Hinir ósnertanlegu.

Tíminn, sem við lifum á, á sér enga hliðstæðu í sögu mannkynsins. Mannkynið þurfti þúsundir og tugþúsundir ára til þess að ganga gegnum skeið, sem fengu heitið steinöld, bronsöld og járnöld. 

En okkar öld, olíuöldin, er enn ekki búin að vera við lýði nema eitt hundrað ár og mun varla lifa í önnur hundrað ár. 

Og orkubruðl þessarar einstæðu aldar er svo yfirgengilega miklu meira en dæmi eru um áður, að þegar dregið er línurit yfir orkunotkun jarðarbúa, verður olíuöldin eins og ógnarhár spjótsoddur, fyrst hratt upp og síðan hratt niður. 

Sádi-Arabía er langöflugasti olíuframleiðandi heims og leiðtogar þess ríkis hafa því ekki aðeins mikil völd og einstaka stöðu, heldur er stór hluti af áhrifum og völdum þeirra að mörgu leyti dulin. 

Þannig hefur það verið dregið fram, að enda þótt veigamesta ástæðan fyrir því að Sovétríkin féllu sé vafalaust innbyggt í misheppnað efnahagskerfi, hafi Sádi-Arabar, fyrir leynilega áeggjan Bandaríkjamanna, notað áhrif sín og veldi til þess að auka framboð á olíu nægilega mikið til þess að heimsmarkaðsverðið féll nógu mikið til þess að veita Sovétríkjunum náðarhöggið. 

Bandaríkin hafa ævinlega lagt mikið upp úr því að hafa Sádana góða, og skal engan undra. 

Gríðarlegir hagsmunir eru í húfi. 

Leiðtogar Sádi-Arabíu munu því áfram falla undir hugstakið "hinir ósnertanlegu".  


mbl.is Samskipti við Sádi-Arabíu óbreytt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stór spurning í ferð Íslendinga yfir Grænlandsjökul 1999.

Í ferð á þremur jöklajeppum yfir Grænlandsjökul í maí 1999 undir forystu Arngríms Hermannssonar komu upp tvö mál, sem vörðuðu það hvort hinir erlendu gestir á "Grænlandsgrund" ættu að grípa inn í dýralíf og aðstæður. 

Þessi atvik koma aftur upp í hugann þegar framundan verður 20 ára afmæli þessa leiðangurs, hins eina af sínu tagi í sögunni, sem verður væntanlega ekki endurtekinn. 

Hann var farinn á sömu forsendum og þær jöklajeppa um Suðurskautslandið sem farnar voru og hafa verið farnar síðar. 

Fyrra atvikið var, að 80 kílómetra inni á jöklinum ókum við fram á deyjandi og örmagna sleðahund. 

Augljóst var að forsvarsmenn sleðaeykis, sem við höfðum mætt nokkrum klukkustundum fyrr og var á leið yfir jökulinn á móti okkur, höfðu annað hvort skilið hundinn eftir eða hann orðið viðskila við eykið. 

Það var útaf fyrir sig erfið ákvörðun, sem þurfti að taka. Annað hvort að taka hundinn með okkur með þeim erfiðleikum og vafaatriðum sem slíku fylgdi, eða að grípa, sem erlendir gestir, ekki inn í það sem væri að gerast í þessu hrikalega stóra landi. 

Við gátum ekki vitað hvort hundurinn var með einhverja pest, sem hefði gert hann örmagna, og ákváðum því að grípa ekki inn í. 

Síðara atvikið gerðist við jökulröndina í enda leiðarinnar eftir ferðina yfir. 

Þá fór ég í gönguferð með kvikmyndavélina frá náttstað okkar og gekk fram á deyjandi nýfæddan hreindýrskálf, sem hafði orðið viðskila við móður sína. 

Enn og aftur var það erfið stund að taka ákvörðun um örlög kálfsins. Þetta var nokkrum tugum kílómetra innan við alþjóðaflugvöllinn í Kangerlussuaq (Syðri-Straumfirði) en á þessu svæði var engin byggð og engir hreindýrabændur. 

Illmögulegt ef ekki ómögulegt var að taka þetta stórt dýr með okkur. Ekki man ég lengur hvort byssa var með í þessari för. 

Niðurstaðan varð því að skipta sér ekki af því sem væri að gerast í hinu framandi landi.

Þegar ég kom til baka úr gönguferðinni brá mér í brún. Ætlunin hafði verið að grilla kjöt og slá upp smá grillveislu í lok alveg einstaklega erfiðri baráttuferð niður langstærsta skriðjökul sem við höfðum kynnst. 

En þegar ég kom til baka, lágu leiðangursmenn eða sátu sofandi þar sem þeir voru staddir. 

Grillkjötið lá brunnið til ösku og Ingimundur skrásetjari ferðarinnar sat sofandi á stuðara eins jeppans með ferðabókina á hnjánum, líkt og úðað hefði verið yfir hann einhverju efni, sem hefði fryst hann. 

Allir voru örmagna eftir tuga klukkustunda baráttu við hinn hrikalega sprungna jökul og það hefði aldrei verið hægt að fara að sækja hinn deyjandi kálf.  

Fróðlegt væri að vita hvað lesendum þessa pistils finnst um mál af þessu tagi. 


mbl.is Attenborough hefði bjargað mörgæsunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Sáuð þið hvernig ég hefði tekið hann!"

"Sáuð þið hvernig ég tók hann" er fræg grobbsetning Jóns sterka eftir að honum er skellt kylliflötum i leikritinu Skugga-Sveini. 

Nú bætir Trump um betur og segir í raun um Osama bin Laden: "Sáuð þið hvernig ég hefði tekið hann!" 

Trump fullyrðir, að af því að hann hafi vitað fyrr en ráðist var á Tvíburaturnana, hvar bin Laden faldi sig, hefði hann geta látið ná honum og drepa hann ef hann hefði verið forseti þá. 

Og væntanlega komið í veg fyrir árásina á Tvíburaturnana og hugsanlega ekki þurft að ráðast inn í Afganistan, úr því að einskis var að hefna.

En í Afganistan eru Bandaríkin enn að moka inn mannskap, hertólum og peningum í endalaust ófriðarástand. 

Er ekki dásamlegt að eiga forseta, sem vinnur stríð aftur í tímann! 


mbl.is Hefðum átt að ná bin Laden fyrr
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 20. nóvember 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband