Viðleitni ríkisins til einföldunar í rekstri.

Það fyrirkomulag að borga ríkisstarfsmönnum, sem fara á eigin bílum í erindum ríkisins eða vegna starfs síns fyrir ríkið, gjald fyrir ekna kílómetra, varð upphaflega til þess ætlað að einfalda rekstur ríkisins. 

Ástæðan er meðal annars sú, að annars þyrftu viðkomandi ríkisstofnanir að standa í því að kaupa og reka bíla, sem oft væri erfitt að láta passa inn í reksturinn. 

Alla tíð hefur það tíðkast hjá ríkisstofnunum að versla við leigubílastöðvar þegar eðli málsins hefur verið þannig, að fara hefur þurft skemmri ferðir í ýmsum erindum. 

Kílómetragjaldið er fundið út af sérstakri nefnd og byggt á upplýsingum frá FÍB, sem um áratuga skeið hefur reiknað út raunverð vegna reksturs bíla af meðalstærð. 

Í allmörg ár hefur verið verið í kringum 100 krónur á kílómetrann, og vegna aukinnar sparneytni meðalbílsins hefur það lítið breyst. 

Það þarf þess vegna að svara því hvers vegna starfsmenn FÍB fá út miklu lægri kostnað við rekstur bíls Ásmundar en birst hafa undanfarin ár. 

Ekki er það vegna þess að bíll Ásmundar sé svo lítill og ódýr, því að Kia Sportage er ríflega meðalstór bíll og með drifi á öllum hjólum. 

Í taxta greiðslu fyrir akstur einkabíla ríkisstarfsmanna vegna starfs þeirra er réttilega hafður hærri taxti vegna aksturs á malarvegum, var 15 prósentum hærri í þau tólf ár, 1995 til 2006, sem ég ók eftir þessu fyrirkomulagi fyrir RÚV, og 45 prósentum hærri ef farið var eftir torfærum slóðum eða í jöklaferðir. 

Reynslan af akstri á breyttum torfærujeppum í eigu Stöðvar 2 til fréttaöflunar og dagskrárgerðar réði miklu þegar ég fór aftur niður á RÚV. 

Ég hafði sérhæft mig, vinnutíma minn og notuð tæki og tól fyrir það að vera á nokkurs konar "fréttaslökkvibíl" eða flugvél, og væri ég og þessi farartæki tiltæk allar stundir og alla daga ársins. 

Hins vegar var það ekki talið heppilegt, kostnaðarins vegna og vegna takmarkaðrar notkunar, að RÚV keypti og ætti jeppa af svona sérbúinni gerð.  

Niðurstaðan varð því að RÚV greiddi fyrir akstur samkvæmt akstursbók á torfærubílum í minni eigu samkvæmt almennum taxta ríkisins, sem miðaðist við bíl af meðalstærð. 

Til þess að geta farið af stað hvert sem væri, við öll skilyrði og hvenær sem væri með sem allra stystum viðbragðstíma, keypti ég breyttan jöklajeppa af Toyota Hi-lux gerð. Fiat.Fagrid.

Slíkur bíll var að sjálfsögðu miklu dýrari í rekstri en venjulegur bíll af meðalstærð, en staða mín sem nokkurs konar bakvaktarmann allt árið um kring til sérverkefna gerði þetta nauðsynlegt.

Ég reyndi að minnka kostnaðinn síðari hluta þessa tímabils með því að eiga hræódýra litla bíla með jöklajeppanum, þannig að meðaltalstaxtinn dygði í einstaka tilfellum ef ég notaði þá.

Myndin hér að ofan er af einum af slíkum bílum, örbíl af gerðinni Fiat 126 staddur á erfiðri jeppaslóð, svonefndri Álftadalsleið, með Fagradal og Herðubreið í baksýn. Suzuki Fox GTI v. Kverkfjöll

Einnig hefur fornbíll, minnsti jöklajeppi landsins, Suzuki Fox GTI ´86, verið notaður í jöklaferðir, hér kominn í Kverkfjöll í nokkurrra daga leiðangri Jöklarannsóknarfélagsins. 

Jöklajeppar urðu oftast ofan á, vegna þess að þótt verið væri að aka bílnum fyrir "venjulegt" verkefni, var aldrei hægt að vita fyrirfram hvort upp kæmu aðstæður eða atvik, sem krefðust öflugs farartækis og því best að hafa það tiltækt allan tímann. 

Á síðustu árunum hjá RÚV olli kostnaðurinn við rekstur jöklajeppan því að ég minnkaði kostnaðinn vegna fjárfestingarinnar í honum með því að fá mér gamlan breyttan Range Rover árgerð 73, (fremstur á neðstu myndinni),  sem hefur gengið undir heitinu "Kötlujeppinn" vegna stöðu hans.2 Rússar, GAZ 69´66, Niva ´96 og Range Rover´73  

Eðli málsins samkvæmt var auðvelt að færa dagbókina rétt, því að þetta var ævinlega spurning um að sýna afrakstur í formi mynda og frétta, sem kom glögglega fram í myndefninu og var tilgreint í dagbókinni. 

Þetta dæmi er nefnt hér til glöggvunar á því, af hverju þetta kerfi er við lýði og hver tilgangurinn er með því. 

Í mjög fjölbreytilegum verkefnum á vegum ríkisins verður seint fundið upp algerlega gallalaust fyrirkomulag, nema þá að gera það svo flókið og viðamikið að það eitt verði að galla.  

 

 


mbl.is Rekstur bílsins rúmar 2 milljónir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"The show must go on".

Þessi alþjóðlega krafa leikhúsa á hendur leikara er alþekkt og stundum er haft á orði að hún sé algild. 

Það kemur fyrir að leikari sé fenginn til þess að vera tilbúinn til að hlaupið í skarðið ef leikari forfallast, en oftast er það einfaldlega ekki hægt, og líka of dýrt. 

Líklega hafa allir, sem hafa fengist við það að koma fram á sviði lent einhvern tíma í vandræðum, jafnvel nokkrum sinnum. 

Geta uppákomur orðið skondnar þegar slíkt gerist. 

Á útmánuðum 2008 gerðist það til dæmis, þegar sýningar stóðu sem hæst á söngleiknum Ást í Borgarleikhúsinu, að ég fékk skyndilega gulu, það mikla gulu, að hvítan í augunum varð gul. 

Það var föstudagsmorgun þegar læknir, sem skoðaði mig, kvað upp úr með það að ég yrði að leggjast beint inn á Landsspítalann og það tafarlaust. 

Gulan væri það skæð, að möguleikar gætu verið á ýmsu alvarlegu og skyndilegu, svo sem gallsteinakasti. 

Auk þess væri hver einasti dagur dýrmætur þegar svona stæði á, til að fást við tilfellið. 

Ég benti honum á að það yrðu tvær sýningar á söngleiknum þessa helgi og að enginn gæti hlaupið í skarðið fyrir mig. 

Ég náði símasambandi við leikstjórann sem sagði að það yrði að fella þessar sýningar niður ef ég mætti ekki, og það væri mjög slæmt og dýrt fyrir alla aðila, bæði alla þá sem tækju þátt í þessari fjölmennu sýningu, áhorfendurna og leikhúsið sjálft. 

Það var erfið ákvörðun að óhlýðnast annað hvort leikhúsinu eða lækninum, en leikhúsið hafði vinninginn. 

Fyrir sýninguna var skotið á fundi baksviðs til að gera leikendum og starfsfólki grein fyrir þeim möguleika að ég gæti hugsanlega fallið úr leik í miðri sýningu. 

Nú kom sér vel að þessi söngleikur gerist á elliheimili og þess vegna voru meiri líkur en ella að meðal ellibelgjanna væru einhverjir sem hefðu reynslu af svona ástandi. 

Magnús Ólafsson hafði til dæmis einu sinni fengið gallsteinakast, og ég spurði hann ráða, hvernig ætti að bregðast við ef slík gerðist. 

Hann fékk hláturskast. 

"Bregðast við" sagði hann. "Þú getur ekkert gert, bókstaflega ekkert, - þú bara fellur á gólfið og getur ekkert annað en engst það í mestu kvölum sem hægt sé að ímynda sér að hægt sé að fá. Senan, sem þetta gerist í, breytist í það að reyna að koma þér til hjálpar og þú getur ekki leikið nokkurn skapaðan hlut, heldur verður þú í besta falli þér út um tilnefningu til Grímuverðlauna fyrir ósköpin."  

"Ég held ég viti af hverju þú ert með svona mikla gulu," sagði þá Hanna María Karlsdóttir, sem lék í sýningunni.  

"Hvaða lyf hefurðu fengið vegna uppskurðarins og sýkingarinnar miklu sem þú fékkst um daginn?"

"Augmentin", svaraði ég.

"Það er langlíklegasta orsökin" sagði hún.  "Ég fékk Augmentin vegna sýkingar hér um árið og þetta lyf er þess eðlis, að lifrin getur brostið hjá sumum og þá fá þeir gulu sem veldur slíkum ofsakláða, að þeir geta ekki sofið dúr í margar vikur. Það er helvíti á jörðu, en það þarf ekki að fella niður sýningar ef þessi er raunin." 

Það er fyndið eftir á að ég skuli hafa orðið feginn við að heyra þessa útskýringu Hönnu Maríu, því að það var ekki fyrr en þremur mánuðum eftir að ofsakláðinn brast á, sem "helvíti á jörðu" lauk fyrir mig. 

En, -  the show must go on" hélt velli.  

 

 


mbl.is Þjóðleikhúsið í klípu vegna Heimilistóna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 14. febrúar 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband