"Við erum landverðir, skylt að verja náttúru jarðar."

Ofnagreint er íslensk þýðing ljóðlínunnar "We are the rangers, pledged to save the nature of the earth" í laginu "Let it be done" sem felur í sér áskorun til jarðarbúa. 

Síðuhafa þykir þess vegna vænt um að forsætisráðherra lagði áherslu á verndun íslenskra náttúruverðmæta í hátíðarræðu sinni í dag í tilefni af 100 ára afmæli fullveldisins. 

Þau verðmæti eigum við ekki, heldur eru við vörslumenn þeirra fyrir afkomendur okkar og mannkyn allt. 


mbl.is Ber skylda að standa vörð um náttúruna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Frelsisvor.

Á facebooksíðu síðuhafa þessarar bloggsíðu er sungið eftirfarandi ljóð í tilefni dagsins: Frelsisvor

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

FRELSISVOR. 

 

Frelsisvor! Framtíðarspor! 

Frelsisvor! Áræði´og þor! 

 

Það var árið með drepsótt og eldgos og ís, 

en sem árið, sem birtist oss frelsisins dís. 

Líkt og morgunsól albjört í austrinu rís

hófst nú öld, þar sem lausnin var vís. 

 

Heitur vorblær nú flutti hið ljúfasta ljóð

eftir lamandi vetur með svita og blóð. 

Það var draumur um frjálsa og fullvalda þjóð

og hinn fegursta hugsjónaóð. 

 

Eftir aldanna böl var loks birtu að sjá

þegar brustu hér hlekkirnir þjóðinni á. 

Máttur fjöldans úr læðingi leystur var þá

svo að ljómaði gleði á brá. 

 

Frelsisvor! Framtíðarspor!

Frelsisvor!  Áræði´og þor!  

 

Síðan flogin er glæsileg framfaraöld

þegar færð voru´í landið hin ítrustu völd,

þegar lýðveldi stofnaði fagnandi fjöld

svo að fært var á sögunnar spjöld: 

 

Landið og fólkið, lifandi mál, 

ljóðin og sögurnar, þjóðlífsins sál. 

Tónar og myndir, formæðra fold, 

fóstujörð hjartkær, andi og hold. 

 

Undir fánanum bjarta nú brunar vort fley 

inn í brim nýrrar aldar í vonanna þey. 

Þó að gefi á bátinn þá æðrumst við ei

heldur eflist hver sveinn og hver mey. 

 

Enn er sungið um vorið hið ljúfasta ljóð

þegar logar á tindunum jöklanna glóð. 

Það er söngur um frjálsa og fullvalda þjóð

og hinn fegursta hugsjónaóð. 

 

Frelsisvor! Framtíðarspor!

Frelsisvor! Áræði´og þor!

Frelsisvor


mbl.is Minning tveggja forystumanna heiðruð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þeir fiska sem róa, en samt er ekki á vísan að róa.

Orðtökin, sem myndast hafa um sjávarútveg og siglingar segja sitt um þá óvissu, sem ætíð ríkir í rekstri samgöngufyrirtækja á sjó, lofti og landi, samanber fyrirsögnina á þessum bloggpistli. 

 

Hannes Hafstein orti um útgerð og siglingar á skipum:  

 

"Sjá, hvílík brotnar bárumergð 

á byrðing einum traustum, 

ef skipið aðeins fer í ferð

en fúnar ekki´í naustum. 

 

Sömuleiðis var þekkt orðtakið "kóngur vill sigla en byr verður að ráða." 

 

Í notkun hestsins var löngum talað um gildi þess að veðja á réttan hest. 

Sömuleiðis að fara ekki af baki hesti í miðrri á. 

 

Og um fugla var sagt að betri sé einn fugl í hendi en tveir í skógi. 

 

Allar þessarar margbrotnu speki krefst flugrekstur í þeirri stórkostlegu samkeppni, sem ríkir í þeirri atvinnugrein. 

Íslendingar þekkja svona umhverfi vel úr meira en ellefu hundruð ára glímu sinni við óblíð náttúruöfl á sjó og landi. 

Nú hefur flugið bæst við og reynir á hvernig til tekst í því misvindi, sem ríkir í fluginu, og aldrei hefur sú starfsemi leikið neitt viðlíka stórt hlutverk í þjóðarbúskapnum og nú. 

 


mbl.is Hægt að auka sætafjölda um 35%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 1. desember 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband