Hann fattar þetta ekki ennþá?

Mosatætarinn á Dusterjepplningnum virðist ekki fatta ennþá um hvað mál hans snýst. Biðst afsökunar á því að brot hans hafi falið sér spjöll á viðkvæmum mosa, því sem hann kallar jarðveg. Utanvega tætari

Það bendir til þess að hann telji, að þetta hefði verið í lagi ef hann hefði spólað í sandi utan vega. Rétt eins og gaurinn gerði í Krepputungu hér um árið og lýst var í pistli á undan þessum. 

Hann svarar ekki spurningu blaðamanns um það hvort hann hafi ekki vitað, að akstur utan merktra slóða og vega er ekki leyfilegur á Íslandi. 

Hann skilur ekki ástæðuna fyrir þessu banni, bæði hér á landi og til dæmis í eina jeppaþjóðgarðinum í Bandaríkjunum. 

Ef hverjum einasta ferðamanni á jeppa, en þeir skipta tugþúsundum árlega, er gefið veiðileyfi á að tæta og trylla hvar sem er og hvenær sem er utan vega, er boðið upp á stórfellda árás, ekki bara á íslenska náttúru, heldur á upplifun þeirra 80-90 prósent ferðamannanna sem vilja kynnast henni ósnortinni í tign friðar og kyrrðar, þá er það óverjandi með öllu. 

Hvers vegna eru meira en 20.000 kílómetrar af merktum jeppaslóðum hér á landi ekki nóg fyrir hann, fyrst Bandaríkjamenn sætta sig við meira en 1600 kílómetra á sambærilegum slóðum? 

 


mbl.is Mosatætarinn biðst afsökunar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Bara sandar, melar og grjót"?

"Hvaða æsingur er þetta? Þetta eru bara sandar og melar og grjót. Gildi Íslands felst meðal annars í því frelsi að mega njóta þess að spála í þessum sandi og melum. Þetta hverfur hvort eð er fljótt." 

Þetta var ein af athugasemdunum, sem sjá mátti á blogginu við fréttum um utanvegaakstur í Krepputungu 2014. 

Sá, sem þessu hélt fram, skautaði framhjá því, að á þeim stað, sem sýndur var, í Krepputungu er alveg einstakt landslag, þar sem ljósgulur vikur úr Öskju liggur sem þunnt lag ofana á svartri ösku úr fyrri gosum. 

Þegar bílum er beitt á svipaðan hátt á þeim stað eins og bílnum er beitt á mosann á myndskeiði í tengdri frétt á mbl.is, skera hjólin gula vikurlagið í sundur og róta svörtu öskunni upp á svipaðan hátt og sést svo glögglega á grobb-myndinni af mosatætingnum. 

Svörtu förin í gulum vikrinum geta blasað þar við árum saman og þegar um mosa er að ræða geta liðið margir áratugir, jafnvel hátt í öld, sem ljót för má sjá út um allt eins og við Landmannaleið frá fyrri tímum. 

Síðan skauta þessir Íslandsvinir tætaranna yfir það, að allt að 90 prósent þeirra ferðamanna, sem koma í óbyggðir og auðnir landsins, sækjast eftir ósnortnu landi, friði og kyrrð, sem ekki er að finna í Evrópulöndum. 

Ef siga mætti öllum út fyrir merktar slóðir til þess að "tæta og trylla" að vild hvar sem er og hvenær sem er, væri auðséð hverjar afleiðingarnar yrðu daglega. 

Í Bandaríkjunum er þjóðgarðurinn Canyonlands, þar sem eru 1600 kílómetrar af merktum jeppaslóðum. Þar er stranglega bannað og engum dytti þar í hug að fara að tæta og trylla út fyrir slóðana. 

Á Íslandi eru merktir jeppaslóðar vel yfir 20.000 kílómetrar og því engin rök fyrir því að siga þúsundum bíla út fyrir þær. 

 


mbl.is Spólaði um í mosanum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 10. nóvember 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband