Braggahverfin og Höfðaborgin í den, - hluti Breiðholtsins núna?

Skilgreiningin á gettóum í Danmörku, sem nú er lagt til að skuli hlíta öðrum refsilögum en aðrir borgarhlutar, er sú að atvinnuleysi, tekjur og menntunarstig séu fyrir neðan ákveðna prósentu. 

Svo er að sjá, að samkvæmt þessum hugmyndum, sem sjá má að ýmsir á blogginu eru hrifnir af, muni ríkur og vel menntaður maður, sem hrindir gamalli konu og stelur af henni dýrum hlut í verslun, fá helmingi vægari refsidóm heldur en fátækur atvinnuleysingi í skilgreindu gettói fær fyrir sams konar afbrot. 

Einstæð ómenntuð móðir í Breiðholtinu myndi fá tvöfalt þyngri dóm fyrir að stela veski eða síma af manni heldur en vel menntuð og langskólagengin kona. 

Ég ólst í nokkur ár upp í Samtúni, en öðru megin við þá götu var svonefnd Höfðaborg, sem hýsti fátækt fólk. 

Krakkarnir við götuna léku sér saman og það hefði verið fróðlegt að sjá, hvort foreldrar Sæma hefðu fengið tvöfalt þyngri refsidóma og foreldrar mínir fyrir sams konar brot, til dæmis tvöfalt þyngri dóm fyrir beita einhvern hótunum um líkamsmeiðingar heldur en foreldrar mínir fyrir það sama.  

Eða ef við Sæmi hefðum báðir framið sams konar refisvert athæfi, sem unglingar í þessari götu, og þá hefði hann fengið tvöfalt þyngri dóm en ég. 

Og hefði átt að dæma tvöfalt þyngri fyrir afbrot á gangstéttinni norðan megin við götuna heldur en sams konar afbrot á gangstéttinni sunnan megin. 

Eða hvort Sæmi hefði á árum sínum sem lögreglumaður litið tvöfalt harðari augum á afbrot í braggahverfunum en á sams konar brot í fínu hverfunum. 

Kunnuglegt viðhorf má sjá hjá þeim, sem mæla þessari mismunun bót, sem sé það, að ástandið í gettóunum í Danmörku sýni, að fjölmenningarfólk hafi gert heildstæða árás á samfélagið og að það verði að láta hart mæta hörðu. 

Þetta hefur verið orðað hér á landi með setningunni "þetta eru nú engir kórdrengir" og var óspart notað í Geirfinns- og Guðmundarmálinu gagnvart ungu fólki, sem féll undir skilgreininguna utangarðfólk.  

Og þá vaknar spurningin um það hvort hópur vel menntaðs og ágætlega stæðs fólk, sem hefði verið þvingað með harðræði til að játa á sig tvö morð, hefði fengið tvöfalt vægari dóma en sexmenningarnir. 

Ekki þýðir að afgreiða þennan möguleika út af borðinu, því að ágætlega menntað og stætt fólk hefur í gegnum tíðina brotið af sér á þennan hátt.  

 


mbl.is Vilja þyngja refsingu fyrir brot í „gettóum“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sjálfsagður dagur. Óvart hátíðardagur okkar Helgu frá 1962.

Ég minnist Valdísar Gunnarsdóttur með hlýju frá þeim árum þegar við störfuðumm bæði fyrir Bylgjuna og Stöð 2. 

Einkum fannst mér vel til fundið hjá henni að koma Valtentínusardeginum á almanakið hjá okkur Íslendingum. 

Ýmsir gagnrýndu hana fyrir að vera að elta ameríska hefð, en dagurinn er miklu alþjóðlegri og eldri en það, að slík gagnrýni standist. 

Heilagur Valentínus var uppi fyrir næstum 2000 árum og dagurinn því ekkert síður evrópskur en amerískur. 

Þess ber að geta að langflestir hátíðisdagar hér á landi eru útlend fyrirbrigði í upphafi. 

Jólin, páskarnir, uppstigningardagur, 1. maí hvítasunnan, bolludagur, öskudagur og sprengidagur, allt eru þetta upphaflega erlendir hátíðisdagar. Íslenskir dagar, sem finna má í almaneki Háskóla Íslands, eru bóndadagur, konudagur, sumardagurinn fyrsti, 17. júní, verslunarmannafrídagurinn, dagur íslenskrar náttúru og dagur íslenskrar tungu.

Ég var kannski ekki alveg hlutlaus varðandi Valentínusardaginn, því að án þess að vita af því, héldum við Helga upp á 14. febrúar í tuttugu ár áður en við vissum að sá dagur væri Valentínusardagurinn!

Ástæðan var sú að við hittumst og byrjuðum að vera saman 14.febrúar 1961. 

Við vorum því sennilega á undan Valdísi hvað þetta snerti, en munurinn var sá, að við vissum ekki að þetta væri Valentínusardagurinn. 

Á gullbrúðkaupsári okkar 2011 tileiknaði ég henni lagið "Dagur elskendanna", sem getur líka átt við trúlofunardaga og brúðkaupsdaga, og úr því að verið er að tala um Valdísi Gunnarsdóttur þá er hér text lagsinsm en lagið sjálft hyggst ég setja öðru sinni á facebook síðu mína.  

 

DAGUR ELSKENDANNA. 

 

Þetta´er dagurinn okkar, sem eigum við nú, 

þegar örlögin réðust og ást, von og trú

urðu vegvísar okkar á ævinnar braut 

gegnum unað og mótbyr, í gleði og þraut. 

 

Þú varst hamingjusólin og heilladís mín

og ég hefði´aldrei orðið að neinu án þín. 

 

Ég í fögnuði þakka þegar faðmarðu mig

að hafa fengið að lifa og elska þig. 

 

Og til síðasta dags, ár og síð, hverja stund, 

þá mun sindra björt minning um elskenda fund. 

Ég við ferðalok þakka, - straumur fer þá um mig

:,: að hafa fengið að lifa og elska þig :,:


mbl.is Valdís var drottning útvarpsins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gamall draumur Norsk Hydro.

Séð frá Noregi er Reyðarfjörður anddyri að orku Íslands og upphaflega stóð til að Norsk Hydro reisti álver í Reyðarfirði og það með strangari kröfum um mengunarvarnir en Alcoa slapp með. 

Norsk Hydro dró sig til baka meðal annars vegna þess að í Noregi er mjög öflug náttúrverndarhreyfing sem fylgdist vel með málinu og studdi málstað íslenskra náttúruverndarsamtaka. 

Hákon Aðalsteinsson flutti Noregskonungi drápu og Erik Solheim, formaður norsku náttúruverndarsamtakanna, kom tvívegis til Íslands. 

Hann og Jan Riise, einn helsti virkjanasérfræðingur Norðmanna, voru sammála um það að Kárahnjúkavirkjun ylli margfalt meiri umhverfisspjöllum en versta virkjun Noregs, sem Gro Harlem Brundtland sagði í endurminningum sínum að hún sæi mest efir að hafa samþykkt. 

Eftir að Hydro dró sig til baka mátti fyrirtækið horfa upp á að Alcoa fengi miklu betri kjör en Hydro, til dæmis ákvæði í orkusölusamningnum sem skuldbindur Alþingi til þess að afsala sér rétti til að setja þak á það, hve miklar bókhaldskúnstir megi gera til að sleppa alveg við að greiða tekjuskatt af álgæsinni, en það samsvarar tugum milljarða króa á ári. 

Samkvæmt nýjustu fréttum getur gamall draumur Norsk Hydro ræst ef fyrirtækið kaupir álverið í Straumsvík, og séð frá Noregi fer fyrirtækið þá bakdyramegin inn á Íslandi. 


mbl.is Hydro gerir tilboð í álverksmiðju ISAL
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 26. febrúar 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband