Lágmark að hafa fjórar í takinu.

Áður hefur því verið lýst hér á blogginu hvers vegna það sé nauðsynlegt fyrir þyrluflugsveit að hafa minnst fimm þyrlur til umráða, líkt og raunin varð hjá Varnarliðinu á Keflavíkurflugvelli á sínum tíma. 

Þetta er fyrst og fremst vegna þess hve þyrlur eru miklu flóknari loftför en flugvélar, þannig að þær þarf miklu meiri tíma til viðhalds en venjulegar flugvélar. 

Þegar um er að ræða að uppfylla flutningsgetu í áætlunarflugi, þar sem forsendan fyrir bókun viðskiptavina hefur verið ákveðin flugvélagerð og þægindi, svo sem á langleiðum, er varasamt þegar vélar til umráða eru aðeins þrjár. 

Það verður að gera ráð fyrir því að ein sé í reglubundinni skoðun og líka fyrir því að önnur kunni að bila. Og þá er bara eftir ein. 

Að vísu er hægt að bjarga í horn með því að nota minni og skammdrægari vélar til að hlaupa í skarðið, en þó er alltaf hætta á að einhverjir farþeganna verði ekki ánægðir með það.  


mbl.is Geta þurft að taka eldsneytisstopp
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samkomuhús geta líka verið merkar minjar.

Íbúðarhús á Íslandi eru eðli málsins samkvæmt sú gerð húsa sem voru og eru algengust. 

Þrátt fyrir allan þennan fjölda vantar mikið upp á að nógu mörg slík hús frá fyrri tíð hafi verið varðveitt í upprunalegri mynd.

Til dæmis eru til allmargir stórir torbæir á höfuðbólum, en sárvantar hins vegar lang algengustu bæina, litlu bæina þar sem öll alþýða fólks bjó. 

Sem dæmi má nefna gamla bæinn að Skarðsá í Sæmundarhlíð í Skagafirði sem stóð og var í byggð langt frameftir síðustu öld. 

Til er heimildarmynd, sem gerð var um Pálínu Konráðsdóttur, síðasta ábúandann á Skarðsá sem þar bjó. 

Í þeirri mynd kemur glögglega fram hvernig gengið var inn í bæinn í gegnum óhemju löng og þröng göng, sem lágu í gegnum bæinn endilangan. 

Hugsanlega höfð svona löng og mjó til þess að sem minnst af kulda kæmist inn í hjarta bæjarins utan frá þegar gengið var út og inn. 

Torfbærinn að Skarðsá var merkilegri en margir aðrir fyrir þá sök að þar var svonefndur Skarðsárannáll skrifaður, gott dæmi um þá menningarstarfsemi sem jafnvel minnstu torfbæirnir hýstu. 

Ef bærinn yrði endurreistur í fyrri mynd sem minnismerki um kjör íslenskrar alþýðu, hvernig hún "þraukaði hallæri, hungur og fár..." myndi Skagafjörður státa af tveimur mögnuðum minnismerkjum um misjöfn kjör Íslendinga, annars vegar glæsibæinn Glaumbæ og hins vegar alþýðukotbæinn Skarðsá. 

Útlendinga þyrstir í að fá nasajón af upplifuninni af kjörum örþjóðarinnar við ysta haf, og myndu undrast að eitt þekktast rit í landsfjórðungnum skyldi vera skrifað í kotbænum. 

Samkomuhús á Íslandi voru tiltölulega fá miðað við annan húsakost, og þess vegna á Sigmundur Davíð Gunnlaugsson heiður skilinn fyrir það að hafa á forsætisráðherratíð sinni sýnt varðveislu íslenskra menningarminja mikinn skilning og látið verkin tala. 

Í þeim efnum er helsta hættan sú að láta það trufla sig HVER reisti mannvirkið í stað þess að líta hlutlaust á það HVAÐ fór þar fram. 

Húsið, sem hefur hýst Nasa-salinn svonefnda, hét upprunalega Sjálfstæðishúsið og var reist fyrir tilstuðlan Sjálfstæðisflokksins. 

Strax í upphafi varð húsið eitt helsta samkomu- og skemmtanahús bæjarins og íslensku revíurnar áttu þar lokakafla blómaskeiðs síns.  

Að síðustu revíunum stóð hópur fólks, sem nefndi sig Bláu stjörnuna, og voru þar innanborðs ekki lakari listamenn en Tómas Guðmundsson skáld, Emil Thoroddsen tónskáld, Bjarni Guðmundsson blaðafulltrúi, leikararnir Haraldur Á. Sigurðsson og Alfreð Andrésson, revíusöngkonan Soffía Karlsdóttir og eftirherman Karl Guðmundsson. 

Gott ef Baldur og Konni og Árni Tryggvason áttu þar ekki líka spretti í bláendann.

Minnstu munaði í lok síðustu aldar að Austurbæjarbíó yrði rifið, en það hús geymir merka sögu í listalífi þjóðarinnar. 

Mér verður hugsað til gamla þinghússins og samkomuhússins að Engihlíð í Langadal sem dæmi um það hve nægjusamur landinn var í þessum efnum langt fram eftir síðustu öld. 

 


mbl.is Nasa-salur rifinn og endurbyggður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sígur á ógæfuhliðina hjá réttarríki lýðræðis.

Eftir að Íslendingar gerðust aðilar að Mannréttindadómstólnum í Strassborg, hefur Hæstiréttur Íslands verið margsinnis, bráðum tíu sinnum, verið rassskelltur af dómstólnum.

Mannréttindi og sjálfstæði fjölmiðla eru hornsteinar lýðræðisins, en sífellt bætast við dómar og úrskurðir, sem lækka einkunn Íslands í þessum efnum. 

Þótt Hæstiréttur og einstakir héraðsdómarar hafi of oft verið of þýlyndur við valdaöfl, svo sem í stjórnlagaþingkosningamálinu, geta einstakir sýslumenn þó gengið það langt í rangsleitni, að dómstólar setji ofan í við þá.

Úrskurður sýslumanns í lögbannsmáli Glitnis var einfaldlega svo augljóslega rangur, að það hefði verið nýtt met að endemum, ef honum hefði ekki verið hrundið. 

Lögbannið er því miður ekki í eina skiptið sem úrskurðir af því tagi sem sýslumaður felldi  og veikja trúna á íslensku réttarfari og íslensku lýðræði. 

En verst er, að langvinnur málarekstur þjónar þeim aðila málsins, sem síst ætti að hagnast á hinu eindæma rangláta lögbanni.  


mbl.is „Fólkið í landinu sem tapar“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 3. febrúar 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband