Loksins! Loksins! Mál Erlu er eftir.

Loksins! Loksins hefur það gerst, sem hefði átt að gerast fyrir löngu, löngu.

Geirfinns- og Guðmundarmálin setja mjög ljótan blett á orðspor íslensks samfélags á síðustu öld, og er með ólíkindum að hægt hafi verið að halda því fram að þær pyntingar, sem hafðar voru í frammi við sakborningana. 

Að það hafi verið nútíma menningar- og mannúðarsamfélag sem hélt einum sakborninganna í algerri einangrun í meira en sex hundruð daga eða hátt í tvö ár samfellt, er auðvitað fjarri lagi. 

Skömmin er íslenska þjóðfélagsins í heild, sem lét þetta viðgangast í hugarfari, sem minnti á galdraofsóknir fyrri alda. 

Ekki þarf að endurtaka hvernig málatilbúnaðurinn allur var farsakenndur og fáránlegur. 

Það eina sem skyggir á niðurstöðu setts ríkissaksóknara er að mál Erlu Bolladóttur skyldi ekki hafa verið tekið upp líka, því að það var algerlega samofið þeim ósköpum, sem meðferð málsins var á sínum tíma. 

Það verður að halda í vonina um að hún verði sýknuð líka, úr því að það tókst loks eftir fjóra áratugi að fá fram sýknukröfu á hina sakborningana.  


mbl.is Krefst sýknu að öllu leyti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Draumur stórhuga manns, á undan samtíðinni.

Við Ármúla, nokkrum húsum neðar en Hótel Ísland er nú, rak Ólafur Laufdal skemmtistað að nafni Hollywood á þann hátt að hann varð fljótlega sá vinsælasti í borginni. 

Flestir hefðu sennilega látið sér það nægja, en Ólafur var ekki maður sem svaf á lárviðarsveigum, heldur fór út í það að koma sér upp margfalt stærri skemmtistað í Mjóddinni með nafninu Broadway. 

Sá staður lék afar stórt hlutverk í sögu skemmtana, tónlistar og menningar um árabil og hefðu margir af þeim fjölmörgu heimsfrægu listamönnum, sem Ólafur stóð fyrir að fá til landsins, varla komið ef hans hefði ekki notið við, að ekki sé talað um vandaðar tónleikaraðir. 

Enn á ný hugsaði Ólafur hærra og nú varð til stærðar hótel, Hótel Ísland, með innbyggðum enn stærri skemmti- og menningarstað með nafninu Broadway. 

Blómaskeið hans stóð út eftir öldinni, en þegar bjórbanninu var aflétt 1989, fóru í hönd miklir breytingatímar, þar sem upp spratt fjöldi lítilla bjórkráa og skemmtistaða í stíl við hið gjörbreytta ástand.  

Þetta hafði smám saman afgerandi áhrif á rekstur Broadway og svo fór að Ólafur varð að horfa upp á að ekki var hægt að halda áfram á sömu braut. 

Einhverjir hefðu haldið að nú væri ævintýrið búið og að Ólafur sætti sig vel við glæsilegan feril á sínu sviði. 

En hann skynjaði nýja tíma fyrir "eitthvað annað", sem aðrir gerðu lítið úr og hóf uppbyggingarstarf á nýjum stað, að Grímsborgum í Grímsnesi. 

Sá staður hefur notið vaxandi og glæsilegri velgengni, enda leitun að duglegri, útsjónarsamari og klárari manni, hoknum af reynslu, en Ólafi Laufdal til að stjórna uppbyggingu og framförum þar sem hans nýtur við. 

Og nú, um síðir, kemur í ljós að sýn hans varðandi uppbyggingu í kringum Hótel Ísland var rétt allan tímann, þetta var bara spurning um tíma. 


mbl.is Skoða að stækka Hótel Ísland
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Afar nákvæm spá.

Klukkan níu voru stærstu vindhviður í Reykjavík 28 metrar á sekúndu, sem samsvarar ofsaveðri þá mínútuna. Þetta var mesti vindurinn í morgun, en klukkan tíu hafði hann dottið niður í 27 metra í mestu hviðum, einnig samkvæmt bókinni. 

Miðað við hraðann á þessari lægð eftir snögga sköpun og hinar gríðarlegu sviptingar á Atlantshafinu er athyglisvert hvað spáin um "hvellinn" hefur ræst upp á klukkustund. 

Héðan af er varla við miklum frávikum að búast og sex stiga hitinn, sem spáð var um miðjan dag kemur væntanlega eins og hlý gusa. 


mbl.is Nær hámarki um klukkan 9
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Einsdæmi hjá Sjálfstæðisflokknum fyrir borgarstjórnarkosningar.

Saga Sjálfstæðisflokksins við stjórn Reykjavíkurborgar skiptist í meginatriðum í tvennt: Fyrir 1994 og eftir 1994. 

Frá því um 1920 til 1994, eða í næstum þrjá fjórðu úr öld, höfðu hægri menn fyrstu árin en síðan Sjálfstæðisflokkur verið samfellt í meirihluta ef undan er skilið eitt kjörtímabil, 1978 til 1982 þegar vinstri flokkarnir náðu meirihluta með minnsta mun, sem þekkst hafði. 

Þegar öflugur foringi, Davíð Oddsson, kom til sögunnar 1982 og vann hvern sigurinn öðrum frækilegri 1982, 1986 og 1990, mátti halda að meirihluti Sjallanna í borginni væri eins konar pólitískt náttúrulögmál. 

Þó hafði flokkurinn hvað eftir annað fengið meirihluta borgarfulltrúa út á minnihluta atkvæða vegna þess að sundrung vinstri flokkanna varð til þess að nógu mörg atkvæði þeirra nýttust ekki. 

Merkilegt má heita að það skyldi ekki vera fyrr en 1994 að vinstri gerðu loksins eitthvað í því að nýta sér það að bera fram eitt sameiginlegt framboð. 

Davíð Oddsson skildi eftir sig tómarúm þegar hann hætti 1991, og svipað gerðist eftir að annar öflugur leiðtogi, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir hætti sem borgarstjóri 2003. 

R-listinn splundraðist og síðan þá hefur ekkert eitt framboð fengið meirihluta og veldi Sjálfstæðisflokksins í borginni hefur síðustu árin verið svipur hjá sjón. 

Margir gamlir Sjálfstæðismenn sakna hinna "sterku" leiðtoga í borginni sem leiddu samhenta fylkingu.  

Nú virðast vonir hafa vaknað um endurvakningu þessa með tilkomu Eyþórs Arnalds, og engu er líkara en að nú eigi að fylkja samhentri fylkingu að baki honum með meiri uppstokkun á framboðslista flokksins en dæmi eru um áður í langri sögu hans. 

Fylgi flokksins hefur verið það slappt í síðustu átta ár, að menn virðast tilbúnir til að taka þá áhættu, sem fylgir því að skipta nær öllum út, kannski með því að hugsa sem svo, að það sé hvort eð er ekki úr svo háum söðli að detta. 

Alger útskipti geta virkað í báðar áttir, hvort sem um er að ræða stjórnmál eða íþróttir. 

Dæmi um vel heppnuð umskipti í íþróttum var þegar helstu máttarstoðir íslenska landsliðsins i handbolta,sem gert höfðu garðinn frægan á sjöunda áratugnum, voru ekki settir í liðið í byrjun áttunda áratugarins, heldur var skipt inn á ungum og efnilegum leikmönnum, sem höfðu litla eða enga reynslu í landsliði. 

Þett bragð heppnaðist, ungu mennirnir reyndust menn framtíðarinnar, Íslendingar unnu Dani 15-10 og nýja landsliðinu var skotið á fulla ferð. 

Jafnoft eða oftar misheppnast hin vegar svona djarft bragð, til dæmis ef það lyktar af örvæntingu. 

 

 


mbl.is Listi X-D sagður tilbúinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 21. febrúar 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband