Notar hann líka "óyggjandi línurit"?

Undanfarin ár hafa ýmsar "sannanir" í formi "nýrra, réttra og óyggjandi gagna" varðandi loftslagsmál komið fram og verið sýnd til að hrekja það sem loftslagsnefnd Sameinuðu þjóðanna og aðrar alþjóðastofnanir hafa haldið fram. 

Mörgum af þessum nýju gögnum hefur verið dreift á milli hóps manna, sem kalla má kuldatrúarmenn, þar eð þau eiga að sýna vaxandi jökla og ís og kólnandi veðurfar.CO2 í 600 milljón ár 

En einnig hafa verið á sveimi gögn sem afhjúpa eigi niðurstöður loftslagsnefndar Sþ um að koltvísýringur fari hratt vaxandi, - og þessi "betri" gögn sýni hið þveröfuga, að hann fari minnkandi. 

Sem þýðir, að loftslagsnefnd Sþ og "fjörtíu þúsund fífl í París" og íslenska ríkisstjórnin haldi fram hreinum lygum í þeim efnum líka. 

Nú hefur frambjóðandi í Brasilíu, sem segist vera brasilískur Trump, mest fylgi forsetaframbjóðenda og búist er við spennandi lokaumferð, þar sem hann hafi mikla möguleika á sigri. 

Hann hefur opnað á að ryðja Amazónskógana, sem hafa verið kallaðir "lungu heimsins" og gera þetta langstærsta skógasvæði heims að landbúnaðarsvæði, væntanlega vegna þess að "rétt" gögn um loftslagsmálin hafi birst sem til dæmis sýni, að "í 600 milljón ár hafi aldrei verið minni koltvísýringur í andrúmsloftinu en er nú", svo vitnað sé í úrlestur úr einu af hinum "réttu" skjölum um málið, sem eru á sveimi. 

Halldór Jónsson hefur nú verið svo vinsamlegur að segja frá því í athugasemd á þessari bloggsíðu hvenær hinn stórmerkilegi stórisannleikur birtist á hans síðu, hinn 21. maí í vor. Og það er fróðlegt að skoða það tímamótaskjal sem hefur að geyma svo stórfellda frétt, að með ólíkindum er að það skuli hafa farið fram hjá flestum ráðamönnum þjóðríkja heimsins og öllum þekktustu fjölmiðlum heimsins. 

Því að það eitt, að svona gríðarlega stórt mál hafi verið þaggað niður er auðvitað eitthvert svívirðilegasta samsæri sögunnar. Á línuritinu er rauð lína, sem sýnir magn koltvísýrings í andrúmsloftinu síðustu 600 milljón ár, og á línuritinu er að sjá að minnsta magnið sé einmitt núna. CO2 í 600 milljón árEða þannig lítur það út. 

Hins vegar sýna línurit loftslagsnefndarinnar aðeins síðustu aldir eða árþúsundir. 

Hvers vegna?

Vegna þess að það er sá tími sem skiptir núlifandi fólk og næstu kynslóðir máli. Hækkunin, Sþ sýnir, byrjar fyrir aðeins 200 árum og hröðunin í hækkuninni er mest síðustu áratugi. Af hverju sést þetta ekki á línuritinu, sem er biblía kuldatrúarmanna?

Svarið er einfalt þegar línuritið er skoðað nánar. Það er ekki hægt að sýna þetta á svona grófu línuriti sem felur inni í sér milljónir ára.  Tíminn inni á kortinu er svo óhemju langur, að til dæmis hundrað þúsund ár taka aðeins yfir brot úr millimetra á kortinu Halldórs. Hver millimetri á því táknar aðeins 40 þúsund ár, og hver 0,1 millimetri,sem er raunar varla greinanlegur með mannsauga, táknar samt 4 þúsund ár. 

0,024 millimetrar tákna þau 2000 ár sem liðin eru frá fæðingu Krists.

Tímabil aukningar koltvísýringsins síðustu tvær aldir, hvað þá síðustu áratuga, geta ekki því ekki sést á svona korti. 

Á kortinu komast þessi 200 ár fyrir í 0,0024 millimetrum!  

Með öðrum orðum: Það, sem á að sanna, er svo vendilega falið á þessu línuriti, að það sannar ekki nokkurn skapaðan hlut. 

Fróðlegt væri að vita hvort hinn brasilíski Trump hefur séð þetta "gríðarlega mikilvæga sönnunargagn" og noti það þá væntanlega óspart, svo byltingarkennt sem það er. 

 


mbl.is Náði ekki meirihluta atkvæða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Seinagangur við að kortleggja landið skipulega.

Rammaáætlun um virkjanakosti verður 20 ára á næsta ári en ennþá vantar alveg upp á heildarsýnvarðandi vindorkuframleiðslu. 

Ef marka má þær umræður, sem hafa orðið í öðrum löndum, er að mestu eftir að taka þá umræðu hér á landi. 

Það skiptir nefnilega fleiri máli en landeigendur á hverjum stað hvort vindorkugarðar rísa. 

Þetta geta verið hundruð af myllum, sem eru allt að tvær Hallgrímskirkjur á hæð. 

Hugmyndirnar um stærð og umfang vindorkugarða eru líka mjög mismunandi, allt upp í stærsta vindorkugarð í Evrópu, sem nú er í raun byrjað á skammt norðaustan Búðardal, því að með því að veita leyfi til að reisa fyrstu myllurnar myndast þrýstingur fyrir því að halda áfram. 

En þar er ekki verið að tala um einhverja smásmíði, - orkan á að verða álíka og frá Blönduvirkjun, sem hingað til hefur verið flokkuð sem ein af stórvirkjunum landsins.  

Í Færeyjum hafa menn reynt að koma vindmyllunum þannig fyrir að þær séu inni í dölum eða þröngum sundum, þannig að sjónmengun verði sem minnst. 

Algerlega er eftir að búa til fyrirkomulag hér á landi til þess að kanna mismunandi umhverfisáhrif eftir landsvæðum og leggja heildarlínur á þessu sviði. 

 

 

 


mbl.is Ætla að beisla vindinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 9. október 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband