Til er fræðigrein sem nefnist líkindareikningur.

Það er rétt hjá samgönguráðherra að enginn veit fyrirfram hvar næst verður banaslys í umferðinni. 

En þessi óvissa út af fyrir sig á hins vegar ekki að ráða því á hvaða vegarkafla á að leggja mesta áherslu. 

Sú var tíðin að sá kafli Reykjanesbrautar, sem lá framhjá Kúagerði, var mesti slysakafli landsins. 

Þegar þessi kafli var tvöfaldaður gerbreyttist ástandið til hins betra. 

Eins og nú, var að sjálfsögðu ekki hægt að sjá það fyrir á hverjum tíma hvar næsta stórslys yrði, en engu að síður töluðu tölur því máli, að með því að nota þær í líkindareikningi, þeirri fræðigrein sem sérstaklega hefur verið þróuð til að taka á svona álitamálum, væri hægt að finna líklegustu leiðina til úrbóta. 

Í grófum dráttum má orða þetta þannig, að fara eigi helst eftir því hvar mest líkindi eru á alvarlegum slysum. 

Í síðasta banaslysinu er það augljóst, að ef búið hefði verið að tvöfalda brautina, gat framúraksturinn, sem olli slysinu, ekki orðið til þess að bíllinn í í framúrakstrinum lenti framan á bíl, sem kom á móti.  


mbl.is Vitum ekki hvar verður næst slys
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Íslensk Olga Korbut?

Þegar Olga Korbut fékk heiminn til að standa á öndinni yfir heljarstökki hennar úr kyrrstöðu á jafnvægisslánni á Ólympíuleikunum 1972, var það ekki aðeins gullið, sem hún vann, sem skráði nafn hennar í sögubækurnar, heldur jafnvel enn frekar það að þaðan í frá myndi þetta atriði, sem enginn hafði framkvæmt áður og engum dottið í hug að væri hægt, verða nefnt hennar nafni. 

Þess vegna er það á við gull þegar Sonja Margrét Ólafsdóttir fær nýja æfingu sína skráða á sitt nafn um aldur og ævi, þótt hún sé aðeins 16 ára, eins og Korbut var 1972. 

Það eru ekki mörg ár síðan enginn hér á landi hefði getað látið sig dreyma um þann árangur sem íslenskt fimleikafólk hefur náð á síðustu árum. 

Til hamingju! 


mbl.is Með stjörnur í augunum í sögubækurnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Outlander PHEV og Pajero eru ósambærilegir sem "jeppar".

Mithsubishi Pajero hefur hvað fjöðrun og undirvagn verið nokkuð sér á parti sem jeppi allt frá því að núverandi gerð kom á markaðinn árið 2006.  

Á meðan Toyota Landcruiser virðist hafa tekið smám saman við stöðu Pajeros fyrr á tíð sem "konungur jeppanna" enda þótt Range Rover og Land Rover Discovery séu bæði dýrari og tæknilega fullkomnari, heldur Landcruiser sig fast við heilan öxul að aftan. 

En síðan 2006 hefur Pajaero hefur verið með vel heppnaða sjálfstæða fjöðrun á öllum hjólum  án þess að það bitnaði á veghæð eða torfærugetu. 

Og tiltölulega auðvelt að hækka hann smávegis upp á þessari fjöðrun sem er með engan "kúludrátt" eins og jeppamenn kalla það fyrirbæri, þegar drifkúlurnar lenda ofan í snjónun og skapa mótstöðu.  

Því er sjónarsviptir að þessum jeppa og í bili virðist enginn ætla að koma í staðinn hjá Mitsubishi því að Outlander PHEV tengiltvinnbílinn er varla hægt að kalla "jeppa" þótt fjórhjóladrifinn sé. 

Því veldur takmörkuð veghæð eins og glöggt má sjá ásýndar á þessum bílum þegar fjöðrunin fer að bælast við notkun eða fólk og farangur er í þeim, en þó fyrst og fremst hvað undirvagninn er viðkvæmur fyrir því ef bíllinn tekur niðri í torleiði eða eitthvað rekst upp undir hann. 

Frést hefur af tveimur óhöppum hvað þetta snertir, sem kostuðu hátt í tvær milljónir króna hvort vegna skemmda á rafgeymum og rafkerfi. 

Að því sögðu má hins vegar vel taka það fram að þessir bílar hafa notið verðskuldaðra vinsælda og mikillar sölu fyrir það, sem þeir eru ótrírætt: Vel heppnaðir tengiltvinnbílar með fjórhjóladrifi, einkum í þeim tilfellum þar sem þeir eru mikið notaðir í innanbæjarakstri og rafdrifið nýtur sín í stuttum ferðum. 

En þegar mikið er um langferðir á þjóðvegum verður bensíneyðslan nokkuð mikil að því er frést hefur, enda svona blendingsbíll hátt í 1900 kíló að þyngd. 

Og nú, þegar Hyundai Kona er að koma á markaðinn með 64 kwst rafhlöðu og næsta gerð af Nissan Leaf verður með 60 kwst, er um miklar framfarir að ræða, sem gerir þessa bíla miklu samkeppnishæfari en áður hefur þekkst. 

En báðir verða dýrari en Leaf og fleiri eru núna, - Kona rafbíllinn yfir 5 milljónir. 

Og þá er reyndar rétt að taka það fram, að með því að fullyrða að Hyundai Kona rafbíllinn sé fyrsti "rafjeppinn" er ansi langt seilst. 

Virðast lítil takmörk fyrir því hvað bílaumboðin okkar geta ruglað með jeppahugtakið og dæmi um það verða sífellt fleiri og algengari yfir alla línuna. 

Kona rafbíllinn er ekki fáanlegur með fjórhjóladrifi, - er með aðeins 2 sm hærri veghæð en venjulegur fólksbíll og lágur og langt framskagandi framendinn er ekki líklegur til afreka á jeppaslóðum.  


mbl.is Ástkær Pajero kvaddur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 29. október 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband