Hálfri öld á eftir.

Til þess að átta sig á álitaefnum þarf oft að fara í vettvangsferð. Ekki síst þegar um er að ræða vegi, sem eru orðnir hálfrar aldar gamlir og virðast ekkert á útleið. Borgarfj eystri vegur

Síðastliðið sumar lá leið mín um marga af þessum vegum vegna dagskrárgerðar fyrir Ferðastiklur og einnig þegar ég fór á litlu "vespu"vélhjóli, 125 cc Honda PCX, báða hringina, hringveginn og Vestfjarðahringinn. 

Meðal veganna fyrir Ferðastiklur má nefna vegarónefnuna til Borgarfjarðar eystri, sem greint er frá í tengdri frétt á mbl.is og malarkaflann í sjálfum Þjóðvegi númer eitt í Berufirði. Léttir á Hrafnseyrar heiði

Þegar lagt var í að fara hringina tvo um miðjan ágúst var spurningin, hvort það væri yfirleitt ráðlegt að fara Vestfjarðahringinn. Á hjólinu var hljómflutningskerfi sem notað var til hljómleikahalds og kynningar á safndiskinum "Hjarta landsins" og mér leist ekkert á kaflann frá Þingeyri til Flókalundar, sem er 76 kílómetra langur. 

Við hjónin höfðum sem oftar farið til Patreksfjarðar á sjómannadaginn og svo virtist sem sá malarvegarkafli sem eftir er í Gufudalssveit myndi ekki verða mikil töf fyrir hjólið. 

Þegar til kom var kaflinn milli Þingeyrar og Flókalundar svo hrikalegur, að orð fá vart lýst. Léttir, holur á vegi nr.60

Niðaþoka og hellirigning var á Dynjandisheiði svo að erfitt var að ná myndum þar af holum, sem gáfu ekkert eftir holunum sem sjást á myndinni af veginum til Borgarfjarðar eystri. 

Verst var þó, að háar og hvassar brúnir voru á brúarendum hinna einbreiðu brúa á heiðinni, svo að um var að ræða hreina slysagildru, sem gat hoggið hvaða fólksbílsdekk í sundur sem var og skemmt felgur og fjöðrunarbúnað. 

Mátt nærri geta hvernig færi fyrir litlu hjólunum á Hondunni. 

Ferðin þessa 76 kílómetra, sem hefði tekið 50 mínútur á nútímavegi, tók meira en tvær klukkustundir.Léttir við Barðaströnd

Mikil feginstuna leið frá þreyttum ökumanni þegar komið var í Flókalund  og síðar þegar áð stutta stund þegar komið var að Fossá við austanverðan Vatnsfjörð. 

Eftir svaðilförina á hinum meira en hálfrar aldar gamla óvegi á Dynjandisheiði varð töfin í Gufudalssveitinni aðeins brot af því sem hafði þurft að yfirstíga milli Flókalundar og Þingeyrar. 

Enga afsökun er hægt að færa fram fyrir hinu arfa slæma ástandi veganna fyrir vestan og því ástandi, að Vestfirðir skuli vera eini landshlutinn, sem verður að sætta sig við að hafa engan flugvöll, sem hægt er að nota í myrkri og búa þar að auki við óvegi eins og Dynjandisheiði.

Fyrir löngu væri hægt að vera búið að gera nútíma veg yfir Dynjandisheiði og þvera Þorskafjörð með 10-11 kílómetra styttingu.  

 


mbl.is Íbúar ætla sjálfir að hefja vegagerð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Kuldi, þögn, myrkur og ósnortin náttúra."

"Hátt í þrjá áratugi tók að koma Snæfellsþjóðgarði á fót. Þjóðgarður á nyrsta hluta Vestfjarða verður ekki að veruleika í náinni framtíð. Svæðið er auk þess veðurfarslega eritt og aðeins aðgengilegt lítinn hluta af ári og því yrði starfsemi þar takmörkuð og tekjur sömuleiðis." 

Þessi vísdómsorð framkvæmdastjóra Vesturverks má lesa í grein í Morgunblaðinu s.l. föstudag þar sem þess er krafist af mér "dylgja ekki um verkefni,sem ég hafi ekki kynnt mér nægilega vel."

Og fyrirsögn greinarinnar er: "Hafa skal það sem sannara reynist." Með öðrum orðum að fara ekki með ósannindi byggð á þekkingarleysi eins og ég hafi gert. 

Þó þarf ekki lengi að skoða tilurð Snæfellsjökulsþjóðgarðs til að sjá að það tók sjö ár en ekki þrjátíu frá því að umhverfisráðherra stofnaði starfshóp 1994 um málið þar til þjóðgarðurinn var stofnaður 2001. Og önnur undurbúningsnefnd, sem stofnuð var snemma árs 2001 þurfti aðeins hálft ár til að klára verkið. 

Ummæli greinarhöfundar um hamlandi áhrif íslensks veðurfars eru lýsandi fyrir landlæga fordóma okkar um það hvað dragi erlent ferðafólk til landsins og hvað fæli þá mest frá því.

Að sögn finnsks blaðamanns, sem hafði alla sína tíð kynnt sér náttúru og ferðaþjónustu sérlega vel, og kom hingað til lands upp úr síðustu aldamótum, komu fleiri ferðamenn þá til Lapplands yfir vetrarmánuðina en komu til Íslands allt árið. Hann sagði að fjögur atriði, sem boðið væri upp á, væru lykillinn að þessu: 

"Kuldi, þögn, myrkur og ósnortin náttúra."

Ég, sem vændur er um að kynna mér málin ekki nægilega vel, fór í vettvangsferðalag um Lappland í febrúar 2005 og sannreyndi að þetta var rétt hjá hinum finnska blaðamanni. 

En hér á landi höfðu landlægir fordómar okkar slegið því föstu, að kuldi, þögn, myrkur og ósnortin náttúra væri einmitt það sem fældi útlendinga helst frá því að heimsækja land okkar. 

Orðin "veðurfarslega erfitt og aðeins aðgengilegt hluta af ári" í spánnýrri Morgunblaðsgrein framkvæmdastjóra virkjanafyrirtækisins lýsa þessum fordómum vel. Skyldi greinarhöfundur hafa farið í vettvangsferðir til samkeppnislanda til að "kynna sér málið nægilega vel"?

Það efast ég um. En hann vílar ekki fyrir sér að saka mig um að hafa ekki kynnt sér málin. 

Fordómarnir um fráhrindandi veður eiga reyndar ekki aðeins við norðanverða Vestfirði heldur allt Ísland, ekki síst hið víðlenda víðerni miðhálendisins. 

Eins og sést á tengdri frétt á mbl.is eru það fyrirbæri eins og þögn, myrkur og einstæð ósnortin náttúra einmitt það sem heillar ferðafólk frá fjarlægum suðrænum löndum, þar sem það hefur fengið nóg af sól og steikjandi hita og þráir nýja og eftirminnilega upplifun í öflugustu tegund ferðamennsku, upplifunarferðamennsku.   

 

 


mbl.is Ískaldir ferðamenn elska Ísland
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sturla varð ekki forseti. En Jón Gnarr brilleraði.

Það gustar af Vigdísi Hauksdóttur hvar sem hún fer og hún lífgar upp umhverfi sitt.

Ég hitti hana fyrr í vetur þegar við vorum bæði í þættinum "Í bítið" á Bylgjunni og mér líkaði vel við hana, fannst hún skemmtileg með sína frísklegu og glaðlegu framkomu.

Nú geysist hún á svið borgarmálanna og er ekkert að skafa utan af hlutunum heldur segist ætla að verða borgarstjóri. 

Og því ekki það?  Á sínum tíma hættu menn fljótlega að afskrifa að Jón Gnarr yrði borgarstjóri. 

Og því brá fyrir nú á dögunum að í skoðanakönnun á Útvarpi Sögu hefði meirhluti þátttakenda verið fylgjandi því að Vigdís fengi meirihluta. 

En því miður eru skoðanakannanir af þessu tagi á útvarpsrásunum í besta falli samkvæmisleikur, því að alls ekki er fylgt alþjóðlegum kröfum um framkvæmd skoðanakannana. 

Sem dæmi má nefna að það ástand kom upp fyrir síðustu borgarstjórnarkosningar, 2014, að listi Framsóknarmanna og flugvallarvina myndi fá meirihluta i kosningunum. 

En upp úr kössunum kom fimmfalt minna fylgi. 

Og á tímabili stefndi í það í skoðanakönnunum fyrir forsetakosningarnar 2016 að Sturla Jónsson yrði kjörinn forseti. 

En allt annað kom upp úr kjörkössunum. 

Velgengni Jóns Gnarr helgaðist af snilld hans við að nýta sér mesta vandræðagang í borgarmálunum, sem um gat frá upphafi vega, sex borgarstjórar á fjórum árum! 

Og hann varð fyrsti borgarstjórinn í áratug til þess að sitja nokkurn veginn vandaræðalaust í heilt kjörtímabil! 

Síðasti borgarstjórinn, sem sat heilt kjörtímabil á undan Jóni Gnarr var Ingibjörg Sólrún Gísladóttir 1998-2002. 

 

 


mbl.is Vigdís vill verða borgarstjóri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 18. febrúar 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband