Man nú enginn Ólaf Thors, Bjarna Ben eldri og Eðvarð Sigurðsson?

Á fyrstu árum Viðreisnarstjórnarinnar 1959-1971 ríkti býsna hörð togstreita á milli Verkalýðshreyfingarinnar og ríkisstjórnarinnar. 

Sumarið 1961 var hart verkfall hinna fjölmennu félaga verkamanna, sem enduðu með kjarasamningum upp a 13 prósent kauphækkun. 

Strax í kjölfarið felldi stjórnin gengi íslensku krónunnar um, - ja, - auðvitað 13%. 

Skýr skilaboð og verðbólgan óx og rýrði kjarabotina að miklu leyti. 

Um áramót 1962-63 stefndi í enn harðari rimmu, og var borin fram á þingi mjög stíf tillaga um að þingið gripi inn í deiluna á þann hátt, að orðið "stríðsyfirlýsing" var notað. 

Síðuhafi minnist enn kvöldsins, þegar útlitið var afar svart. 

Á síðustu stundu tókst að afstýra því að allt færi upp í loft með því að tillagan var dregin til baka, að miklu leyti fyrir frumkvæði Ólafs Thors, eins konar svanasöngs hans í stjórnmálum, en í kjölfarið hófst nýtt tímabil í kjaradeilum hér á landi, kennt við svonefnt júnísamkomulag 1964 og annað júnísamkomulag 1965. 

Þar var farin mun víðtækari leið til inngrips af hálfum ríkisvaldsins en áður hafði tíðkast, ef undan er skilin lausn sex vikna verkfallsins 1955. 

Kjölfestan í þessari stefnu var sérstakt trúnaðarsamband Bjarna Benediktssonar forsætisráðherra og Eðvarðs Sigurðssonar, formanns verkamannafélagsins Dagsbrúnar. 

Deilurar þessi ár leystust með stórbrotinni félagslegri lausn í húsnæðismálum, auk fleiri mikilsverðra atriða. Stór hluti nýs íbúðahverfis í Breiðholti var ágætt dæmi um slíkt. 

Á árunum eftir 1955 var til dæmis lagður grundvöllur að því lífeyrissjóðakerfi, sem vaxið hefur æ síðan. 

Þegar þeir Sigmundur Davíð og Bjarni Ben komust til valda 2013, virtust þeir ekkert hafa lært af því sem að ofan er nefnt eða þá ekki að hafa vitað neitt um það, nema hvort tveggja sé. 

Spurningin ef hvort Bjarni hefur lært eitthvað síðan, og verður að vona að forsætisráðherrann geti haft einhver áhrif til þess að finna lausn. 


mbl.is „Stríðsyfirlýsing“ hjá Bjarna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sérkennilegt í borg með umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs.

"Þetta eru bara nokkrir dagar á ári" heyrist sagt um staðreyndir, sem stangast á við þá ímynd, sem Reykjavík hefur aflað sér með því að auglýsa "hreinasta borg í heimi" og "forystu í sjálfbærri þróun", sem birtist meðal annars í orkuöflun borgarinnar. 

Einn stærsti þátturinn í að flagga þessari ímynd náðist með því að krækja sér í umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs fyrir nokkrum árum. 

En sumar staðreyndirnar, sem stangast á við þessa ímynd hreinleika og sjálfbærni, eru býsna stórar. 

Á svæðinu frá Þingvallavatni til Reykjanesstáar fer fram stórfelld orkuöflun í gufuaflsvirkjunum, nánar tiltekið hátt í 700 megavött, sem að mestu leyti framleiðir orku fyrir stóriðju. 

Þessi orkuöflun er fjarri því að standast kröfur um sjálfbæra þróun, því að um hreina rányrkju er að ræða í raun.  

Fyrir þremur árum kom í ljós við mælingar, að land hefur sigið um allt að 18 sentimetra á báðum helstu virkjansvæðunum, og meira en helmingur orkunnar, sem fer dvínandi og stefnir í að verða uppurin á þessari öld, er á yfirráðasvæði Reykjavíkur. 

Og þrátt fyrir metnaðarfullar og stórmerkar tæknilegar aðgerðir til að binda útblástur virkjananna verða gestir utan af landi vel varir við hið eitraða loft, sem leggur frá virkjununum í ákveðnum vindáttum. 

Þegar fréttir berast af loftmengun langt yfir heilsuverndarmörkum koma kínverskar og indverskar  borgir helst upp í hugann. 

En, eins og Samtök lungnasjúklinga bendir á, lendir Reykjavík árlega í flokki með borgum mestu loftmengunar í heimi án þess að séð verði að neitt hafi verið gert til að breyta því. 


mbl.is Lungnasjúklingar haldi sig innan dyra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Til að koma í veg fyrir að hinir..."

"Völd spilla og mikil völd gerspilla." Þessi forna speki er sígild og ævinlega að koma fram á afar ólíkum sviðum. 

Eitt afbrigði ásóknar í völd felst í því að stunda slíkt sem fyrirbyggjandi atriði, "til þess að koma í veg fyrir að hinir" beiti valdafíkn til að misnota völd sín og aðstöðu. 

Hernaðarstofnanir og herir eru næstum alltaf kenndar við varnir og Kínverjar, eins ogð önnur stórveldi, afsaka ýtni og ásælni með því að það sé gert "til að koma í veg fyrir að hinir valdi óskunda." 

Allt fullveldistímabilið hér á landi hefur það verið tíðkað mjög að ráða fólk í stöður eftir pólitískum línum.

Í starfi síðuhafa hjá RÚV 1969-1988 og 1995-2007 kom fyrrnefnt hugarfar varðandi "hina" oft fram á skondinn hátt. 

1971 hafði Viðreisnarstjórnin setið í 13 ár og þótti stjórnarandstæðingum mikið vera um mannaráðningar eftir pólitískum línum. Þá brá svo við að alger umskipti urðu og mynduð var vinstri stjórn, en viðreisnarflokkarnir lentu í stjórnarandstöðu. 

Vegna hinnar hörðu gagnrýni á misnotkun viðreisnarflokkanna hefði mátt búast við að búið væri að útrýma hinum fordæmdu ráðningum þegar vinstri flokkarnir náðu völdum og teknar upp heiðarlegar aðferðir. Einnig, að lítil ánægja innan þeirra raða með áherslur í umfjöllun í íþróttum og þrýstingur á sparnað við þær myndi þýða, að í "íþróttadeildini" yrði aðeins eitt fast starf sem fyrr. 

En, - viti menn, það sótti strax í það fara að raða "sínum mönnum"inn.  

Þegar fundið var að því var svarið oftast það, að þetta væri gert "til að koma í veg fyrir að hinir misnotuðu aðstöðu sína."

Og ekki nóg með það, skyndilega var kominn áhugi á því að fjölga störfum við íþróttir, að vísu með lausráðnum mönnum. Og svo merkilega vildi til, að fyrir einskæra tilviljun urðu menn, sem voru menntaðir í Austur-Evrópulöndunum, ráðnir. 

Voru þrír á tímabili! 

Þetta ástand reyndist ekki vara lengi, því að stjórnin sprakk og sat innan við þrjú ár.

Og þá skildi maður það sem heyrst hafði, að vegna þess hve vinstri stjórnir væru skammlífar, væri nauðsynlegt að hamla rösklega á móti og nota tímann vel, því að "hinir" væru búnir að vea svo þaulsætnir og búnar að raða svo mörgum á garðann. 

Og þegar Sjallar komust í stjórn, gátu þeir, sem höfðu verið "hinir" í tæp þrjú ár, náð vopnum sínum "til þess að koma í veg fyrir að "hinir" misnotuðu aðstððu sína. 

Rétt er að geta þess að hinir nýju "kommisarar" mér við hlið reyndust hinir ágætustu starfsmenn og var allt samstarf við þá óaðfinnanlegt og ánægjulegt. 

Rétt eins og samstarfið við Bjarna Felixson, sem sumir tengdu KR og "Vesturbæjaríhaldinu" var alveg einstaklega gefandi, og bar þar aldrei neinn skugga á. 

Og innan raða harðra vinstri manna mátti rekast á óvæntar áherslur. Magnús Kjartansson, ritstjóri Þjóðviljans, trúði mér fyrir því, að hann væri sérstakur aðdáandi ensku knattspyrnunnar og Bjarna Fel og eggjaði mig lögeggjan til að auka veg hennar sem mest.  


mbl.is Kína sækist ekki eftir heimsyfirráðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 19. desember 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband