Hin hliðin á hreinasta áli í heimi.

Íslenskt ál er auglýst í flenniauglýsingum sem það hreinasta í heimi. Oft er látið fylgja með að 100% íslenskrar orku komi úr hreinum og endurnýjanlegum orkugjöfum.

Ál er til margra hluta nytsamlegt en það er óþarfi að fela þann sannleika, að í besta falli eru 75% íslenskrar orku komin úr hreinum og endurnýjanlegum orkugjöfum, því að orka frá Hellisheiðarvirkjun, Nesjavallavirkjun, Svartsengisvirkjun, Reykjanesvirkjun og Þeystareykjavirkjun er framleidd í gufuaflsvirkjunum og varðandi virkjanirnar fyrir sunnan er um að ræða hreina rányrkju, þar sem orkan af svæðunum verður uppurin þegar líður á þessa öld.

Hvað snertir hreinleikann að öðru leyti í tengslum við hráefnið er íslenska álið alveg jafn óhreint og annað ál á heimsmarkaði. 

Ál er unnið úr báxíti, sem breytt er í súrál á þann hátt að eftir sitja einstaklega mengandi og eitruð efni, sem verður að koma fyrir á förgunarstöðum. 

Nú hafa Brasilíumenn gefist upp á þessu og framleiðslu á 10% heimsframleiðslunnar verið hætt. 

Hve lengi fylgir ekki sögunni. 

Síðan er ótalið það sem birtist fyrir nokkrum árum í blaði starfsmanna í Straumsvík og haft var eftir skipstjóra með margra áratuga reynslu af því að sigla með súrál frá Ástralíu yfir þveran hnöttinn með tilheyrandi útblástursmengun frá stórskipinu. 

Hann sagði að hvergi í heiminum gæti hann verið eins rólegur gagnvart því að smúla skipið og setja þann úrgang og eitur í sjóinn og hann gerði í Íslandsferðum sínum. 

Fyrir slíkt gætu skipstjórar misst réttindin og jafnvel farið í fangelsi ef þeir yrðu staðnir að þessu við strendur annarra landa. 

 


mbl.is Hætta framleiðslu í súrálsverksmiðju
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Svona gengur það. Svona er það..."

Í gegnum tíðina hef ég stundum fengið samkomugesti til að taka undir viðlag frumsamins lags með texta, nokkurs konar öfugmælavísu, sem Brynjólfur heitinn Jóhannesson fór stundum með, svo hljóðandi: 

Svona gengur það.

Svona er það.

Allir vita það

en enginn sér það. 

 

Svei mér ef það er ekki kominn tími til að skjótast í upptöku í hljóðver með Hauki Heiðari og bæta við nýju erindi í tilefni af umfjöllun þáttarins Kveiks í gærkvöldi um meðferðina á mörgum útlendingum á Íslandi. 

Fyrsta erindið yrði eins og það hefur verið í áratugi: 

 

Skattasvindlið er svakalegt, 

menn sveia því lon og don

en segja´að þetta sé þjóðaríþrótt 

og það sé ei nema von. 

 

Svona gengur það. 

Svona er það. 

Allir vita það

en enginn sér það. 

 

Og inn á milli gömlu erindanna í þessum söng, gæti komið eitt nýtt: 

 

Útlent vinnuafl okkur bjargar 

svo innfæddir græði vel

en láti þrælana líða oft við

að lepja dauðann úr skel. 

 

Svona gengur það. 

Svona er það. 

Allir vita það

en enginn sér það.

 

Brynjólfur fór einu sinni með upprunalega textann í útvarpsþætti Svavars Gests, en ekki var þess getið þá, hver hefði gert þann texta. 

Ef einhver veit eitthvað meira um það væri fróðlegt að vita um það. 


mbl.is „Í sömu gildru og hundruð annarra“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þeir negldu Al Capone á skattsvikum. En ekki Trump.

Löggunni tókst ekki að sanna neitt misjafnt á Al Capone fyrr en hún komst yfir gögn, sem sýndu nýleg skattsvik hans og gátu sett hann í margra ára fangelsi fyrir vikið. 

Nú segjast þeir hjá New York Times hafa gögn um stórfelld skattsvik Donalds Trumps um mjög langt skeið. 

Trump neitar öllu en lætur sig samt hafa það að vera fyrsti forsetinn sem ekki vill gera skattamál sín opinber. 

Ekki fylgir sögunni á hve mörgum árum skattsvik fyrnast vestra, en ef meint skattsvik vegna erfðafjárskatts eru fyrnd sleppur Trump í því máli og sennilega fleirum ef ekki öllum. 

Al Capone var að sönnu harðsvíraðasti stórglæpamaður Bandaríkjanna í kringum 1930 og því ekki sambærilegur við neinn, allra síst venjulega borgara. 

Þó má ætla að sömu skattalög gildi samt um alla vestra. Líka forsetann.  

 


mbl.is Aðstoðaði foreldrana við skattsvik
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 3. október 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband