Meira en 1,3 milljón mánaðartekjur eru ofurlaun miðað við 0,3 milljónir.

Allir þurfa að neyta matar, hafa húsaskjól og aðrar brýnustu nauðsynjar. 

Margar þúsunir Íslendinga, sem eru á lágmarkslaunum eingöngu eru þannig staddir, að endar nái ekki saman og jafnvel er tekinn skattur af tekjum, sem eru um 0,25 milljónir á mánuði. 

Aðstaða þessa fólks er réttnefnd fátæktargildra því að það getur ekki neitt sér neitt umfram það að skrimta. 

Nú er í gangi umræða þess efnis að meiri tekjur en 1,3 milljónir á mánuði, sem meira en tíu þúsund Íslendingar njóta, eigi alls ekki að nefna ofurlaun. 

En þegar 0 krónur eru til ráðstöfunar umfram það að komast af, er augljóst hve mikið munar um að hafa milljón krónum meira á mánuði.  


mbl.is Gæti orðið erfitt að lenda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Við upptökin skal ána stemma.

Í fornsögunum orðaði ásinn Þór þessa hugsun með orðunum "á skal að ósi stemma." Orðið ós á þar við upphaf vatnsflaums. 

Á okkar dögum er hins vegar afar algengt að reynt sé að gera þetta öfugt, að skipta sér ekki af upptökunum og orsökunum, heldur beina öllum kröftunum að afleiðingunum. 

Dæmi eru til dæmis þau ríkjandi viðhorf í Bandaríkjunum, að alls ekki eigi að takmarka byssueign, heldur þvert á móti að fjölga byssueigendum og stórvirkum vopnum þeirra. 

Augljóst virðist til dæmis að öryggisvörður vopnaður einni byssu hefði ekki átt möguleika á móti árásarmanni með hríðskotabyssu og þrjár aðrar byssur að auki í Pittsburgh, en þessu heldur Donald Trump ákveðið fram. 

Á síðustu misserum hafa samtök nýnasista og svertingahatara fengið að valsa um í vaxandi mæli og fá með því vissa viðurkenningu á sér og stefnumálunum, sem þessi samtök berjast fyrir. 

Þegar einstakir félagar í þessum samtökum geta keypt sér hernaðarvopn að vild er ástæðuna fyrir fjöldamorðum þeirra augljóslega hve auðvelt þeim er gert þetta. 

Það, að hvarvetna sé hægt að mæta þessu með fjölgun þungvopnaðra öryggisvarða og jafnvel öryggissveita er aðeins ávísun á fleiri og stærri manndráp. 

Annað dæmi og stærra umfangs er það, að reyna ekki að minnka bruðl og græðgislega eftirspurn og rányrkju á auðlindum jarðar sem er uppspretta og ástæða enn meiri sóunar og rányrkju, heldur beinist orkan nær öll í það að auka eftirspurnina, bruðlið og sóunina í stað þess að nýta auðlindirnar betur. 


mbl.is Vill taka byssur af fólki fullu af hatri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Meiri ástæða til að hafa áhyggjur af 500 megavatta gufuaflsvirkjun.

Í Krýsuvík er helsta óvirkjaða hverasvæði Reykjanesskagans. Meðal erlendra ferðamanna er stór markhópur fólks, sem kemur í stutta tveggja til þriggja daga ferð til landsins, til dæmis á ráðstefnur, en hefur ekki tíma til að fara Gullna hringinn. 

Með slíkt fólk fer ég stundum leið, sem ég kalla Silfurhringinn. Ómissandi þáttur í slíkri ferð er að stansa í Krýsuvík. 

Mér til fróðleiks gúgglaði ég virkjanaáform í Krýsuvík og sá, mér til mikillar undrunar, að þar sé á blaði hvorki meira né minna en næstum tvöfalt stærri virkjun en á Hellisheiði, hvorki meira né minna en 500 megavött. 

Þetta hefði svosem ekki átt að koma á óvart þegar þess er gætt að í upphafi var talan 28 megavött sett á Reykjanesvirkjun og gert ráð fyrir 50 ára endingartíma. 

Slíkur endingartími er að sjálfsögðu ekkert annað en rányrkja, svipað og 50 ára endingatími olíulindar eða kolanámu. 

En, viti menn, fljótlega var komin fram fimm sinnum stærri virkjun, 150 megavött!  

Á endanum var dregið aðeins úr skammtímagræðginni og farið niður í hundrað, sem augljóslega felur í sér grimma rányrkju. 

Og komið hefur í ljós að svæðið í heild sígur stöðugt, svo að sjór gengur á land í Staðarhverfi fyrir vestan Grindavík og nýjar borholur skila ekki afli. 

Í örvæntingu ætlar HS Orka að tappa af Eldvörpum og stytta með því endingartímann og á sama tíma að fara í Hvalárvirkjun, sem mun senda rafmagn inn á landskerfið og ekki gagnast Vestfirðingum eins og gumað er af heldur verða notað til að bæta upp orkutapið hér fyrir sunnan. 

Örvæntingarfullir menn eru vísir til örþrifaráða, og talan 500 megavött í Krýsuvík sýnir, að þessir menn hafa verið og eru enn gersamlega firrtir. 

En fá gæðastimpil frá Landsvirkjun í flenniauglýsingu í Leifsstöð þar sem því er haldið fram upp í opið geðið á öllum, að öll íslensk orka, "100%" sé endurnýjanleg.  


mbl.is „Ekk­ert sem maður hef­ur áhyggj­ur af“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Assad getur ekki leyft lýðræði.

Það virkar barnalegt að halda að Assad Sýrlandsforseti muni líða það að haldnar verði frjálsar kosningar í landinu.

Hann er af kynþætti, sem er í mjög miklum minnihluta í landinu, og hefur verið staðinn að því að svífast einskis til að halda völdum, til dæmis með því að beita efnavopnum á landa sína líkt og Saddam Hussein gerði í Írak á sínum tíma. 

Saddam Hussein var fulltrúi Súnní-múslima í Írak, sem voru í minnihluta í landinu, en þó ekki í nærri því eins miklum minnihluta og kynþáttur Assads er. 

George Bush eldri lagði ekki í það að halda áfram herför alþjóðaheraflans til Bagdad þegar sigrast hafði verið á her Saddams vegna þess, að ráðgjafar hans ráðlögðu honum frá svo tvísýnu hættuspili. 

Sonur hans hafði því miður ekki vit á að fylgja stefnu föður síns. 


mbl.is Vilja binda enda á átökin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 28. október 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband