Minnir á Skodann við Kárahnjúka. Bakkgír ekki skylda!

Frásögnin af bílstjóranum, sem ekkert var í lagi hjá, minnir mig á Skoda 120 sem ég hef átt í ein 13 ár, og dugði mér vel í nokkur ár á Kárahnjúkasvæðinu og á Norðaustanverðu landinu, meðan ég vann þar við þátta-, frétta- og kvikmyndagerð. Skoda 105

Bíllinn var áður í eigu roskinnar konu, ef ég man rétt, árgerð 1984 og hafði staðið í bílskúr í Eyjafirði. Einhvern veginn hafði hann staðið þannig að sólin hafði brennt tauið í aftursætunum.

Meðfylgjandi myndir er tekin af svona bílum erlendis og er sá gulbrúni býsna líkur Kárahnjúkaskodanum. 

Fyrsta árið eystra reyndist hann vel, meira að segja á heiðum uppi, því að þessir bílar voru hannaðir fyrir lélega vegi í Austur-Evrópuríkjum.Skoda 120

Þeir voru með vélina fyrir aftan afturhjólin, 62 prósent þungans að aftan og enn hærri tölu upp brekkur og komust því ótrúlega vel upp brekkur í erfiðu færi. 

Skodinn stóðst bifreiðaskoðun eftir fyrsta árið eystra, þótt hann byrjaði strax að bila hér og þar, meðal annars að missa út bakkgírinn. 

Það kom ekki að sök, því að enda þótt það hafi verið skylda í fyrstu bifreiðareglugerðinni á Íslandi 1914, að bílar "væru með búnað til að aka afturábak", hafði það dottið út einhvern tíma á aldar vegferð og hefur því lengi ekki verið skylda. 

Bíllinn flaug því aftur í gegnum skoðun eftir tveggja ára notkun, þótt ekki væri hægt að bakka honum fyrir eigin afli og að það væri orðið svo margt smálegt að honum, að ekki er hægt að muna þar lengur en ekkert af því taldist þó af því tagi, að það kæmi í veg fyrir að koma honum í gegnum bifreiðaskoðun.  

Og nú fóru að sækja að alls konar nýjar bilanir, meðal annars vatnsleki, sem fór vaxandi, svo að ætíð þurfti að vera á tánum og hafa með sér vatnsbirgðir í ferðum. 

Þegar kom að næstu skoðun árið síðar fór ég á verkstæði á Egilsstöðum og samdi við menn þar um að skoða bílinn áður en ég kæmi aftur austur, helst án þess að kostnaðurinn færi yfir 10-15 þúsund krónur, og gefa mér skýrslu um það sem að væri og þyrfti að laga fyrir næstu skoðun. 

Þegar ég kom austur brá svo við að sérkennilegur svipur var á mönnum á verkstæðinu og í hönd fór eftirminnileg athöfn. 

Sposkur á svip afhenti bifvélavirkinn mér stærðar umslag í votta viðurvist á þann hátt að þetta minnti á afhendingu Óskarsverðlauna. 

Það var meira að segja spenna í loftinu þegar ég opnaði umslagið, en inni í því var samanbrotið skjal, sem ég las upp hátt og skýrt: 

Að þessum bíl, A-9194 er....

(...dramatísk þögn, blaðinu flett...)

...að þessum bíl er...

ALLT!!

Niðurstaðan var skýr. Versta bilunin var sennilega vatnslekinn. Upphaflega voru rassmótors Skodarnir með vatnskassann afturí, en það vildi sjóða á honum í hita og erfiði, og því var kerfinu breytt og vatnskassinn settur fram í með vatsleiðslum þaðan alla leið aftur í vél.

Svipað kerfi er reyndar á vatnskældu Porche 911 bílunum, en Skoda 84 var ekki það sama og Porche 911 varð síðar, og ef vatnslekinn var þar í leiðslunun, þar sem þeir lágu um burðarstokk í gólfinu og þar að auki komið ryð eða tæring í allt draslið, var engin leið að leysa málið á viðráðanlegan hátt. 

Á A-9194 lak orðið á mörgum stöðum.  

Með fjórar tveggja lítra vatnsflöskur var samt hökt af stað alla leið til Ystafells í Kinn, og það tókst að staulast inn að bílasafninu eftir stanslítinn vatnsuppáhelling. 

Þar hefur Skodinn síðan staðið, ekki langt frá Skoda Ingimars Eydals og mér þykir, vegna einstæðra og langra kynna og samvinnu við þann stórkostlega mann, vænt um þessa nálægð Skodanna okkar beggja. 

 

 


mbl.is Ekkert í lagi hjá bílstjóranum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Andsvarið: "Fjörtíu þúsund fífl."

Skoðanaskiptin, sem nú fara fram um umhverfismál jarðarbúa, eiga sér ekki hliðstæðu í mannkynssögunni hvað snertir umfang, stærð og alvöru málsins. 

Á sama tíma og haft er eftir einum tugþúsunda vísindamanna heimsins: "Bregðist þið við núna, fábjánar" þar sem hann fórnar höndum yfir því hvernig skammsýnir stjórnmálamenn berja höfði við stein gagnvart óyggjandi staðreyndum um rányrkju helstu auðlinda jarðarinnar og áhrif sívaxandi iðnaðar og neyslu á lofthjúp og náttúru, ríður yfir bylgja aukinna valda manna, sem afgreiða málin í síbylju:

"40 þúsund fífl í París." 

"Koldíoxíð í lofthjúpi jarðar hefur ekki verið minna í sex milljón ár." (Þegar spurt var: Hvaðan hefurðu þessa stærstu frétt dagsins sem þýðir að það þurfi að auka útblástur í stað þess að minnka hann, var svarið: "Ég birti einu sinni mynd af tölum sem sanna þetta"

"Það þarf að ræsa fram mýrarnar" (Ísland) og "höggva skógana og rýma til fyrir landbúnaðarfamleiðslu" (Brasilía). 

"Hafísinn í Norður-Íshafinu fer hratt vaxandi og loftslag hratt minnkandi." (Fyrir nokkrum árum voru mér sýndar "réttar myndir" af hafísnum, sem áttu að sanna þetta.) 

"Það er nóg af olíu" (Sem sagt lygi, að olían sé takmörkuð auðlind). 

"Það þarf að reka óhæfa vísindamenn heimsins og ráða alvöru vísindamenn í staðinn."

"Svokölluð vísindaleg gögn eru allt falsanir og falsfréttir og hluti af allsherjar samsæri gegn áframhaldandi hagvexti og eflingu mannlífs." 

"Tölur um hlýnun sjávar í Karíbahafinu eru stórfelldar lygar og falsfréttir. Fellibyljum fer fækkandi og þeir minnka sífellt." 

Þegar þjóðir heims voru að jafna sig eftir ófarir Seinni heimsstyrjaldarinnar og reyna að læra af þeim til að skapa heim með skárri lífsmöguleikum hefði mann aldrei órað fyrir þeirri umræðu, sem nú á sér stað. 

 

 


mbl.is „Bregðist við núna, fábjánar“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Erfitt fyrir stjórnarsamstarfið?

Í facebook-færslu Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra kemur fram að annmarkar hafi verið á veitingu starfsleyfis fyrir sjókvíaeldi í Patreksfirði og Tálknafirði og ekki faglega að henni staðið.  

Þetta er að vísu orðað öfugt hjá Katrínu, að leitað verði ráða til að greiða úr annmörkum og beita faglegum vinnubrögðum við að leysa málið, en það kemur í sama stað niður. 

Annmarkar og ófagleg vinnubrögð eru viðurkennd hjá Katrínu, enda má ætla að úrskurðarnefndin viti hvað hún er að gera. Hitt vekur spurningar, hvers vegna starfsleyfið var þá veitt. 

Ekki er víst að þessi fésbókarfærsla Katrínar hafi vakið ánægju ráðherra Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, sem hafa fengið því framgengt að leitað verði ráða til þess að komast fram hjá úrskurðinum og að umhverfisráðherra verði með í þeim ráðum. 

Umhverfisráðherra er líka í erfiðri stöðu.  

En hvað er til ráða?  Í beinskeyttum málflutningi kærenda er sagt að framkvæmdavaldið hafi ekki lagalegan rétt til að hlutast til um hinn umrædda úrskurð, sem sé í raun hluti af dómsvaldinu. 

Sé svo, eru möguleikar Alþingis, löggjafans, þá einnig sömu annmörkum háðir, að vafasamt sé að löggjafarvaldi sé beitt til að fara inn á svið hluta af dómsvaldinu. 

Í ofanálag er löggjöfin hluti af alþjóðlegum skuldbindingum okkar, svo sem lögfestingu Árósarsáttmálans hér á landi. 

Vitað er að Lilja Rafney þingmaður Vinstri grænna er velviljuð bæði sjókvíaeldinu og Hvalárvirkjun þannig að stjórnarsamstarfið kann að lenda í tvísýnu.  


mbl.is Vara ráðamenn þjóðarinnar við
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 8. október 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband