Langvarandi íslenskur óskýr slappleiki?

Aðild íslenskra aðila að umdeilanlegum flutningum á vopnum og föngum eru ekki nýtt fyrirbrigði. 

Þrátt fyrir byltingu í flugmálum hvað varðar langdrægni flugvéla og fjölbreytilegar flugleiðir sem henni hefur fylgt, liggur Ísland oft vel við flutningum yfir Norður-Atlantshafið og hefur gert það allt frá því í Seinni heimsstyrjöldinni, þegar Keflavíkurflugvöllur varð afar mikilvægur bæði fyrir almannaflug og hernaðarflug.  

Eftir stríðið var gerður svonefndur Keflavíkursamningur um afnot Bandaríkjamanna af vellinum vegna hernaðarumsvifa þeirra í Evrópu, og Nýsköpunarstjórnin svonefnda sprakk vegna deilna um þann samning. 

Í Kalda stríðinu stóðu deilur hér innanlands um völlinn, starfsrækslu hans og notkun, og deilt var um hvort kjarnorkuvopn væru á vellinum og kjarnorkuvopn flutt um hann.

Eftir árásina á New York og Washington 11. september kom upp umræða um það hvort völlurinn væri notaður til millilendinga fyrir fangaflug Bandaríkjamanna, og urðu ekki allir sannfærðir um að við hefðum hreinan skjöld í því efni. 

Nú er starfsemi íslenskra flugfélaga búin að þenjast svo út um allar álfur, að nýjasta málið, umdeilanlegir vopnaflutningar með íslensku flugfélagi, þarf ekkert endilega að vera bundið Keflavíkurflugvelli. 

Svör samgönguráðherra um að verið væri að semja reglugerð um slíka flutninga gefur til kynna að enn sé á ferðinni óskýr hugsun eða slappleiki hjá íslenskum stjórnvöldum.  

Umræddir flutningar hafa verið leyfðir fram að þessu að því er kom fram í fréttskýringaþættinum Kveik í kvöld, en í viðtali við Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra í fréttum RUV í kvöld, áræddi hún ekki að ganga lengra en að segja að "andi" ályktunar Sameinuðu þjóðanna hefði ekki verið virtur í þessu máli, nú væri búið að neita um leyfi til svona flutninga og að verið væri að semja reglugerð, sem samræmdist frekar fyrrnefndum "anda." 

Kunnuglegt stef í vetur heyrist nú enn einu sinni, málið og matið óskýrt og huglægt á því sem gert hefur verið, en verið sé að "læra af þessu". 

 

 


mbl.is Telur íslensk stjórnvöld hafa brugðist
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kínverjar og Indverjar sækja fram.

Kínverjar eru mestu bílaframleiðendur heims og Indverjar sækja fram í iðnaðarframleiðslu víða um heim, ekki aðeins í framleiðslu á ódýrum bílum og vélhjólum og reiðhjólum, heldur líka á lúxusbílum. 

Konan mín ekur á indverskum bíl sem allir halda að sé japanskur Suzuki, Suzuki Alto. Hann var ódýrasti, einfaldasti og einn umhverfismildasti bíllinn á markaðnum þegar hún keypti hann, en hann er líka afar ódýr í rekstri og viðhaldi. 

Nú þegar eiga Kínverjar Volvo og þær verksmiðjur eru í sókn. En með því að gerast stærstu eigendur í Mercedes-Benz seilast Asíuþjóðir til áhrifa á markaði fyrir lúxusbíla, því að Indverjar eiga þegar Landrover með sína Range Rover bíla. 

Asíuríkin Kína, Taívan, Japan og Suður-Kórea hafa yfirburði á vélhjóla og reiðhjólamarkaðnum. 

Allar þessar þjóðir keppast við að ná sér í skerf af bruðli olíualdarinnar sem vestræn ríki innleiddu áður en hún er öll. 


mbl.is Kínverjar orðnir stærstu eigendur Benz
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Það er ekkert annað í boði".

"ÞAÐ ER EKKERT ANNAÐ Í BOÐI."

 

Þegar við fæðumst og færir oss yl 

framtíðar morgunroði

við engu´um það ráðum, að erum við til, 

það er ekki annað í boði. 

 

Þótt lántið oft hverfult í lífinu sé

og lítið oft viðleitnin stoði

líkami þinn var þér látinn í té, - 

það er ekki annað í boði. 

 

Ef misgjörðir fortíðar mæða þinn hug, - 

þótt mistökin öll við þig loði, 

Bættu þitt ráð, sýndu djörfung og dug, 

það er ekki annað í bóði. 

 

Ef hlutskipti betra þú þráir oft heitt

og þér ógna hættur og voði

engu um flest af því færðu hér breytt, 

það er ekki annað í boði. 

 

Og hvernig sem vera þín veltur og fer

í veraldar basli og moði

njóttu hvers morgundags eins og hann er, 

það er ekki annað í boði. 

 

Því jarðlífið sveiflast sem hverfanda hvel, 

í heilsunnni´er fjör eða doði. 

Er dauðinn þig tekur, þá taktu´honum vel, 

það er ekki annað í boði. 

 

Núið, hver stund, sem þú nota skalt vel, 

fæðing og dauði, - fjörbrot og hel, 

upphaf og stopp, - samt hluti´af eilífðarvél, - 

það er ekki annað í boði. 


mbl.is Hefur sjaldan verið í betra formi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 27. febrúar 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband