Þegar Freyr Jónsson kom Toyota í bobba.

Mörgum jöklajeppamönnum er ekki fisjað saman þegar um er að ræða að bjarga sér við ferlegar aðstæður víðsfjarri mannabyggðum. 

Freyr Jónsson heitinn var einhver magnaðisti afreksmaður sem hugsast gat við erfiðar aðstæður. 

Þegar leiðangur þriggja jöklajeppa undir forystu Arngrís Hermannssonar fór tvisvar yfir Grænlandsjökul vorið 1999 komust leiðangursmenn nokkrum sinnum í hann krappann, enda hafði jeppum aldrei fyrr verið ekið yfir jökulinn og hefur aldrei verið ekið síðan.

Einvalalið var í leiðangrinum, og Freyr var ómissandi ef eitthvað kæmi upp varðandi allan búnaðinn. 

Bæðí í upphafi og enda ferðanna þurftu leiðangjursmenn að berjast við mikinn krapa og kolsprungna skriðjökla. 

Í byrjun, á austurleið upp á jökulinn lenti einn jeppinn á bólakafi í krapi, og þegar búið var að bjarga honum upp úr krapinu tók ekki betra við, því að vatn hafði komist inn í vélina. 

Freyr dó ekki ráðalaus frekar en fyrri daginn og tókst að opna vélina, þurrka hana og skipta um olíu og loka henni aftur þarna úti í auðninni. 

Á leiðinni upp Grænlandsjökul til baka, spurði Freyr hvort ferðafélagar hans í jeppanum fyndu lykt. 

Þeir sögðust ekki finna neina lykt. 

Freyr sagðist vera að velta þessu fyrir sér og ók áfram. 

Nokkru síðar spurði hann aftur sömu spurningar og fékk jákvætt svar í þetta skiptið. 

"Hvernig lykt finnst ykkur þetta vera?" spurði hann. 

Þeir gátu ekki svarað því, lyktin var svo dauf. 

"Ég held að þetta sagði lykt af gírkassalegu" sagði Freyr, og skömmu síðar stansaði hann en lét þau boð út ganga að það yrði upp undir klukkustundar töf. 

Hóf síðan heilmikla viðgerð. 

Ég var farþegi í þessari ferð í því skyni að taka myndir og fréttir af henni og notaði tækifærið til þess að ná fallegum landslagsmyndum. 

Það stóð heima, að um klukkustund síðar hafði Freyr skipt um legu í gírkassanum!

Eftir heimkomuna bað Toyota umboðið mig um að skrifa grein í blað umboðsins, sem lá meðal annars frammi á biðstofu bifreiðaeigenda og frammi í afgreiðslunni. 

Var góður rómur gerður að greininni í fyrstu, en sú gleði entist ekki lengi. 

Næst þegar ég kom þangað fékk ég orð í eyra, en þó var það allt í gamni: 

"Ef við hefðum bara vitað hvaða vitleysu við vorum að gera hefðum við aldrei látið þetta liggja hér frammi.  Við lendum hvað eftir í vandræðum út af þessari grein." 

Ég varð undrandi og spurði, hvers vegna. 

"Nú, hér verða einstakir menn alveg öskureiðir þegar þeir sjá reikningana, sem verkstæðið gerir fyrir skipti á gírkassalegum og harðneita að borga stórfé fyrir viðvik, sem hægt er að afgreiða á broti úr þeim tíma, sem gefin er upp. Og þú getur ímyndað þér viðbrögðin við reikningum út af því að opna vélar, skipta um olíu i þeim og loka þeim aftur." 

Næst þegar ég átti erindi suður eftir var blaðið að sjálfsögðu horfið. 

En þessi afrek Freys og fleiri afrek hans lifa. 


mbl.is Gera við jeppa í 55 gráðu frosti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Jeppar" án fjórhjóladrifs. Búið að stúta hugtakinu.

Á örfáum árum hafa bílaumboðin á Íslandi stútað hugtakinu "jeppi" eins og það hefur verið notað síðan Willys jeppinn hélt innreið sína á Íslandi 1945.  

Raunar áttu bílaframleiðendur heims upptökin með því að búa til flokk bíla, sem hefur reynst þeim ábatasamastur síðustu ár, svonefndan SUV flokk, eða "Sport utility vehicle", sem höfðar mjög til þeirrar lúmsku hneigðar að bíll sé stöðutákn. 

Með íslenska heitinu jeppi var bandaríska heitið Jeep íslenskað - eða öllu heldur birt í íslenskt/danskri útgáfu, samanber danska leikritið Jeppi á fjalli.   

Einkenni jeppans voru þessi í réttri mikilvægisröð: 

1. Hann var með drif á öllum hjólum. Aðalatriði jeppans. 

2. Hann var með að minnsta kosti 18 sentimetra veghæð fullhlaðinn, og veghæðin varð ekki minni en þetta þótt bíllinn fjaðraði, af því að lægstu punktar voru hinir stífu lokuðu driföxlar eða hásingar. 

3. Jeppinn var með hátt og lágt drif og frekar háa yfirbyggingu.  

Þegar Subaru setti fjórhjóladrif í Leone fólksbíla sína 1976 og jók veghæð þeirra um 3 sentimetra datt engum í hug að kalla þá bíla "jeppa." Samt voru þeir með hátt og lágt drif.

Heldur ekki bandarísku AMC Eagle fjórhjóladrifsbílana, sem komu fram 1980 og voru hækkaðir álíka mikið. 

Ástæðan var einföld: Þegar þessir bílar voru fullhlaðnir, sigu þeir niður og þá fór veghæðin niður í 15-16 sentimetra - svipaða veghæð og var á Volkswagen bjöllunni hlaðinni, sem engum manni hafði nokkurn tíma dottið í hug að kalla jeppa. Subaruinn og AMC Eagle stóðust aðeins aðalatriðið í gerð jeppans, voru með fjórhjóladrif. 

Síðar varð til hugtakið "crossover" um bíla, sem voru til orðnir á þennan hátt. 

En á tiunda áratugnum fór ruglingur að sækja á með tilkomu fjórhjóladrifsbíla, sem voru af crossover gerð og voru með hærri yfirbyggingu en fólksbílar þess tíma, svo sem Toyota RAV 4 og Honda CRV. 

En veghæð þessara bíla fullhlaðinna var enn minni en á Volkswagen bjöllunni og við tók tími þar sem mönnum dagt í hug að kalla þessa fjórhjóladrifnu bíla "jepplinga." 

Hin allra síðustu ár hefur því miður orðið hröð þróun í þá átt að stúta hugtakinu "jeppi", einkum með því að sleppa því að bjóða þá fjórhjóladrif. 

Ástæðan fyrir fjölgun slíkra "jeppa" er sú, að við markaðskönnun kom í ljós, að þeir jepplingar, sem hægt var að fá án fjórhjóladrifs, seldust miklu betur en aldrifsbílarnir. 

Ástæðan var einföld, þeir voru ódýrari og vegna þess að útlitið var það sama gerðu þeir sama gagn sem stöðutákn. Ekki ónýtt fyrir bíleigandanna að vera heilsað svona:  "Komdu sæll. Þú ert heldur betur kominn á þennan fína jeppa." 

Nýjustu dæmin eru til dæmis Renault Captur og Citroen C3 Aircross, sem ekki er hægt að fá með fjórhjóladrifi. 

Í auglýsingum um hin annars vel heppnaða bíl C3 Aircross er réttilega gumað af 410 lítra farangursrými, - sem jafnvel sé hægt að stækka, - hinu stærsta í þessum flokki bíla. 

En hvers vegna er farangursrýmið svona stórt?

Það er af því að það rými sem afturdrif hefði tekið, er hægt að nota fyrir farangursrými. 

Rýmið er svona stórt af því að C3 Aircross "jeppinn" er ekki jeppi. 

Skoðum aftur atriðin þrjú og þá sjáum við að það er eiginlega ekkert eftir af frumatriðum jeppans nema að yfirbyggingin sé aðeins hærri en á fólksbíl: 

1. Þessir svonefndu "jeppar" eru ekki með fjórhjóladrif. 

2. Þeir eru ekki með 18 sentimetra veghæð fullhlaðnir, heldur síga niður í ca 13 sentimetra. 

3. Þeir eru ekki með hátt og lágt drif. En þeir eru með aðeins hærri yfirbyggingu en almennt gerist um fólksbíla. Það er allt og sumt, - en þessi yfirbygging hefur hins vegar því miður engin áhrif á "jeppa"eiginleika þessara svonefndu jeppa. 

Ég hef hitt nokkra eigendur svona bíla og þeir virðast hafa staðið í þeirri trú að þeir hafi keypt jeppa með drifi á öllum hjólum. Segja að minnsta kosti öllum sem heyra vilja, að þeir séu á jeppum og hafa þrætt við um það atriði að jepparnir þeirra séu ekki framleiddir með aldrifi. 

Og í reynsluakstri á vegum DV eru einstakir drifeiginleikar eins af þessum nýjustu "jeppum" dásamaðir á þann hátt, að hér sé nánast um yfirburða jeppaeiginleika að ræða. 

Þessi tilfinning í reynsluakstrinu fæst fram með því að hafa góða spólvörn á þessum framhjóladrifna bíl.  En ef hann væri fjórhjóladrifinn, myndi góð spólvörn á öllum hjólum auðvitað gefa honum miklu betri drifeiginleika. 

Eitt af nýjustu dæmunum um það hve mikið rugl er í gangi er, að í umsögn um einn af nýjustu "jeppunum" á markaðnum, var það sérstaklega tekið fram hve jeppalegur hann væri og uppfyllti vel jeppahugtakið, - að framendinn væri einstaklega "verklegur" vegna þess hve hann skagaði langt fram og væri hár og myndarlegur. 

Hvorugt gefur minnstu jeppaeiginleika, heldur þveröfugt, þetta eru ókostir fyrir bíl á jeppaslóðum.

Mikil og lág skögun neðsta hluta framenda er ávísun á vandræði á ójöfnu landi eða þegar ekið er yfir læki og árfarvegi og bíllinn rekst niður að framan, - og afar hátt húdd skerðir útsýnið fram á við eins mikið og mögulegt er, sem kemur sér afar illa í akstri á frumstæðum slóðum, þar sem útsýni er mikilvægt. 

Niðurstaða: Búið er að stúta hugtakinu "jeppi" og heilaþvo fjölda fólks eða rugla í ríminu. 

 

 


mbl.is Tveir bílar frumsýndir hjá Brimborg
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 16. febrúar 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband