Þegar KKÍ átti á hættu að fá refsingu.

Fyrir rúmum 40 árum gerðist eftirminnilegt atvik í kjölfar eins af alþjóðlegum leikjum Íslendinga í körfubolta. Ekki man ég lengur, hvort þetta var landsleikur, en það skiptir ekki máli. 

Á þeim tíma var ekki hægt að senda beint út frá íþróttaviðburðum, sem fóru fram utan Sjónvarpshússins, heldur flýtti maður sér af leiknum upp í Sjónvarp til að framkalla filmur og hljóðbönd, samræma hljóð og mynd, klippa böndin í klippiborði og lesa síðan lýsingu á leiknum eftirá. 

Til að lýsa leiknum kórrétt eftirá þurfti að notast við gögn um hann, og þar var leikskýrslan eitt gagnanna. 

Hún var í þremur eða fjórum eintökum, og fékk ég eitt eintakið lánað, fjólublátt að mig minnir. 

Allt gekk vel og leið nú og beið, leikurinn var sýndur og allt virtist hafa gengið upp. 

En einn góðan veðurdag koma tveir ábúðarfullir menn í heimsókn til mín og segjast vera stjórnarmenn í Körfuknattleikssambandinu. 

Erindið er að fá hjá mér mitt eintak af leikskýrslunni, því að nú hafið komið upp alvarlegt vandamál: Hin eintökin eru týnd. 

"Þetta getur orðið stórmál," segja þeir, "því að það getur varðað brottrekstri úr sambandi evrópskra körfuknattleikssambanda, ef svona mikilvægar skýrslur glatast." 

Ég fölnaði við að heyra þetta og sagði, sem satt var, að mitt eintak væri áreiðanlega týnt og tröllum gefið. 

"Þú hefur þó ekki hent því?" segja þeir. 

"Nei," en litla vinnuherbergið mitt er stútfullt af pappírum, sem ekki hefur gefist tími til að flokka." 

"Við erum alveg tilbúnir til að hjálpa þér við að finna skýrsluna" segja þeir. 

"Því miður," segi ég, "ég hef bara engan tíma til að fara í þetta." 

"Þú verður," segja þeir, "þetta er mjög brýnt og þú berð ábyrgð á skýrslunni."

Mér leist ekkert á blikuna og sá fyrir mér aukavinnu fram á nætur við að leita að þessu skjali.

Ég bauð þeim þess vegna að koma inn í kompuna mína og sjá þetta með eigin augum. 

Þeir göptu að undrun yfir þrengslunum, en spurðu hvort ég gæti opnað einhvern af þeim skápum, sem voru í um það bil mannhæð. 

Ég gerði það, og varð að halda hurðinni þétt að svo að ekkert dytti út. 

Sá að þeir voru að byrja að fatta ástandið, svo að ég bætti við, að næsti skápur við hliðina væri svo fullur, að eins og þeir sæu, væri troðið inn með henni nokkurs konar samanþjöppuðu kítti, til að tryggja að hún opnaðist ekki. 

"Sjáið þið bara, hvað þetta er tæpt", sagði ég, "og hvað það er gersamlega volaust að leita í þessu," um leið og ég losaði varlega um köggulinn, sem hélt hurðinni, opnaði smá rifu, svo að pappíraflóð rynni ekki út, en ætlaði síðan að troða kögglinum aftur inn í rifuna, þegar þeir spurðu: 

"Hvaða köggull er þetta?" 

"Þetta er bara einhver pappír sem ég hef vöðlað saman", svaraði ég. 

"Nei, bíddu", sögðu þeir. "Megum við sjá hann betur." 

"Þið verðið þá að halda hurðinni á meðan", sagði ég. "Af hverju eruð þið svona forvitnir um þetta?"

"Af því að þetta er svipaður litur og var á leikskýrslunni." 

"Ha! Ha!" hló ég, "það eru mörg hundruð svona pappírssnifsi hér inni."

Nú braut ég "snifsið" varlega í sundur og viti menn: Var hér ekki komin hin týnda leikskýrsla!

Og KKÍ þurfti ekki að óttast refsiaðgerðir Evrópusamband Körfuknattleikssambanda.

Og engar leikskýrslur lentu á glámbekk eftir þetta.   

 

 


mbl.is Var eftirlitsmaðurinn drukkinn?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Níðþröng og villandi sýn á alþjóðlegt hugtak.

Hvað eftir annað gerist það að menn misnota eða skilja ekki alþjóðlega hugtakið sjálfbæra þróun (sustainable development). Nýlega var fullyrt í fjölmiðlum að starfsemi Kárahnjúkavirkjunar væri svo einsstaklega gott dæmi um sjálfbæra þróun í framkvæmd. Leirfok, Kárahnjúkar

Þegar nánar var litið á þessa fullyrðingu kom í ljós að notkun hugtaksins var svo níðþröng, að hún jafngilti fölsun. 

Aðeins var litið á innri starfsemi virkjunarinnar og alls ekki horft eins vítt um sviðið og langt fram í tímann og krafist er í skilgreiningunni. 

Þar er krafan skýr um að aðgerðir í nútímanum megi ekki ganga á rétt komandi kynslóða, ekki bara þær allra næstu, heldur að minnsta kosti næstu aldir, til að þær geti valið sér sína þróun (aðgerðir, framkvæmdir, starfsemi). 

Kárahnjúkavirkjun er eimtthvert versta dæmið, sem hugsast getur um mestu mögulegu neikvæðu og óafturkræfu umhverfisáhrif sem hægt er að valda hér á landi, og þetta var staðfest í vinnu í rammaáætlun og mati á umhverfisáhrifum þessa mesta hervirkis okkar tíma á Íslandi. 

Mynd, sem ég ætla að birta, sýnir við hvað allar kynslóðir Íslands mega búa um aldir og árþúsundir, gríðarlegt leirfok af mannavöldum úr þurru lónstæði Hálslóns fyrri part sumars á hlýjustu sólardögunum, þegar sunnan hnjúkaþeyr rífur upp sinn skammt af milljónum tonna af fínum leir, sem Jökla og Kringsilsá hafa borið sumarið áður í lónið þegar það var fullt. 

Á myndinni er horft yfir ysta hluta Hálslóns í júlí og það rétt grillir í Kárahnjúka og Sandfell, en risastíflurnar þrjár eru á kafi í kófinu, sem varla er verandi í. 

 

Og síðari tíma kynslóðir munu síðan erfa lamaða virkjun vegna þess að Hjalladalur, sem sökkt var í miðlunarlónið, verður orðinn fullur af leir og drullu og miðlunin ónýt. 

Tengd frétt frá því í haust sýnir vel, hvernig menn einblína á þröng efnahagsleg og viðskiptaleg sjónarmið til skamms tíma þegar þeir nota hugtakið sjálfbæra þróun í tengslum við áhrif loftslagsbreytinga. 


Bloggfærslur 20. febrúar 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband