar allir kjörnir fulltrúar þjóðarinnar undir sama hatti sem hluti af elítunni, sem þrátt fyrir stór orð gerir ekkert til að sýna svipað fordæmi og forseti Íslands og slá af þeim stórfelldu kauphækkunum og ekki síst af þeim miklu sporslum utan kjaradóms, sem alþingismenn hafa skammtað sjálfum sér 

Síðustu níu áratugi eða svo hefur enginn einn flokkur getað myndað meirihlutastjórn og smám saman hefur myndast sú hefð að hver ráðherra sé næsta einráður í sínum málaflokki. 

Með því myndast samtrygging sem oft er slæm, því að oft nota ráðherrar þetta til þess að firra sig ábyrgð af ákvörðunum samráðherra sína og fara á móti sínu fram í málfnum síns ráðuneytis. 

Stundum er þetta orðað svona: "Við erum sammála um að vera ósammála."

 

Gildir þá oft erlenda máltækið: "Ég klóra þér á bakinu og þú klórar mér." ("I scratch your back and you scratsch mine") enda er þessu ekki svona varið í flestum nágrannalöndum okkar. 

Í tillögum stjórnlagaráðs er dregið úr þessari samtryggingu og línur gerðar skýrari.

En að sjálfsögðu vill elítan það ekki raun. Annars væru ekki liðin sex ár síðan mikill meirihluti kjósenda vildi í þjóðaratkvæðagreiðslu nýja stjornarskrá í samræmi við stórnarskrá stjórnlagaráðs. 


mbl.is Styður álagningu hátekjuskatts
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Unaðsdraumur Walt Disneys að breytast í martröð.

Walt Disney hreifst svo mjög af plastinu, þegar það kom á markað, að hann lét gera heilan þorpshluta þar sem allir hlutir voru úr plasti. Hann var sannfærður um að þetta yrði eitthver heillavænlegasta uppfinning okkar tíma. 

Enda hefur útbreiðsla plastsins orðið slík, að jarðarbúar flestir opna ekki svo augun á morgnana án þess að sjá eitthvað úr plasti og berja það augum allan daginn. 

Plastið er tískuvara og alltumlykjandi. Tazzari. Farþegarými

Gott dæmi eru 850 milljónir bíla heimsins, þar sem það varð með árunum að keppikefli að hylja alla hluta bílsins að innan með plasti, af því að bert járn væri svo "billegt" í útliti og viðkomu. 

Síðar, eftir að plastið varð svo ódýrt, varð það keppikefli að nota dýrari og flottari efni í stað plastsins, og sjá má dóma bílablaðamanna víða um lönd þar sem þeir setja út á það hve "billegt" útlit þeirra bíla er að innan, þar sem plastið hefur verið notað sem mest vegna þess hve ódýrt það er. 

Sennilega er innrétting flugvéla enn meira allsherjar plast en koltrefjaefni svonefnd ryðja sér líka til rúms í flugvélum og bílum og þá helst í burarvirkjum þessara farartækja.

Ef plast er komið inn í líkama fólks eins og nýleg rannsókn bendir til, er það áreiðanlega hvorki heilsusamlegt né heillavænlegt. 

Agnirnar komast í drykkjarvatn og mat, í það minnsta í hægðirnar,samkvæmt rannsókninni, og ef þær komast inn i blóðrásina er ekkert líffæri líkamans óhult. 

Plastmengaðir mannsheilar gætu þá orðið að veruleika, eða hvað? Vonandi ekki.

Þessi hraða útbreiðsla plastsins er vegna þess hve mikið af því fer á flakk eftir að því er hent eða því týnt. Heilu plasteyjurnar eru orðnar að veruleika víða í höfunum og plastmengaða eyjan á Midway með dauðu fuglunum og dauðir hvalir og fiskar eru bara byrjunin á öðru verra, nema gripið sé til ráða strax.  

Einnota plastflöskurnar á Arctic Circle voru umræðuefni um daginn. Plastpoki,fjölnota (3)

Það er hins vegar hægt að nota ýmsar aðferðir til þess að komast af án þess vera sífellt að kaupa og henda plasti. 

Ég hef í mörg ár notað þrjá hluti sem fjölnotavörur úr plasti, sem gera mér kleyft að hafa jafnan með mér þrennt hvar sem ég fer:

Lítinn margra ára gamlan plastpoka með litla myndavél, litla, gamla plastflösku með vatni, sem ég endurnýja eftir þörfum þar sem ég er á ferð, til dæmis á ráðstefnum og fundum, og aðra litla, gamla plastflösku með sykurlausum koffeindrykk.Plastpoki,fjölnota 

Þegar ég sótti ráðstefnuna Arctic Circle í fyrrahaust, þurfti ég ekkert á einnota plastflöskum hátíðarinnar að halda. 

Ef ég er með aðeins meira meðferðis nota ég svartan taupoka fyrir það, og er raunar með litla, þreytta plastpokann í honum til þess að geta skilið taupokann eftir í bílnum eða hjólinu þar sem litli pokinn er handhægari til að fara inn í hús.  

Best væri að fara alveg yfir í fjölnota tau- eða nógu sterka bréfpoka, og það verður að játast, að maður er orðinn svo samdauna plastnotkuninni að það þarf heldur betur að taka betur til hendinni. 

 


mbl.is Plast orðið hluti af fæðukeðjunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 24. október 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband